GogG sáu um Grindavík!
10.06.2018Blikar unnu góðan og sanngjarnan 0:2 sigur á toppliði Grindavíkur á votum velli suður með sjó. Það voru þeir félagar Sveinn Aron Guðjohnsen og Gísli Eyjólfsson sem sáu um mörkin fyrir þá grænklæddu að þessu sinni. Reyndar var með ólíkindum að við settum ekki fleiri mörk því tvisvar fór boltinn í stöng þeirra gulklæddu og oftar en ekki náðu varnarmenn heimapilta að fleygja sér fyrir knöttinn á síðustu stundu áður en við náðum að troða tuðrunni í netið.
Byrjunarliðin: Ksi.is og urslit.net
Þjálfararnir fóru til baka í fjögurra manna varnarlínu eftir að hafa prófað sig áfram með þriggja manna taktíkina í síðustu leikjum. Það skilaði sér sannarlega þvi allt annað var að sjá til sóknartilburða okkar drengja. Elfar Freyr Helgason þurfi reyndar að yfirgefa völlinn vegna meiðsla í lok fyrri hálfleiks og er óttast að hann hafi farið úr axlarlið eða sé jafnvel viðbeinsbrotinn. En það var engin smá kanóna sem kom inn á í staðin þ.e. Jonathan Hendrixz. Við sendum Elfari Frey hins vegar batakveðjur.
Að vanda var útsynningur í Grindavík og því landlega hjá flestum bátum í plássinu. Það voru samt landkrabbarnir úr Kópavogi sem fundu sig miklu betur á blautum vellinum. Toppliðið virkaði frekar dofið í leiknum nema ef til vill fyrstu 5-10 mínútur leiksins. Eftir það tóku Blikar í raun öll völd á vellinum. Boltinn flaut vel manna á millum og komust Grindvíkingar sjaldan að boltanum.
Það var hins vegar ekki fyrr en nokkuð var liðið á seinni háfleikinn þegar varnir þeirra gulklæddu brustu. Arnþór Ari átti þá fína sendingu á Svein Aron sem tók eina gabbhreyfingu og sendi svo knöttinn með sínum fræga vinstri fæti í markið með glæsilegu skoti. Vel gert Guðjohnsen! Nokkrum mínútum síðar fékk Gísli knöttinn á kantinum hægra megin og sendi þéttingsfasta sendingu inn i teiginn og viti menn- boltinn sigldi alla leið í markið! Sjá mörkin hér.
Þrátt fyrir að Arnþór Ari fengi sitt annað gula spjald (mjög ósanngjarnt) og þar með rautt 7 mínútum fyrir leikslok þá ógnuðu heimapiltar nánast aldrei markinu. Góður þriggja stiga útisigur því staðreynd og við komnir í toppbaráttuna aftur!
Þrátt fyrir að máttarstólpa eins og Örn Örlygs, Óla Björns, Heisa Heis, Húgó Rasmus og Pétur Ómar vantaði í áhorfendahópinn þá fylgdi að vanda þéttur hópur Kópavogsbúa sínu liði. Þar má nefna nýbakaðan afa Árna Friðleifsson mótórhjólalöggu og tengdapabba Damírs, Eið Smára, Bjarka Gunnlaugs, Sverri Davíð Hauksson, Hilmar Jökul, heiðurshjónin Hreinn Bergsveinsson og Valgerður Pálsdóttir og fleira gott fólk.
Hins vegar var ekki of mikil stemmning hjá heimafólki í stúkunni sem kom á óvart því Grindavíkurliðið var jú efst í deildinni. Hugsanlega dró veðrið eitthvað úr gleðilátunum og margir að fylgja börnunm sínum á ýmis knattspyrnumót út um allt land. En það er ekki afsökun fyrir því að fylgja sínu liði, sérstaklega þegar á topinn er komið!
Næsti leikur Blikaliðsins er gegn Fylki á miðvikudaginn. Þar verða þrír lykilmenn fjarri góðu gamni. Elfar Freyr og Kolbeinn Þórðar vegna meiðsla en Kolbeinn er illa tognaður í hné eftir ruddalega tæklingu Baldurs Stjörnumanns í síðasta leik. Svo verður Arnþór Ari að bíta í það súra að horfa á leikinn úr stúkunni vegna rauða spjaldsins í þessum. En góðu fréttirnar eru að Jonathan er orðinn leikhæfur eins og kom í ljós í þessum leik og Andri Rafn er á réttri leið. Við eigum marga unga og efnilega leikmenn og ekki ólíklegt að einhver þeirra fái tækifæri á næstunni.
-AP