Guðmundur Kristjánsson fer til Noregs
26.03.2012
Guðmundur Kristjánsson og Breiðablik hafa nú náð samkomulagi við norska 1. deildarliðið Start að leikmaðurinn fari að láni til norska liðsins út þetta keppnistímbil. Eftir að keppnistímabilinu lýkur hafa Startarar forkaupsrétt á Guðmundi. Á föstudaginn skrifaði Guðmundur undir nýjan samning við Blikaliðið sem gildir út árið 2013. Þetta sýnir mikla félagskennd hjá Guðmundi enda er hann sannur félagi og Bliki.
Start er eitt af þekktari liðum Noregs. Liðið kemur frá bænum Kristiansand á suðurströnd Noregs. Í bænum búa rúmlega 80 þúsund manns og er bærinn vinsæll ferðamannastaður á sumrin. Bærinn á sér langa og merka sögu enda á mjög strategískum stað við Skagerak. Knattspyrnuliðið Start var stofnað árið 1905. Liðið varð Noregsmeistari árin 1978 og 1980 og varð í 2. sæti árið 2005. Liðið hefur að mestu spilað í efstu deild undanfarna áratugi en lenti í fjárhagsvandræðum í kringum 2008. Það leiddi til þess að liðið neyddist til að selja marga af sínum bestu leikmönnum og féll síðan úr efstu deildinni í fyrra. En Start hefur nú fengið nýja eigendur og þeir ætla sér beint upp með liðið aftur.
Þrátt fyrir að vera einungis 23 ára gamall hefur Guðmundur verið lykilmaður í Blikaliðinu i mörg ár. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2007 og þeir eru orðnir 86 í efstu deild. Í þessum leikjum hefur Guðmundur skorað 18 mörk. Guðmundur hefur ennig spilað 17 leiki með U-17 ára landsliðinu, 11 með U-19 ára landsliðinu, 11 með U-21 árs liðinu og þar að auki 5 landsleiki með A-landsliði Íslands. Blikaliðið mun sakna Guðmundar sárt en um leið eru Blikar ánægðir að Guðmundur hafi fengið þetta tækifæri að þroska sig sem leikmaður.
Bikar.is óska Guðmundi til hamingju með þennan samning og óska honum alls hins besta í gamla landinu okkar!
Áfram Breiðablik !