Frábær frammistaða í Ísrael!
22.09.2023
Þrátt fyrir 3:2 tap fyrir Macabi Tel Aviv í fyrsta leik Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu geta Blikar verið stoltir af frammistöðu sinni. Það blés ekki byrlega því heimapiltar komust í 3:0 en okkar drengir gáfust ekki upp. Tvö mörk frá færeyska töframanninum Klæmint Olsen settu spennu í leikinn. En mikill hiti og erfiðar vallaraðstæður sáu til þess að Blikar áttu ekki nægjanlega mikið eftir á tankinum til að jafna leikinn. En þessi úrslit sýna að allt er mögulegt í þessari keppni.
Byrjunarliðið hjá Blikum gegn Maccabi Tel Aviv????#eittfyrirklúbbinn pic.twitter.com/5IE4Ch65Py
— Blikar.is (@blikar_is) September 21, 2023
Blikar byrjuðu reyndar leikinn af miklum krafti og komu Ísraelsmönnunum nokkuð á óvart. Bæði Gísli og Jason Daði komu sér í góðar stöður en það vantaði lokahnykkinn til að skora. Svo skoruðu þeir hvítklæddu draumamark með þrumskoti af 30 metra færi. Lítið sem var hægt að gera í því. En svo komu tvö önnur mörk áður en 30 mínútur voru búnar af leiknum. Með smá meiri einbeitingu hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau mörk. Sérstaklega var þriðja markið svekkjandi en þar blandaðist saman óvarkárni hjá okkur, óheppni og slakar staðsetningar hjá okkur í vörninni.
Héldu nú margir að Blikaliðið myndi brotna. En annað kom á daginn. Liðið gafst ekki upp og skömmu fyrir leikhlé skoraði Klæmint mjög gott mark eftir frábæra spilamennsku þeirra grænklæddu. Anton Logi þræddi knöttinn á Alexander Helga sem sendi þéttingsfasta sendingu á Jason Daða út á kantinn. Mosfellingurinn knái átti síðan hárnákvæma sendingu fyrir markið þar sem Klæmint gerði vel í því að koma knettinum í markið.
44' Okkar maður Klæmint Olsen að skora eftir fyrirgjöf frá Jasoni Daða. Staðan 1:3. pic.twitter.com/4vezLCKvcZ
— Blikar.is (@blikar_is) September 21, 2023
Blikar hófu síðari hálfleikinn á margan hátt líkt og þann fyrri. Við pressuðum Tel Aviv búana ofarlega og settum nokkrum sinnum pressu á vörnina hjá þeim. Svo var komið að því að spila Ólsen, Ólsen því Færeyingurinn setti annað markið sitt en að þessu sinni með kollinum eftir hornspyrnu frá Höskuldi fyrirliða.
53' Vera okkar manna inn í teig Maccabi skilaði marki. Aftur skorar Klæmint eftir hornspyrn. Stangar boltann í netið á fjærstöng. Staðan 3:2 fyrir heimaliðið. pic.twitter.com/aoNM9mGLmr
— Blikar.is (@blikar_is) September 21, 2023
En því miður fór mikil orka í skora þessi tvö mörk og smám saman rann sóknarþungi okkar út í sandinn. Hitinn var mikill og raki þannig að smám saman tóku heimapiltar frumkvæðið í leiknum. Þrátt fyrir hetjulega baráttu Blikaliðsins tókst okkur ekki að ná stigi út úr þessum leik. En þetta lofar góðu fyrir framhaldið og hver veit nema að Evrópuævintýri okkar Blika verði enn meira spennandi. Minnast verður á skóævintýri Gísla Eyjólfssonar í síðari háflleik því það lýsir einbeitingu Blikaliðiðsins meira en margt annað. Þrátt fyrir að hafa misst annan skóinn þá spilaði Gísli áfram í næstum því tvær mínútur í einum skó og lét engan bilbug á sér finna! Vel gert Gísli!
Næsta ævintýri Breiðabliks verður hins vegar á Kópavogsvellii á mánudagskvöldið. Þá koma Víkingar í heimsókn og freista þess að landa Íslandsmeistaratitlinum. En ef við þekkjum Blikaliðið rétt þá hefur það ekki í huga að færa þeim svörtrauðröndóttu neinar gjafir! Búast má við hörkumætingu á leikinn og hvetjum við áhangendur Blika að tryggja sér miða í tíma!
Allez Breiðablik!
-AP