BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Einn af þessum dögum

06.08.2023 image

Ég skal játa að ég vissi ekki hverju ég mátti eiga von á í dag..

Mikið álag á Blikum síðustu vikur, frammistaðan oft frábær, en það hafa líka verið merki um þreytu. Án þess að hafa grun um ástandið á einstaka leikmönnum eða hvernig æfingar ganga þá hefur stundum hvarflað að mér hvort það mætti nota fleiri leikmenn, við erum með nokkra góða leikmenn sem hafa ekki spilað mikið.

Nýr leikmaður ekki í hóp, ekki kominn með leikheimild ef ég skil rétt – enda, hvort sem er, kannski búinn að vera stutt. Ég þekki ekki til hans en vonandi stendur hann undir væntingum og fyllir að einhverju leyti upp í skörð fram á við eftir meiðsli, lán og sölu. Reyndar líta margir ungu leikmannana mjög vel út en væntanlega þarf meiri reynslu og breidd í hópinn fyrir þá leiki sem eru framundan.

Ég átti alveg eins von á liði fullu sjálfstrausts eftir alvöru spilamennsku í fjórum erfiðum leikjum í forkeppni / undankeppni meistaradeildarinnar – já, og það þurfti líka að klára „auðveldu“ leikina í for- forkeppninni / undan- undankeppninni. Nú eða liði sem væri orðið þreytt, það gæti verið erfitt að halda einbeitingu og mögulega sátu varnarmistök í mönnum.

Gestirnir hafa aðeins verið að gefa eftir í síðustu leikjum eftir að hafa náð góðum kafla.. engin leið að spá fyrir um hvort þeir næðu að snúa þeirri þróun við eða hvort það vanti einfaldlega meira hjá liðinu til að „standa í“ bestu liðum deildarinnar.

Í öllu falli, vonlaust að spá fyrir um leikinn, enda engin ástæða til – bara mæta og vona það besta.

En að leiknum..

Fljótt á litið virkaði byrjunarliðið sem fín blanda af góðum kjarna, leikmönnum sem þurfa að spila meira og svo hvíld fyrir nokkra þeirra sem hafa spilað hvað mest, en til taks ef á þyrfti að halda.

Leikurinn byrjaði illa, Anton rann í úthlaupi og KR-ingar fengu ódýrt mark eftir nokkur hálffæri okkar manna. Það tók ekki langan tíma að jafna, Ágúst afgreiddi boltann mjög svo snyrtilega í netið eftir að Anton Logi hafði þrjóskast við og komið boltanum fyrir.

Ég bjóst við að Blikar kæmust yfir fyrir leikhlé en þó að spilamennskan væri oft á tíðum fín þá voru skotin kannski ekki vel tímasett, ekki á rammann eða full laus – og svo skoruðu gestirnir (að mér fannst) frekar ódýrt mark. Ekki tókst að nýta færin til að jafna fyrir hlé en einhvern veginn fannst mér að það þyrfti ekki að vera svo snúið að klára verkefnið og sækja sigurinn í seinni hálfleik.

Það er ekkert sérstaklega góð hugmynd að gefa ódýr mörk, en staðan varð fljótlega 1-3. Þá kom kafli þar sem liðið sótti stíft, fullt af færum, enn fleiri hálffæri, þrjú stangarskot – en það var einhver ótrúleg „þrjóska“ í boltanum sem vildi einfaldlega alls ekki í netið. Ég var enn jákvæður og er sannfærður um að ef mark hefði náðst þarna hefði leikurinn unnist. Þess í stað ódýr aukaspyrna, ekki sá ég aðdragandann með sömu gleraugum og dómarinn, smá kæruleysi við að verjast og staðan orðin 1-4. Liðið gafst samt ekki upp, náði tveimur mörkum og átti vel inni fyrir því fjórða (jafnvel fimmta?), það eitt að fá eðlilegan uppbótartíma hefði væntanlega nægt. Það fyrra var sjálfsmark en seinna einstaklega fagmannlega afgreidd aukaspyrna fyrirliðans, frábært mark.

Anton Logi var valinn maður leiksins, nokkuð sem rímaði vel við minn smekk, en það voru margir að spila vel.

image

Anton Logi kosinn maður leiksins og fer fyrir vikið út að borða á ítalska veitingastaðnum Grazie Trattoria.

Auðvitað er fúlt að tapa svona leik. Það er alltaf fúlt að tapa leik. Og einhverra hluta vegna finnst mér alltaf enn verra að tapa fyrir KR en öðrum liðum. Og auðvitað var leikurinn ekki nógu góður, en hann var samt engan veginn alslæmur. Það hefði ekki mikið þurft til að hann hefði unnist. Mögulega er hausinn kominn annað..

En ég vil allan daginn og alla daga að liðið mitt spili góðan fótbolta, þó það kosti stöku sinnum að leikir tapist. Ég myndi seint vilja sjá liðið mitt liggja í vörn, dúndra boltanum eitthvað fram og vona það besta. Það skilar stundum árangri en hver nennir að horfa á þannig fótbolta?

Ekki ætla ég að kenna dómaranum um tapið – á góðum degi hefði leikurinn unnist hvort sem er. En ég kalla samt eftir smá samræmi [rangstöðu, hagnaði, peysutogi, brotum, spjöldum] og ég kalla eftir eðlilegum uppbótartíma.

Annað sem mig langar að benda öðrum liðum á að hafa í huga (þau lesa örugglega þennan pistil)… það er kannski freistandi að mæta Blikum með látum, spila fast og brjóta mikið í von um að leikmenn hlífi sér vegna Evrópuleikjanna framundan. En lakari lið deildarinnar eru svolítið að skjóta sig í fótinn, Blikar hafa dregið vagninn og skilað fleiri sætum til Íslands í Evrópukeppnum en önnur lið síðustu árin.

Valgarður Guðjónsson

Til baka