Finnur Orri til prufu hjá Sandefjord í Noregi
14.01.2013Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur gefið Finni Orra Margeirssyni, fyrirliða meistaraflokks karla, leyfi til að fara á prufu til norska 1. deildarliðsins Sandefjord.
Sandefjord féll úr úrvalsdeildinni árið 2010 en hefur fullan hug á því að komast í hóp þeirra bestu í Noregi á nýjan leik.
Þrátt fyrir vera aðeins rúmlega 21 árs gamall hefur Finnur Orri þegar spilar yfir 100 leiki í efstu deild karla. Hann vann sér sæti í byrjunarliði meistaraflokksins árið 2008 aðeins 17 ára gamall og hefur spilað flesta leiki liðsins síðan þá. Hann á 28 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og verið fyrirliði í öllum aldurshópum.
Það þarf vart að taka það fram að það yrði mikið skarð fyrir skildi ef Finnur Orri færi í atvinnumennsku. Flestir Blikar skilja hins vegar að það er bara spurning hvenær en ekki hvort fyrirliðinn okkar fer í atvinnumennsku.
Blikar.is óskar Finni Orra alls hins besta í þessari Noregsferð.
Hér er slóð á heimasíðu klúbbsins.
-AP