Gísli með nýjan 3 ára samning
30.01.2018Þau ánægjulegu tíðindi voru að berast að miðjumaðurinn kraftmikli Gísli Eyjólfsson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks. Gísli sem er 23 ára gamall hefur verið lykilmaður í Blikaliðinu undanfarin misseri. Hann á að baki 71 leik með meistaraflokki Breiðabliks og hefur skorað 13 mörk. Hann lék einnig að láni hjá Haukum í 1. deildinni og spilaði þá 19 leiki og skoraði 1 mark. Einnig lék hann í upphafi móts 2016 nokkra leiki með Víkingi Ó. Í fyrra sló Gísli algjörlega í gegn og átti frábært tímabil.
Árangur Gísla hefur vakið athygli út fyrir landssteinana og hafa mörg erlend lið sýnt honum áhuga. Hann fór meðal annars á prufu til norska liðsins Haugasunds í vetur og einnig hafa önnur erlend lið sýnt honum áhuga. En nú hefur Gísli ákveðið að framlengja samning sinn við Blikaliðið. Hins vegar er líklegt að Gísli fari í atvinnnumennsku ef hann heldur áfram á sömu braut. Við Blikar fögnum því hins vegar að hann hafi framlengt við félagið okkar og vonum að við fáum að njóta krafta hans eitthvað áfram.
Áfram Blikar, alltaf, als staðar!