BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gott veganesti fyrir Írlandsleikinn!

08.07.2023 image

Blikar unnu öruggan 5:1 sigur á Fylkismönnum á Kópavogsvelli á föstudagskvöldið. Sigurinn var sanngjarn en hugsanlega of stór miðað við gang leiksins. En það breytir því ekki að strákarnir spiluðu vel lungan úr leiknum og þessi sigur er gott veganesti fyrir Írlandsleikinn á þriðjudaginn.

Blikar byrjuðu leikinn miklu betur og komust gestirnir úr Árbænum varla fram yfir miðju fyrstu mínúturnar. Það kom því ekki á óvart að við kræktum í vítaspyrnu þegar einn appelsínugulur síbrotamaður í vörninni sparkaði Klæmint Olsen niður, reyndar alveg óvart! Höskuldur Gunnlaugsson steig á punktinn en viti menn að einhver álög virðast liggja á Blikaliðinu varðandi vítaspyrnu þessa dagana. Fyrirliðinn lét verja frá sér og segja heimildir að það hafi ekki gerst síðan á Tommamótinu í Eyjum árið 2004! En Blikar létu það ekki slá sig út af laginu. Þung sókn þeirra hélt áfram sem endaði með því að Oliver Stefánsson átti snilldarsendingu á Jason Daða. Mosfellingurinn plataði varnarmann Fylkis gersamleg upp úr skónum og setti knöttinn svo í markið með öruggri spyrnu. Blikar komnir yfir og kættust áhorfendur, reyndar allt of fáir, yfir þessu fyrsta marki Jasons Daða á þessu tímabili.

Seinni hálfleikur hófst svipað og sá fyrri. Heimapiltar voru miklu meira með knöttinn og að lokum skoraði Damir fallegt skallamark eftir góða hornspyrnu Höskuldar.

Héldu nú menn að þar með væru úrslitin ráðin. En það reyndist nú ekki raunin. Á einhvern sérkennilegan hátt slokknaði á Blikaliðinu í 10-15 mínútur og það kann aldrei góðri lukku að stýra. Fylkismenn minnkuðu muninn og var farið að fara um marga góða Blika innanlands sem utan. En sem betur fer tók Anton Logi Lúðvíksson til sinna ráða. Hann dansaði fram völlinn með knöttinn og eftir snilldarsendingu Gísla, sem hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður, laumaði Anton Logi tuðrunni í hornið og staðan því orðin 3:1.

image

Leikurinn var jafnframt 50. mótsleikur Antons Loga í grænu Breiðablikstreyjunni. Til hamingju Anton Logi. 

image

Þá var eins og þeir appelsínugulu gæfust upp. Blikar tóku öll völd á vellinum og þeir Arnór Sveinn og títtnefndur Gísli bættu við hvor sínu markinu undir lokin

Öruggur 5:1 sigur í höfn og langri sigurlausri hrinu Blikaliðsins loksins lokið. Sigurinn er gríðarlega mikilvægur andlega fyrir Blikaliðið sem hefur lent í mótbyr undanfarnar vikur. Þetta gefur okkur sjálfstraust fyrir leikinn gegn Shamrock Rovers á þriðjudaginn.

image

Það var gaman að sjá þrjá unga og bráðefnilega Blika fá tækifæri með liðinu undir lok leiksins. Þetta voru þeir Ásgeir Helgi Orrason/Helgu Dagnýjarson, Atli Þór Gunnarsson og Arnar Smári Arnarsson. Þeir eru 17 og 18 ára gamlir og vonandi eigum við að sjá þá spila vel og lengi í Blikabúningnum!

Blikar.is senda baráttukveðjur til Írlands en Blikaliðið er nú farið til Dublin til að undirbúa sig fyrir þennan mikilvæga Evrópuleik. Þó nokkur fjöldi Blika fylgir liðinu en einnig verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport. Það verður sannkallað Blikakvöld á þriðjudaginn!

-AP          

Grazie Trattoria maður leiksins:

Til baka