Frábær sigur í Dublin
12.07.2023Byrjunarlið Blika sem léku í alsvörtum varabúningum.
Það var glampandi sól og hiti rétt um 18 °C í forsælu í Smáranum þegar stuðningsmenn Blika fjölmenntu í veitingasalinn, sem margir vilja nefna Vallargerði en er iðulega kallaður því (ó)frumlega og steingelda nafni ,,græna stofan“, til að fylgjast með leik Blika gegn Írsku meisturunum í Shamrock Rovers.
Þetta er annars fínn salur og þarna var leikurinn sýndur á tveim 65“ skjám. Það fór vel um mannskapinn og mikil eftirvænting fyrir leik. En það þarf samt að ganga frá þessu með nöfnin á sölunum í stúkunni.
Byrjunarliðið gegn Shamrock. Koma svo Blikar???????? pic.twitter.com/pXl2a85BX2
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) July 11, 2023
Strax eftir upphafs flaut kýpverska dómarans einhentu Blikar sér í það sem þeir eru flinkastir í, þ.e.a.s. tóku völdin á vellinum. Að vísu fengu gestirnir álitlegt færi þegar einn röndóttur slapp einn í gegn en Anton Ari sá við honum, blessunarlega. Áður höfðu Blikar gert hríð að marki heimamanna og átt fastan skalla sem var varinn. Hornspyrnur fengu Blikar fjölmargar en náðu ekki að gera sér mat úr þeim. Heimamenn áttu á löngum köflum í vök að verjast og Blikar með áætlunarferðir upp kantana og hægri vængur gestanna lá sérlega vel við höggi en okkar menn náðu ekki að gera sér alvöru mat úr fjölmörgum bráðefnilegum sóknarlotum. Heimamenn voru hins vegar fastir fyrir og brutu stundum allhressilega af sér, kannski ekki gróflega, en svona leiðindabrot eins og að troða mönnum um tær og skafa af þeim skóna og svona. Og þetta hefndist þeim fyrir að lokum þegar Blikar fengu aukaspyrnu á 38. mínútu eftir enn eitt leiðindabrotið á Klæmint um 25 metrum frá markinu. Gummi Ben. lýsti leiknum af og til og var nýbúinn að taka undir með þeim í Vallargerði að markið lægi í loftinu og það reyndust orð að sönnu. Aukaspyrnan var algjört augna konfekt. Höskuldur gerði sig líklegan til að skjóta en þegar minnst varði rúllaði Viktor Karl boltanum til hægri, fyrir fætur Damirs og sá var nú ekki að tvínóna við hlutina eða bíða eftir Godot, heldur barasta þrumaði boltanum framhjá varnarveggnum og upp í þaknetið án þess markvörður heimamanna fengi rönd við reist, að ekki sé talað við hönd á fest. Ef ekki hefði verið fyrir mikil fagnaðarlæti Blika inni á vellinum, auk tæplega 80 stuðningsmanna sem voru mættir á völlinn og þeirra sem horfðu í Smáranum hefði sennilega mátt heyra saumnál detta.
???? Shamrock Rovers 0-1 Breidablik | Goal: Damir Muminovićpic.twitter.com/xZhcZHhRRB
— FootColic ⚽️ (@FootColic) July 11, 2023
Staðan 0-1 og Blikar komnir með verðskuldaða forystu. Írarnir áttu ekki von á þessu.
Það sem eftir lifði hálfleik héldu Blikar vel sjó en gestirnir áttu heiðarlega tilraun rétt fyrir hálfleik en skutu í hliðarnetið úr þröngu færi.
Blikar með eins marks forystu í hálfleik eða réttara sagt 1. leikhluta eins og þeir myndu segja í körfunni. Verðskulduð forysta en kannski í minna lagi miðað við gang leiksins. Okkar menn léku mjög vel í fyrri hálfleik, allir sem einn. Hlupu gríðarlega mikið, pressuðu hátt og af mikilli ákefð. Að sama skapi gekk þeim vel að spila sig í gegnum og gera útaf við hápressu heimamanna fyrstu mínúturnar sem fyrir vikið rann að mestu út um sandinn.
Núnú, áfram hélt smérið eftir hlé og það var alveg ljóst að heimamenn ætluðu ekki að láta þessa labbakúta af klakanum vera eina um hituna lengur. Allt annað var að sjá til þeirra og fyrstu 10-15 mínúturnar áttu okkar menn í vök að verjast og náðu ekki að halda boltanum jafnvel og í fyrri hálfleik.
En færin komu ekki hjá þeim grænröndóttu og smám saman rann mesti móðurinn af þeim og Blikar náðu að kasta mæðinni og koma sér betur inn í leikinn og halda boltanum betur. Anton Ari þurfti svo að taka aðeins á því þegar hann varði lúmsk skot frá vítateig og hann gerði vel í því að verja boltann til hliðar en ekki út í teiginn. Blikar skiptu nú Ágústi Eðvald inn fyrir Jason Daða. Jason óðum að komast í sitt gamla form og var öflugur í fyrri hálfleik. Og skömmu síðar þurfti Damir að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og inn kom Arnór. Einn reynslubolti inn fyrir annan en vonandi nær Damir sér fljótt. Og um leið kom Alexander inn fyrir Oliver.
Arnór var ekki búinn að vera inná lengi þegar hann þurfti að rífa í skófluna og moka upp eftir smá bras og vesen í vörninni og í þann mund að einn röndóttur var að sleppa í gegn. Þar munaði örmjóu. En þarna urðu smá þáttaskil í leiknum og Blikar fóru að tengja betur og ná sóknum og ekki mátti miklu muna að Viktor Karl sett´ann í tvígang en markvörður Shamrock stóð fyrir sínu. Blikar komnir framar á völlinn og bara bras á heimamönnum og langar sendingar fram. Enn gerðu Blikar breytingu og nú kom Davíð inn fyrir Kristinn.
Leikjaáfangi hjá Davíð þegar hann kom inn á í leiknum.
Leikurinn í fínu jafnvægi fannst okkur en eins og hendi væri veifað voru heimamenn komnir í gott skotfæri en Anton Ari með frábæra vörslu og enn náði hann að verja boltann til hliðar. Þetta reyndist síðasta alvöru marktilraun leiksins og Blikar fögnuðu vel í leikslok.
Þetta var öflug frammistaða hjá Blikum. Margir, og raunar flestir að spila mjög vel, en fyrst og síðast var þetta sigur liðsheildarinnar. Einkum þegar mest á reyndi og liðið átti í vök að verjast í upphafi síðari hálfleiks. Það var vel gert.
Breidablik manager Oskar Thorvaldsson was delighted to come away from Tallaght with a win: "We laid the foundation for the victory in the first half. In the second half they were much stronger."
— RTÉ Soccer (@RTEsoccer) July 11, 2023
???? Match report https://t.co/Up3JPp64GW #ChampionsLeague pic.twitter.com/Pwmiv8Ksye
Nú er síðari viðureignin eftir og Írarnir hyggja á hefndir, svo mikið er víst. En okkar menn munu ryðja þeim úr vegi ef þeir mæta með sama hugarfari í þann leik og fá öflugan stuðning á heimavelli.
En næsti leikur er á föstudaginn. Þá fara okkar menn í Úlfarsárdalinn og mæta Fram kl. 20:15.
Vonandi fjölmenna Blikar á leikinn og styðja við strákana. Þeir þurfa öflugan stuðning.
Áfram Breiðablik !
OWK
Öflug sveit stuðningsmanna Blika var mætt til Dublin.
Samsett mynd. Grafík; Blikar.is & HH