BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fullt hús

30.05.2022 image

Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

Ósigraðir Blikar heldu í kvöld til efstu byggðra bóla Reykjavíkurprófastsdæmis, og hösluðu sér völl þar sem heitir Fella – og Hólahverfi og nánar tiltekið þann völl sem í daglegu tali heimamanna er nefndur Gettógránd en Domusnova völlurinn í munni ókunnra aðkomupésa, og er þar vígi og varnarþing  Leiknisljónanna. Veðrið með allrabesta móti viðað við árstíma. Kvöldsólin skein og hægur vestan andvari. Þokan sem var með hótanir um kvöldmatarleytið sá aumur á vallargestum og leikmönnum og hélt sig fjarri. Heill hellingur af Blikum á vellinum og fátt um laus sæti þeim megin en svona slæðingur af heimamönnum og talsvert af auðum sætum. Ekki þáðum við þau.
Blikar á fljúgand ferð í deildinni og nýbúnir að kafsigla Val í bikarnum svo það var nú ekki líklegt að neinn beyg væri að finna í okkar mönnum fyrir þennan leik, en kannski aðeins meiri í stuðningsmönnunum. Bananahýðin eru jú útum allt að sögn og alkunna að þau eru til að renna á þeim. Það er því ekki bara þjálfari okkar Blika sem vaknar með kvíðahnút í maganum á hverjum morgni þessi misserin.

Byrjunarlið Blika í kvöld var svona:

image

Viktor Karl, Gísli Eyjólfs og Elfar Freyr enn meiddir að sögn. Glögir menn höfðu á orði að þrátt fyrir að einn Viktor (Karl) hafi vantað voru samt 3 Viktorar í 18 manna hópi Blika í kvöld. Ekki von það tapist margir leikir með svona nafnalista.Blikar létu ekki bíða eftir sér og tóku strax því sem næst öll völd á vellinum srax í upphafi og létu boltann ganga manna á milli og freistuðu þess að finna glufur á þéttri varnaruppstillingu heimamanna. Það gekk heldur rólega en af og til virtist það vera að ganga upp en jafnharðan fór það útum þúfur. Okkar mönnum gekk pínu illa að fóta sig, og ýmist runnu til eða stigu á boltann í ákjósanlegur stöðum og svo var í eitt eða tvö skipti sem komu góðar fyrirgjafir en þá vantaði ,,fólk í boxið“ eins og einn góður maður sagði stundum. Fróðir menn sögðu reyndar undirrituðum að völlurinn hefði ekki verið vökvaður lengi af vissum ástæðum. Sel það ekki dýrara, en hvað svo sem það var þá voru Blikar ekki alveg líkir sjálfum sér til að byrja með. Fyrsta mark leiksins kom því svolítið uppúr þurru þó ekki væri það beinlínis gegn gangi leiksins og var þar að verki Ísak Snær eftir snaggaralega sókn þar sem langur bolti fram sigldi yfir varnarmann Leiknis og fyrir fætur Jasonar sem lék áfram og laumaði svo boltanum í hlaupaleið Ísaks sem vippaði snyrtilega yfir úthlaupandi markvörð Leiknismanna. Þarna komu reyndar við sögu tveir Leiknismenn sem báðir eru uppaldir á Fífuhvammsveginum og í Fífunni ef mig misminnir ekki, þeir Bjarki Aðalsteinsson og Viktor Freyr Sigurðsson.

image

Að markinu frátöldu gerðist ekki ýkja margt markvert annað en tveir leikmenn okkar fengu spjald, sennilega verðskulduð. En leikmaður heimamanna #11 fékk ekki spjald og fór þó margítrekað gróflega í okkar menn. Einkum fékk Ísak að kenna á olnbogum hans og groddalegum leik allar 96 mínúturnar. Fór svo í 2ja fóta tæklingu á móti Omari en hitti þar fyrir ofjarl sinn. Þar small vel í. Svo lá þessi sami leikmaður ítrekað sjálfur í grasinu, skælandi. Fékk svo æðiskast og hraunaði yfir dómaratríóið sem lét þetta að mestu óátalið og átti í heildina afar dapran dag, svo ekki sé fastar að orði kveðið. En Blikar létu þetta ekki á sig fá og guldu þessum tudda að sögn rauðan belg fyrir gráan. Samkvæmt kvöldfréttunum var sumt af því reyndar ekki til fyrirmyndar. Ég gat samt ekki séð að sjónvarpsvélarnar hefðu náð meintu olnbogaskoti og ekki Gummi Ben heldur. En ég trúi hinsvegar  #11 alveg til að hafa búið þetta til.

Hálfleikskaffið var víst ekki sérstakt og reyndu sumir að að pranga því sem þeir gátu ekki drukkið sjálfir oní vini sína. Það er ekki fallegt. En það er sem betur fer undantekning að kaffið bragðist illa þegar Blikar eru með forystuna. Menn voru almennt á því að það þyrfti að fá annað mark í þennan leik, ekki víst að eitt myndi duga.Síðari hálfleikur hófst á líkan hátt og sá fyrri. Blikar með boltann en heimamenn þéttir fyrir. En það tók samt ekki nema 5 mínútur fyrir okkar menn að tvöfalda forystuna og enn var það Ísak Snær. Eftir mikið japl og jaml og fuður í vítateig gestanna sýndist mér það vera Höskuldur sem ýtti boltanum til Ísaks sem var alveg löngu tilbúinn og lúðraði boltanum lóðbeint í bláhornið. 2-0.

Blikar kátir með stöðuna en í fjarska dró bliku á loft. Örskömmu síðar hirti Leiknismaður boltann af varnarmanni okkar og óð inn í teig og átti ,,bara“ Anton eftir en sá hreinlega fraus og reyndi svo að gefa fyrir, en þar hirtu Blikar boltann og komu honum í burtu. En Adam var samt ekki lengi í Paradís og 3 mínútum síðar skoraði þessi sami leikmaður afar ljótt mark. Blikar voru með boltann nálægt hornfána en sending upp kantinn mistókst og lenti hjá Leiknismanni sem sendi rakleitt fyrir mark Blika og þar voru 2 Leiknismenn óvaldaðir og rétt áður en þeir rákust saman náði annar þeirra að skalla boltann í markið. Ferlegt að fá þetta mark á sig en það voru hættumerki á lofti mínúturnar á undan og þetta kom því ekki alveg upp úr þurru. Leiknismönnum hljóp nú heldur betur kapp í kinn á sama tíma og okkar menn misstu alveg taktinn. Boltinn hélst illa innan liðsins og Leiknismenn náðu frumkvæðinu. Næstu mínúturnar var mikið um feilsendingar og ótímabærar kýlingar fram völlinn hjá okkar mönnum en það vantaði svo sem ekki baráttuviljann. Andri Rafn kom inn fyrir Omar sem var á gulu spjaldi og áfram hélt bardaginn. Liðin sóttu sitt á hvað en tókst ekki að skapa sér alvöru færi. Adam Örn kom svo inn fyrir Jason Daða til að kítta í vörnina. Svo var það á lokamínútunni að Kristinn komst inn í vítateig og renndi boltanum fyrir markið en markvörður Leiknis (enn einn Viktorinn úr Fífunni) var hársbreidd á undan Höskuldi í boltann. Nú tók við nagandi óvissa í 6 mínútna uppbótartíma þar sem bæði lið náðu ágætum sóknum án þess að skapa afgerandi færi. En síðasta skotið áttu heimamenn, og þvílíkt skot. Boltinn tekinn á lofti með vinstri eftir hornspyrnu og stefndi rakleitt á markið en sem betur fer fór hann einhverja millimetra yfir markslána. Í sama mund flautaði dómarinn til leiksloka og er óhætt að segja að þá varp margur maðurinn öndinni léttar enda búinn að standa á henni í korter í það minnsta.

En semsagt góður sigur okkar manna í höfn og stigin 3 fóru vel í bakpokanum á heimleiðinni.
Stíft leikjaprógram er nú að baki með ríkulegri uppskeru. Blikar enn ósigraðir í deildinni með 24 stig og markatöluna 25-8. 17 mörk í plús. Aðrir hafa ekki gert betur!
Nú er hlé á deildinni fram til 16. júní vegna landsleikja. Vonandi nýta okkar menn tímann vel til að hlað batteríin og jafna sig af hnjaski.

Næsti leikur er gegn Valsmönnum að Hlíðarenda þann 16.júní og hefst hann kl. 20:15. Það verður áreiðanlega hörkuleikur.
Daginn eftir er skrúðganga sem endar á Rútstúni. Og pylsur.

Áfram Breiðablik !
OWK

Mörk og atvik í boði BlikarTV:

Til baka