BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fyrsta flokks fótbolti

22.08.2021 image

Fyrir leik

Smá breyting vegna bilunar í flugvél KA, leikurinn færður frá 16:15 til 18:00, hljómar kannski ekki mikið en svona truflanir geta haft talsverð áhrif á leikmenn.

En, fyrir það fyrsta þá hefur verið gaman að fylgjast með gengi KA manna í sumar undir stjórn Blikans Arnars Grétarsonar. Hann hefur náð ótrúlega góðum árangri með, eigum við að segja ágætan, en ekkert sérstakan hóp. Ég ímynda mér að það séu ekki margir leikmenn KA sem kæmust í byrjunarlið Breiðabliks - en ég þykist vita að nokkuð margir Blikar myndu ganga inn í lið KA, í það minnsta banka ansi fast á dyrnar. En ég veit svo sem ekkert hvort Arnar eða Óskar Hrafn eru á sömu skoðun.

Hvað sem því líður þá á ég von á erfiðum leik gegn góðu liði, liði sem er með bestan árangur allra liða í deildinni á útivelli. 

En aðalatriðið er Breiðabliksliðið. Ég hef verið mjög sáttur við spilamennsku liðsins í sumar, svona á að spila fótbolta, þetta er eini fótboltinn sem ég nenni að horfa á og eina leiðin fyrir íslenskan fótbolta til að komast á næsta stig.

Liðið er nú í þeirri stöðu að það vinnur titilinn ef allir leikir vinnast. Það er auðvitað hvorki líklegt né auðvelt, en segir samt að staðan er þokkalega góð. Ég geri í sem sagt ekki ráð fyrir að það takist, en vonandi tapa keppinautarnir líka stigum. Það er kannski helst að upphafsmínútur hafa verið erfiðar, eiginlega í báðum hálfleikjum og ég er alltaf rólegri eftir svona 10 mínútur.

En sem áhugamaður um tölfræði þá hef ég sett upp mína eigin mælikvarða á frammistöðu liðsins í eintaka leikjum, sem er einhvern veginn svona: 

-10 ef liðið fær á sig mark

-4 ef hjartað missir úr slag við að horfa á misheppnaða sendingu varnarmanna

-3 ef ég þarf að æpa á varnarmann vegna þess að það er að gleymast frír maður í eða við vítateiginn, sem er frekar tilgangslaust þegar ég mæti á völlinn og alveg fráleitt í ljósi þess að ég horfi orðið á flesta leiki heima í stofu, amk. á meðan þessi faraldur er í gangi

-2 ef ég þarf að hringja í fyrrum fjórða flokks þjálfara leikmanns vegna þess að skot fer hátt yfir markið, símareikningurinn hefur hækkað nokkuð í sumar

-1 ef andstæðingarnir fá færi

+3 ef boltinn gengur vel og hratt á milli manna

+6 við skemmtilegt spil, hreyfingu eða sendingu sem opnar vörn andstæðinganna

+9 ef liðið er komið í færi og ég er kominn hálfa leið úr sætinu

+12 fyrir skorað mark

Ég ákvað sem sagt að horfa heima, alltaf frekar smeykur við smit en kæmi sér einstaklega illa þessa dagana.

Leikurinn

Að leiknum sjálfum, óbreytt lið frá leiknum við ÍA, sem kemur ekki á óvart.

Leikurinn byrjaði svo sem ágætlega, Blikar að mestu með boltann og engin slys í upphafi.

Ég ætla svo sem ekki að fara yfir leikinn atriði fyrir atriði, en nefni svona það helsta sem situr eftir - við yfirlestur daginn eftir geri ég ekki ráð fyrir að nákvæm upptalning atvika skipti máli, enda til á þar til gerðum vefsíðum.

Fyrir það fyrsta. Árni fékk högg á andlitið snemma leiks og ég verð að tjá um vítaspyrnudóminn sem liðið fékk á móti ÍA, sem hefur verið talað um sem "umdeildan". Auðvitað var það víti og frekar hvimleitt að sjá varnarmenn baða út höndunum stjórnlaust eins og krakkar að leika flugvél undir því yfirskini að þeir séu að "taka sér stöðu". Ef leikmenn geta ekki tekið sér stöðu og borið ábyrgð á því hvað þeir eru að gera við hendurnar þá er bara að finna sér aðra íþrótt - í öllu falli, þarna mátti alveg dæma líka.

image

En eftir nokkrar álitlegar tilraunir skoraði Gísli þetta líka fyrsta flokks mark, óð í gegnum vörn KA og þrumaði boltanum í slána og inn.

Rétt áður hafði liðið opnað vörn KA með frábæru spili og hefði verið eitt af skemmtilegri mörkum sumarsins - svona á að spila fótbolta. Og Gísli hafði jú gert sig líklegan nokkru áður, Kristinn líka.

image

KA menn vildu fá víti undir lok fyrri hálfleiks og ég skal játa að ef brotið hefði verið á Blika í teignum eins þá hefði ég nú viljað fá víti.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega, leikurinn varð svo hálf "tætingslegur", nokkuð af mistökum á báða bóga, en ekkert varð úr færum. Ég sá boltann einu sinni í marki Blika eftir bestu sókn KA í leiknum.

Annars voru Blikar einfaldlega miklu betri, sem skilaði sér í úrvals marki þar sem Gísli stal boltanum og lagði upp á Viktor Karl sem skoraði af öryggi. Ég hefði verið til í að sjá svona afgreiðslu oftar í góðum og hálf góðum færum.

image

Ég var kannski fjórum sinnum smeykur um að KA næði að skora en ég taldi 17 skipti þar sem ég átti von á marki hjá Blikum – fyrir utan mörkin tvö – stangarskot, Steinþór í marki KA varði tvisvar frábærlega en aðallega vantaði kannski betri afgreiðslu á færum.

Eftir leik

Sanngjarn sigur og hefði auðveldlega getað verið miklu stærri.

KA menn áttu vissulega sín færi og svona leikir hafa alveg „dottið illa“ - jöfnunarmark 1-1 hefði auðveldlega getað gjörbreytt leiknum, en ég er nokkuð viss um að Blikar hefðu klárað leikinn samt, einfaldlega of mikill munur á liðunum.

Aftur verð ég að hrósa liðinu fyrir frábæran fótbolta, alltaf á tánum að vinna boltann, stöðug pressa á andstæðingana þar sem leikmenn hjálpast að við að loka, boltanum spilað hratt á milli manna, hlaupið í eyður og fínar hreyfingar á mönnum án bolta, leikmenn fljótir að koma boltanum á samherja, hárnákvæmar sendingar þegar við á og svo sprengikrafturinn hjá einstaka leikmönnum.

Leikurinn var 200. mótsleikur fyrirliðans:

image

Það er svo engin ástæða til að taka einstaka leikmenn út, margir áttu frábæran leik og fáir sem ég átti von á að ættu betri leik... Gísli valinn maður leikins, mjög góður, en margir aðrir sem áttu flottan leik og fáir sem voru kannski undir væntingum.

Ef liðið spilar svona þá er engan veginn fráleitt að sjá fyrir sér að það geti unnið alla leikina sem eftir eru, svo ég fari nú aðeins fram úr mér.

Valgarður Guðjónsson

Umfjallanir netmiðla

Mörkin úr leiknum:

Til baka