Guðmundur Þórðarson í viðtali við Blikahornið
17.03.2020Guðmundur Þórðarson er fæddur árið 1945. Hann er einn af frumkvöðlum Breiðabliks og er nafn hans tengt mörgum af merkilegustu stundum í sögu félagsins. Hann lék með meistaraflokki Breiðabliks 10 leiktímabil og lék alls 173 mótsleiki og skoraði í þeim 92 mörk. Guðmundir er markahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi.
Guðmundur Þórðarson framherjinn snjalli er fjórði viðmælandi viðtalsins við Blikahornið á blikar.is
Það er fátt sem Guðmundur hefur ekki komið að í sögu knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Guðmundur var fyrsti landsliðsmaður Breiðabliks í knattspyrnu í fótbolta 1970, en Guðmundur hafði ekki leikið í efstu deild þegar hann var valinn í landsliðið.
Hann var fyrsti þjálfari Breiðabliks til að ná Íslandsmeistaratitil þegar hann gerði 5. flokk að Íslandsmeisturum í knattspyrnu árið 1973.
5. flokkur Breiðabliks - Íslandsmeistarar 1973. Aftari röð f.v.: Guðmundur Þórðarson þjálfari, Árni Dan Einarsson, Jakob Þórarinsson, Halldór Eiríkur S. Jónhildarson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Guðmundsson, Konráð Konráðsson, Þórður Davíðsson, Trausti Ómarsson. Fremri röð f.v.: Sigurjón Kristjánsson, Birgir Árnason, Jóhann Grétarsson, Guðmundur Þorkelsson, Þorsteinn Hilmarsson fyrirliiði, Guðmundur Agnar Kristinsson, Birgir Mogensen, Óskar Friðbjörnsson, Sigurður Grétarsson.
Sumarið 1968 hélt hann uppi reglubundnum æfingum á vegum Breiðabliks fyrir kvennfólk í knattspyrnu líklegast þeim fyrstu.
Guðmundur var fyrsti landsliðsþjálfari kvenna og fyrsti þjálfari drengjalandsliðsins.
Guðmundur var þjálfari í fyrsta kvennalandsleik Íslands sem var gegn Skotum. Þetta var vináttulandsleikur sem fram fór í Kilmarnock, 20. september 1981. Lauk honum með sigri Skota 3:2. Guðmundur segir skemmtilega frá þessum leik í viðtalinu.
Árið 1967 var Guðmundur fyrsti skákmeistari Kópavogs og fyrsti íþróttafulltrúi Kópavogsbæjar.
Í viðtali við Guðmund Þórðarson sem birtist í Tímanum sunnudaginn 26. ágúst 1973 undir fyrirsögninni „Mátaði heimsmeistara í skák og markverðirnir verða ósjaldan mát“ rifjar Alfreð Þorsteinsson blaðamaður upp erfiða baráttu Blikamanna við að komast upp úr 2. deildinni á árunum 1965-70. Meira>
Guðmundur hefur unnið mjög óeigingjarnt starf fyrir knattspyrnuna. Hann var m.a. formaður, gjaldkeri og ritari knattspyrnudeildar Breiðabliks. Hann fékk Heiðursblika viðurkenningu Breiðabliks árið 2005. Guðmundur er handhafi gullmerkis Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands og gullmerkis KSÍ. Og árið 2016 var Guðmundur tekinn inn í „Frægðarhöll Breiðabliks“. Meira>
Guðmundur er mikill sagnamaður eins og kemur fram í viðtalinu hér.
Þetta er þvi viðtal sem engin Bliki má missa af!
-AP
Guðmundur Þórðarson sýnir Andrési Péturssyni, tíðindamanni blikar.is, minjagrip frá Svíþjóðarferð 3. flokks Breiðabliks árið 1976. En Andrés var þá í þeim flokki en hann er einn af þeim hundruðum drengja sem Guðmundur hefur þjálfað í gegnum tíðina.