BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gunnleifur Gunnleifsson framlengir samning sinn við Breiðablik

20.08.2017

Þau ánægjulegu tíðindi hafa borist að Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði okkar Blika hefur framlengt samning sinn við Breiðablik til eins árs.  Þetta eru góðar fréttir fyrir okkur og ljóst er að Gulli verður lykilmaður í liðinu það sem eftir lifir keppnistímabilsins auk þess sem við fáum að njóta krafta hans á næsta keppnistímabili einnig. 

Gunnleifur hefur leikið 174 mótsleiki með Breiðablik, þar af 103 í efstu deild, en hann gekk til liðs við Breiðablik árið 2013 frá FH.  Hann hann lék einnig með Keflavík í efstu deild auk þess sem hann var í atvinnumennsku hjá Vaduz (Liechtenstein/Sviss) um tíma.  Hann er hinsvegar uppalinn hjá HK eins og allir vita og þekkir því vel til í Kópavoginum.  Gulli hefur leikið 26 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og 254 leiki í efstu deild á Íslandi er því kominn í hóp leikjahæstu leikmanna deildarinnar frá upphafi.

Það er engin tilviljun að Gunnleifur er fyrirliði okkar Blika.  Hann er einstakur íþróttamaður sem gerir miklar kröfur til þess að allir leggi sig fram til að ná markmiðum sínum – en hann gerir mestar kröfur til sjálfs sín. Hann leggur sig manna mest fram á æfingum og keppnisharka hans, yfirvegun og sjálfsagi hefur mikil og góð áhrif á liðsfélaga sína svo frægt er orðið.  

Gulli er 42 ára gamall og er það hár aldur hjá knattspyrnumanni. Hann hefur hinsvegar sannað rækilega að fullyrðingin um að „aldur sé afstæður“ er rétt þegar um ræðir knattspyrnuhæfileika í fremstu röð.

Framlag hans til Breiðabliks er ómetanlegt og blikar.is fagna þessari undirritun einlæglega. 

Til baka