Frábær byrjun gegn Brentford!
03.02.2022
Blikar unnu flottan 2:1 sigur gegn ungu og frísku liði Brentford pilta frá Englandi í fyrsta leik á Atlantic Cup mótinu 2022. Sigur Blikaliðsins var sanngjarn en tæpur undir lok leiks.
Anton Ari varði þá eins og berserkur og kom í veg fyrir að enskurinn næði að jafna. Mörk þeirra grænklæddu settu Damir Muminovic og Kristinn Steindórsson í sitt hvorum hálfleiknum.
Mörkin voru bæði mjög góð og lofar þessi leikur góðu fyrir framhaldið.
Breiðablik var miklu betra liðið í fyrri hálfleik. Það var eingöngu fyrstu 5-10 mínútur leiksins sem Englendingarnir náðu eitthvað að trufla skemmtilegt spil Blikaliðsins. Mjög mikil keyrsla var á Kópavogspiltunum og vissu Brentford menn stundum ekki hvort þeir voru að koma eða fara. Við fengum nokkur mjög góð færi til að ná forystunni og vorum næst þvi þegar Gísli setti knöttinn í stöng eftir fallegt gegnumbrot. En það var markaskorarinn mikli Damis Muminovic sem átti frábært hlaup eftir hornspyrnu og setti boltann með þéttingsföstu skoti í nærhornið.
Enski þjálfarinn hefur sjálfsagt lesið vel yfir sínum mönnum í leikhléi. Þeir pressuðu okkur mjög framarlega en við vorum trúir okkar leikkerfi og spiluðum hvað eftir annað út úr pressunni. Það skilaði að lokum frábæru marki. Strákarnir okkar spiluðu hratt fram hjá Brentfordpiltum sem reyndu hvað þeir gátu að ná knettinum af okkur. En að lokum fékk töframaðurinn Kristinn Steindórsson knöttinn í teignum, fíflaði varnarmanninn upp úr skónum og setti knöttinn með fastri Nistelroy spyrnu ofarlega i markhornið. Algjör snilld! Staðan orðin 2:0 og kættust Blikahjörtu um allan heim.
En þá var farið að fjúka í þá rauðklæddu. Pressan á okkur jókst og henti þjálfarinn þeirra ungum og frískum leikmönnum í sóknina. Það skilaði sér fljótlega í marki en þar hefðu varnamenn Blika átt að sýna meiri greddu í stað þess að heimta brot. Það kann aldrei góðri lukku að stýra heldur eiga menn að einbeita sér að því að koma knettinum út úr teignum. En Anton Ari var vandanum vaxinn það sem eftir lifði leiks. Hann bjargaði 2-3 sinnum með frábærri markvörslu og við sigldum 3 stigum í hús.
Næsti leikur Blika er gegn dönsku meisturunum í Mydtjylland á sunnudag kl.19.30. Sá leikur verður sjálfsagt strembnari en þessi í dag því Danirnir eru með frábært lið. En miði er möguleiki og Stöð 2 sýnir leikinn í einni af sportrásunum sínum.
Klippur úr leiknum í boði Blikar TV: