BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grænn gjafapappír!

15.03.2023 image

Mynd: Byrjunarlið Blika í leiknum

Blikar urðu að játa sig sigraða 2:3 í lokaleik riðlakeppni Lengjubikarsins 2023. Andstæðingar okkar ÍBV komu mjög sterkir til leiks og var sigur þeirra á margan hátt verðskuldaður. En vörn Blika vill örugglega gleyma þessum leik sem fyrst því öll mörkin voru pökkuð inn á grænan gjafapappír. Það jákvæða við leikinn voru tvö góð mörk Færeyingsins Patriks Johannessonar í sitt hvorum hálfleiknum.

Fyrri hálfleikur var bráðskemmtilegur á að horfa. Töluvert var um færi og sluppum við Blikar með skrekkinn í byrjun hálfleiksins þegar vörnin okkar var dálítið út á þekju. Eyjamenn áttu þá skot í stöngina og áttu annað dauðafæri. En smám saman unnum við okkur inn í leikinn og áttum flottar sóknir. Úr einni þeirra skoraði Patrik Johanneson fínt mark eftir frábæran undirbúning Gísla Eyjólfssonar. Einnig setti Stefán Ingi knöttinn í markið en var dæmdur rangstæður, sem var líklegast réttur dómur.  Þar að auki átti Patrik frábært rispu upp völlinn en knötturinn endaði í stöng Eyjapeyja. En klúður í vörninni varð þess valdandi að gestirnir úr Eyjum jöfnuðu og var það algjör óþarfa gjafmildi að hendi okkar manna. Við megum ekki gefa svona auðveld mörk!

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum. Vörn Blika var eitthvað vönkuð og gaf mark í byrjun háfleiksins. Gestirnir reistu síðan mikinn varnarmúr sem við áttum í mestu erfiðleikum að klífa. Reyndar jöfnuðum við leikinn með góðu marki frá Patrik eftir snyrtilega sendingu Höskuldar Gunnlaugssonar. Við sóttum stanslaust nánast allan hálfleikinn án þess þó að skapa okkur nein alvöru tækifæri. Síðan komu enn ein mistökin í vörninni og stigin fóru öll út um gluggann. Svekkjandi tap en við verðum að læra af þessu og undirbúa okkur vel fyrir Bestu deildina sem hefst með heimaleik gegn HK mánudaginn 10. apríl.

Reyndar er leikur gegn Víkingum áður í Meistarakeppni KSÍ en þar mætast Íslands- og bikarmeistarar fyrra árs. Leikurinn verður á Kópavogsvelli og hefst kl.19.30 laugardaginn 4. apríl.

-AP

Til baka