Fékk ekki á sig mark í 900 mínútur fyrir hlé
03.01.2016Grein úr Íslensk Knattspyrna 2015 birt hér með góðfúslegu leyfi Víðis Sigurðssonar:
"Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Blika, setti eitt met og jafnaði annað á frábæru tímabili sínu með Breiðabliki í úrvalsdeild karla þar sem hann fékk aðeins á sig 13 mörk í 22 leikjum. Enginn markvörður hefur fengið færri mörk á sig á heilu tímabili í tólf liða deild og enginn markvörður hefur heldur haldið marki sínu oftar hreinu á einu tímabili síðan deildin varð fyrst skipuð tíu liðum 1977.
Gunnleifur hélt marki sínu hreinu í 12 leikjum af 22 eða 55 prósent leikjanna. Hann bættist þar með í hóp með Valsmanninum Sigurði Haraldssyni (1978) og Framaranum Birki Kristinssyni (1988) sem höfðu líka náð að halda marki sínu tólf sinnum hreinu á einu tímabili en gerðu það þó báðir í aðeins 18 leikjum.
Gunnleifur hélt meðal annars hreinu í 7 af 10 leikjum Blika á móti efstu sex liðum úrvalsdeildarinnar og hann fékk líka aðeins á sig mark í fjórum af síðustu tólf leikjum Breiðabliks í deildinni.
Tölfræði segir að þetta sé besta tímabil Gunnleifs en hann fagnaði fertugsafmæli sínu í júlí. Tvö önnur eftirminnileg tímabil hans eru þegar hann hélt 7 sinnum hreinu og fékk aðeins 4 mörk á sig í 10 síðustu leikjum KR sumarið 1998 og þegar hann hélt tíu sinnum hreinu í 21 leik á Íslandsmeistarári FH 2012.
Gunnleifur jafnaði met Sigurðar og Birkis yfir flesta leiki haldið hreinu en hann náði ekki að ógna meti þeirra í fæst mörk á sig í leik. Báðir fengu þeir Sigurður og Birkir aðeins á sig 8 mörk í 18 leikjum þessi tvö sumur, 1978 og 1988. KR-ingurinn Stefán Jóhannsson (1986) er líka ofar á listanum en Gunnleifur kemst upp í fjórða sæti og er að sjálfsögðu í toppsætinu af þeim markvörðum sem hafa spilað í tólf liða deild.
Gunnleifur, sem fékk aðeins 0,59 mörk á sig að meðaltali í leik, bætti þar tvö met FH-ingsins Róberts Arnar Óskarssonar frá 2013 og 2014. Róbert fékk bara á sig 0,74 mörk í leik sumarið 2013 en spilaði ekki allt tímabilið (19 leikir) þó að hann hafi náð lágmörkunum (70 prósent leikja). Róbert Örn lék hinsvegar alla 22 leikina árið eftir og fyrir þetta frábæra tímabil Gunnleifs í sumar hafði enginn markvörður fengið á sig færri en 17 mörk á 22 leikja tímabili í efstu deild á Íslandi líkt og Róbert Örn afrekaði tímabilið á undan.
Aldrei skorað hjá Gunnleifi fyrr en á 38. mínútu
Gunnleifur hélt ekki bara hreinu í tólf leikjum því hann fékk ekki mark á sig í fyrri hálfleik í tuttugu síðustu leikjum Breiðabliks í úrvalsdeildinni og það var ennfremur ekki skorað hjá honum á fyrstu 38 mínútum leikjanna í allt sumar. Einu mörkin sem Gunnleifur fékk á sig í fyrri hálfleik komu í fyrstu tveimur leikjunum. Fylkismaðurinn Albert Ingason skoraði hjá honum á 39. mínútu í 1. umferð og þá skoraði KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson í uppbótartíma fyrri hálfleiks í 2. umferð. Síðan Oliver Sigurjónsson kom inn á miðju Blikanna í 3. umferð fékk liðið ekki eitt mark á sig á fyrstu 45 mínútum leikja sinna. Gunnleifur spilaði því 900 síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik í sumar án þess að þurfa að sækja boltann í markið.
Gunnleifur hélst annars lengst hreinu í fjórum leikjum í röð og í samtals 451 mínútu frá því um miðjan maí fram í byrjun júní. Gunnleifur hélt einnig hreinu í þremur leikjum í röð og í 374 mínútur um mánaðarmótin júlí og ágúst. Aðeins einn annar markvörður náði að halda hreinu í fjórum leikjum í röð og það var Skaga-maðurinn Árni Snær Ólafsson (382 mínútur) undir lok tímabilsins.
- Óskar Ófeigur Jónsson"