Hákon Gunnarsson GullBliki
21.10.2019Þótt Hákon Gunnarsson styðji ekki þau stjórnmálaöfl sem nota grænt í merki í sínu þá er vandfundnari sá einstaklingur sem er jafn grænn í eðli sínu.
Hann hóf ungur að æfa knattspyrnu með yngri flokkum Breiðabliks og þótti strax mjög efnilegur. Hákon var meðal annars fyrsti Blikinn, með félögum sínum Tomma og Jóni Orri, sem var valinn í drengjalandslið Ísland í knattspyrnu.
Síðar komst hann í meistaraflokk félagsins og lék í heild 178 leiki með þeim flokki og skoraði 38 mörk.
En það er ekki síst fyrir óþreytandi starf sitt fyrir félagið eftir að formlegum knattspyrnuferli Hákonar lauk sem okkur Blikum langar að heiðra þennan eðalfélaga.
Undanfarin 30-40 ár hefur Hákon verið óþreytandi að starfa fyrir félagið og er ætíð reiðubúinn að taka að sér hin ýmsu verk.
Hann hefur m.a. setið í stjórn, verið í meistaraflokksráði, verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla, tekið að sér óteljandi stefnumótunarverkefni fyrir félagið, verið öryggisvörður á leikjum, verið í ritstjórn blikar.is og skrifað um leiki.
Það er því okkur Blikum sannur heiður að fá að veita Hákoni gullmerki Breiðabliks fyrir óþreytandi starf í þágu félagsins.
Þess má geta að faðir Hákonar, Gunnar Reynir Magnússon heitinn, fékk sambærilega viðurkenningu árið 2010.