BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fallegt í bleytu og belgingi

22.09.2014

Blikar mættu Víkingum í 20.umferð PEPSI deildarinnar í gær. Veðrið var alveg frábært. Suðaustan, stormur 13- 21 metri á sekúndu og úrkoma með köflum. Hiti rúmlega 11°C. Glöggir vallargestir tóku eftir því að stundum rigndi úr öllum áttum og brögð voru að því að sumir væru blautir á bak við eyrun á meðan það rigndi upp í nefið á öðrum. Það kom samt ekki í veg fyrir að tæplega 900 manns létu sig hafa það að fara á völlinn og kannski það hafi verið pylsurnar og hoppkastalinn í boði Tengis sem trekktu, því varla bjuggust menn við góðum fótbolta við þessar aðstæður.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Damir Muminovic - Finnur Orri Margeirsson (F) - Elfar Freyr Helgason  - Arnór Aðalsteinsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Yeoman - Guðjón Pétur Lýðsson - Ellert Hreinsson
Elfar Árni Aðalsteinsson - Árni Vilhjálmsson

Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Oliver Sigurjónsson
Stefán Gíslason
Olgeir Sigurgeirsson
Elvar Páll Sigurðsson
Baldvin Sturluson
Davíð Kristján Ólafssson

Auk þeirra tæplega 900 áhorfenda sem mættu á völlinn í gær voru leikmenn Breiðabliks sannarlega mættir og þeir hófu leikinn af miklum krafti og fyrri hálfleikurinn í gær var sennilega það besta sem þeir hafa sýnt í sumar. Kraftur og barátta til fyrirmyndar og menn fóru ákveðnir í návígin og unnu þau flest. Þar fyrir utan gekk boltinn hratt og vel á milli manna (samherja) og þetta skilaði 2 flottum mörkum en þau hefðu sannarlega getað verið fleiri því nokkur ákjósanleg færi fengu okkar menn sem ekki náðist að nýta. Blikar ógnuðu fljótt við mark gestanna og fyrsta markið kom strax á 9. mínútu þegar Árni fékk langa sendingu frá Damir inn fyrir vörn gestanna. Hann tóka eina snertingu og lagði boltann til hægri og smellti honum svo í vinkilinn án þess að Ingvar kæmi nokkrum vörnum við. Glæsilegt mark. Áfram héldu Blikar og sundurspiluðu gestina hvað eftir annað. Höskuldur og Elfar Árni fengu góð færi en annað fór yfir og hinu var reddað á línu. Elfar Freyr og Árni áttu líka hættulega skalla en inn vildi tuðran ekki. Mark númer tvö kom svo 10 mínútum síðar, eftir góða sókn upp hægri vænginn þar sem boltinn barst til Ellerts. Hann tók á rás og fór framhjá varnarmanni Víkinga á miklum spretti og kom sér upp að endamörkum. Þaðan sendi hann boltann fyrir markið og litlu munaði að Elfar Árni næði boltanum við nærstöngina en það varð ekki og boltinn fór í gegnum pakkann og við fjærstöngina kom Árni á fleygiferð og renndi sér á boltann og kom honum örugglega yfir marklínuna. Staðan orðin 2-0. Höskuldur fékk svo annað færi, en þá sveik vinstri fóturinn og boltinn fór í hliðarnetið, og Arnór kom sér svo í vænlega stöðu en náði ekki að klára færið. Það var eiginlega bara eitt lið á vellinum lengst af en þegar leið á fóru gestirnir að hafa sig örlítið meira í frammi og fengu nokkrar hornspyrnur og eina aukaspyrnu sem nærri sköpuðu vandræði, en juku hjartslátt. Undir lok hálfleiksins hitnaði svo heldur betur í kolunum þegar leikmaður gestanna fékk réttilega rautt spjald fyrir háskalegt og gróft brot á Höskuldi. Eins og sást í PEPSI mörkunum var þetta  háréttur dómur en leikmenn og forráðamenn Víkinga voru ekki sáttir og var það að vonum. Enda mikið í húfi fyrir þá í baráttunni um Evrópusætið.

Í hálfleikskaffinu var margt skrafað en menn á einu máli um að þetta væri það besta sem Blikar hefðu sýnt í sumar. Enda ekki lengur sumar. Nú mátti bara ekkert slaka á og helst ná 3ja markinu fljótlega og klára leikinn. 2-1 gæti orðið vesen. Þó þeir væru bara 10.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri. Blikar með boltann og gestirnir að elta, en þetta var á heldur rólegri nótum en í fyrri hálfleik. Samt voru Blikar ekki lengi að koma sér í færi og Víkingar björguðu á línu þegar Árni skaut með tánni utan úr teignum eftir flotta sókn upp hægri vænginn. Svo átti Höskuldur hörkuskot á markið sem hrökk af varnarmanni í horn og áfram hélt þetta svona linnulítið. Skömmu síðar komst svo Árni einn í gegn en var felldur af varnarmanni. Þarna hefði átt að vera víti og annað rautt, rétt eins og úti í Eyjum þegar Höskuldur var felldur fyrir framan nefið á dómara og aðstoðardómara. Maður skilur ekki hvað er í gangi þegar svona atvik koma upp og ekkert er dæmt. Þetta er óþolandi og þarna á kannski við það sem Kolbeinn kafteinn hafði á vörum sér í eina tíð og hljómar svo í íslenskri þýðingu í  drottins nafni og fjörutíu;
,,Nei! Níu milljón nautheimsk náhveli!“

Blikar héldu svo áfram að þjarma að gestunum og ekkert sem benti til að það yrði vesen. Ellert komst í gott færi en Ingvar varði vel og Árni komst einn í gegn og lék á Ingvar en var kominn nokkuð utarlega í teiginn og ekkert varð úr. Blikar gerðu svo breytingar á liðinu þegar c.a. 20 mínútur voru eftir. Höskuldur og Andri Yeoman yfirgáfu sviðið nokkuð lerkaðir og inn komu Davíð Kristján og Baldvin. Davíð tók stöðu Höskuldar og Baldvin fór inn á miðjuna fyrir Andra. Áfram héldu Blikar og Árni átti skrautlega bakfallsspyrnu sem fór framhjá og Arnór átti hörkuskot með vinstri fæti sem var varið. En svo kom vesen. Okkar menn leyfðu gestunum að dúlla sér með boltann og skyndilega var einn þeirra við að sleppa í gegn og féll við þegar Arnór reyndi að ná boltanum. Vítaspyrna dæmd og úr henni skoruðu gestirnir og staðan orðin 2-1. Þarna fór nú örlítið um suma Blika, utan vallar a.m.k. Og Víkingar geystust svo strax í aðra sókn en hún rann því betur út í sandinn. En okkar menn náðu fljótt vopnum sínum og skömmu síðar gerðu þeir út um leikinn þegar Árni kláraði þrennuna með stæl. Blikar fengu horn og úr henni varð klafs en loks barst boltinn aftur að teig gestanna þar sem einn Bliki náði að nikka boltanum til Elfars Árna og henn lagði hann út til vinstri á Árna. Hann negldi sláin inn eins og ekkert væri. Með vinstri. 10 mark Árna í PEPSI deildinni.
En Blikar voru ekki hættir og héldu áfram að hrella gestina sem voru nú heillum horfnir. Tóku samt tíma í síðustu skiptinguna og Oliver kom inn fyrir Damir. Og síðasta mark okkar mann kom svo upp úr velheppnaðri hornspyrnu sem Guðjón tók. Hann sendi fastan bolta með grasinu út í teiginn og þar kom einn Bliki og hljóp yfir boltann en þar fyrir aftan kom Ellert á fleygiferð og kórónaði góðan leik sinn, og Blika, með því negla boltann í netið.
Leiknum lauk því með sanngjörnum og kærkomnum 4-1 sigri okkar manna og með honum erum við sennilega laus við þessa leiðinda botnbaráttu sem hefur skert lífsgæði margra Blika í sumar og var sannast sagna ekki á bætandi í þessari sudda – og rigningartíð. En nú geta menn semsagt endurheimt gleði sína.
Framundan er leikur gegn Þór fyrir norðan og þangað ætla leikmenn eflaust að sækja 3 stig og freista þess að koma sér ofar í töflunni. Mótið er ekki búið og það má að skaðlausu laga markatöluna og vinninghlutfallið. Við þolum það alveg.

Liðið var flott í gær.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka