BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fallið með sæmd!

28.08.2023 image

Ungt og efnilegt Blikalið varð að sætta sig við 5:3 tap gegn sterku liði Víkinga í Fossvoginum í Bestu deild karla í gærkvöldi. Það verður að hrósa þeim grænklæddu fyrir gríðarlega baráttu og stemmningu en föst leikatriði heimapilta og mistök dómaratríósins urðu Blikaliðinu að falli að þessu sinni. En Blikar geta haldi hnarrreistir frá þessum leik og byrjað undirbúning að hinum gríðarlega mikilvæga heimaleik gegn FK Struga frá N-Makedóníu á Kópavogsvelli á fimmtudaginn.

,,Minn herra á aungvan vin,“ skrifaði Halldór Laxness í Íslandsklukkunni og á það mjög vel við Blikaliðið í aðdraganda þessa leiks. Við reyndum ítrekað að fá leiknum frestað en komum alls staðar að lokuðum dyrum. Þjálfarar og forráðamenn heimaliðsins höfðu meðal annars stór orð uppi um að þeir vildu allt fyrir okkur gera. En þegar á reyndi voru þetta innantóm orð og í raun hafði engin áhuga á aðstoða okkur. Við verðum því bara að treysta á okkur sjálf og gerðum það með sóma. Þjálfari Víkinga sagði meðal annars að ,,karma bítur“ og verður áhugavert að heyra harmakveinin úr Fossvoginum þegar þeir röndóttu verða hugsanlega í sömu stöðu og við eftir ár!

Allur þessir farsi í aðdraganda leiksins varð meðal til þess að við mótmæltum á táknrænan hátt með því að leikmennirnir hituðu upp á Kópavogsvelli fyrir þennan leik. Komu síðan ekki á völlinn fyrr en skömmu fyrir leik og þá með rútu fullklæddir. Þetta skapaði töluverða spennu, bæði á vellinum og á samfélagsmiðlum. Héldu sumir að okkar strákar myndu ekki einu sinni mæta í leikinn. Einnig ,,bilaði“ tölvukerfið á Kópavogsvelli og því ekki hægt að senda inn leikskýrsluna fyrr en skömmu fyrir leik. En tæplega 2 þúsund manns mættu á völlinn og er það áhorfendamet á leik í Bestu deild karla á þessari leiktíð.

Þessi sáfræðihernaður virtist slá Víkinga nokkuð út af laginu í byrjun leiks. Við byrjuðum mun betur og var meðal annars Kristófer Ingi Kristinsson, í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Blikaliðið, hársbreidd frá því að koma okkur yfir. En smám saman náðu heimapiltar vopnum sínum og við vorum í erfiðleikum með föst leikatriði þeirra og styrkleika þeirra í loftinu. Eftir rúman hálftímaleik var staðan orðin 2:0. Fór nú um marga Blika austan hafs og vestan en það var algjör óþarfi. Við héldum áfram að herja á Fossvogspiltana og Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði gott mark eftir snyrtilega stoðsendingu frá Andra Rafni. Staðan 2:1 þegar dómarinn flautaði til leikhlés.

Víkinga pressuðu okkur mun framar í síðari hálfleik og virtust við eiga í erfiðleikum með að spila út úr þeirri stöðu. Svo komu hrikaleg mistök hjá aðstoðardómaranum. Eftir þversendingu skoraði einn lítill Víkingur mark en hann var svo hrikalega rangstæður að jafnvel rangeygðustu menn sáu það. En ekki aðstoðardómarinn. Þetta var eiginlega vendipunktur í leiknum. Heimapiltar bættu við tveimur mörkum og voru einhverjir farnir að sjá fyrir sér rassskellingu. En ungmennin í Blikaliðinu bitu í skjaldarendur og settu tvo góð mörk áður en dómarinn flautaði til leiksloka. Fyrst skoraði Ásgeir Helgi Orrason sitt fyrsta mark fyrir Blikaliðið og síðan bætti Kristófer Ingi Kristinsson við gullfallegu marki en það var einnig fyrsta markið hans fyrir sinn nýja klúbb.

image image

Hrósa verður öllu Blikaliðinu fyrir þennan leik. Þrátt fyrir reynsluleysi flestra leikmanna á þessu efsta stigi knattspyrnunnar á Íslandi stóðu þeir sig með miklum sóma. Þeir báru enga virðingu fyrir sterkum andstæðingum og börðust eins og ljón allan tímann. Stundum bar kappið fegurðina ofurliði en það er eðlilegt.  Vert er að benda á að ekkert annað lið hefur skorað þrjú mörk gegn Víkingum á þessari leiktíð! Þessi leikur fer því í reynslubankann mikilvæga og mun styrkja okkur í þeim verkefnum sem framundan eru.

Það mætti skrifa bæði vel og lengi um aðdraganda þessa leik. En eins og Óskar Hrafn þjálfari sagði eftir leik þá hefur það ekkert upp á sig. Við Blikar lærðum að sykurhúðaðar yfirlýsingar forsvarsmanna knattspyrnunnar á Íslandi um mikilvægi þess að íslensk félagslið nái langt í Evrópukeppni eru hjóm eitt.  Þetta skapar bara vesen fyrir KSÍ og önnur lið hafa lítinn áhuga að sjá okkar drengir komast í ríðlakeppni Sambandsdeildarinnar. En okkur er í raun alveg sama. Við erum á þessari vegferð og ætlum að standa okkur vel - landi og þjóð til sóma! Því er lagt til að áhorfendur fjölmenni á Kópavogsvöll á fimmtudaginn og styðji Breiðabliksliðið til sigurs!

Íslandi allt!

-AP

Til baka