BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Dauðafæri eftir frábært jafntefli í Vín!

22.07.2021 image

Breiðablik gerði frábært 1:1 jafntefli gegn austurríska stórliðinu Austria Wien á útivelli í fyrri leik liðanna Sambandsdeild Evrópu í dag. Mark Blika gerði miðjumaðurinn knái Alexander Helgi snemma í seinni hálfleik eftir góða stoðsendingu frá Árna Vilhjálmssyni.  Blikaliðið spilaði mjög vel í leiknum og átti í fullu tré við þetta fornfræga lið. Reyndar má færa góð rök fyrir því að við höfum haft undirtökin í leiknum og með smá heppni hefðum við getað hirt öll stigin í leiknum. En þessi úrslit setja okkur í dauðafæri fyrir seinni leikinn sem verður í Kópavogi eftir viku. Nú verða Kópavogsbúar og allir stuðningsmenn Blika að fjölmenna á leikinn og styðja okkar lið til sigurs!

Byrjunarlið Breiðabliks í leiknum gegn Austria Wien:

image

Texti með mynd: Níu uppaldir Blikar spiluðu leikinn og er það góður vitnisburður um það frábæra starf sem unnið er í yngri flokkum félagsins.

Breiðabliksliðið sýndi sínar bestu hliðar í þessum leik. Boltinn fékk að rúlla vel milli manna og leystum við oftast auðveldlega úr vanmáttugum sóknartilburðum heimapilta. Varnarlína Blika með þá Damír og Viktor Örn í lykilhlutverki dekkuðu vel og fyrir aftan þá var besti leikmaður vallarins, markvörðurinn Anton Ari. Líklegast var þetta besti leikur hans í Blikabúningnum frá upphafi. Bæði var hann öruggur í öllum sínum aðgerðum og þrisvar sinnum í fyrri hálfleik varði hann stórkostlega frá sóknarmönnum Austri Wien. Reyndar áttu allir leikmenn Blikaliðsins fínan leik. Sérstaklega verður þó að geta góðrar frammistöðu miðjumannanna Alexanders Helga Sigurðarsonar og Olivers Sigurjónssonar. Alexander hljóp úr sér lungun þann tíma sem hann var inn á og Oliver átti fínan leik eftir að hafa verið utan liðs í nokkra leiki.

image

Alexander Helgi átti mjög góðan leik og skoraði jöfnunrmarkið á 47 mín.

image

Anton Ari Einarsson var besti leikmaður vallarins og líklegast var þetta besti leikur hans í Blikabúningnum frá upphafi.

image

AfmælisBliki dagsins, Viktor Örn Margeirsson, stóð vaktina í vörninni og gerði það með miklum sóma.

Töluvert margir Blikar mættu í Græna herbergið og fylgdust með leiknum í beinni útsendingu í toppgæðum. Við þökkum þeim feðginum Benna og Birtu fyrir tækniaðstoð varðandi leikinn. Það er gott að eiga svona gott fólk að! Byrjunin gladdi alla á staðnum. Okkar drengir voru mun sterkari á upphafsmínútunum og átti Damir meðal annars ágætt færi strax á upphafsmínútum leiksins. En markvörður heimapilta varði glæsilega frá honum. Á 14. mínútu sauð heldur betur á mannskapnum í Græna herberginu því færeyski dómarinn Kári Á Høvdanum var greinilega ekki með höfuðið á réttum stað og sleppti víti þegar Gísli Eyjólfsson var felldur í teignum. Var þá samþykkt einróma í herberginu að slíta stjórnmálasambandinu við Færeyjar!

image

Það var síðan þvert gegn gangi leiksins sem heimapiltar náðu forystunni skömmu fyrir leikhlé. En okkar piltar hengdu ekki haus og héldu áfram að spila laglegan bolta það sem eftir lifði leiks. Leikurinn var góð auglýsing fyrir íslenskan fótbolta enda var Blikaliðið mun meira með boltann allan leikinn. Við lentum nokkrum sinnum í vandræðum með háa bolta í teignum og var það í raun eina stöðubaráttan sem vorum undir í leiknum. Þjálfarateymið skoðar það mál örugglega fyrir seinni leikinn.

Hins vegar er ljóst að Blikaliðið er ekki síðra en það austurríska. Í því samhengi er vert að benda á að 9 uppaldir Blikar spiluðu þennan leik og er það góður vitnisburður um það frábæra starf sem Hákon Sverrisson og félagar hans eru að vinna í yngri flokkum félagsins.

Við erum því í dauðafæri að komast áfram í þessari Evrópukeppni.

-AP

Myndaveisla

Umfjallanir netmiðla

Miðasala á leikinn á fimmtudafinn er á tix.is:

image

Sjáumst öll á Kópavogsvelli á fimmtudaginn 29. júlí. Miðasala á tix.is

image

Til baka