BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jafnræði og ,,gott stig“ í Krikanum

13.08.2013

Blikar mættu í kvöld FH ingum í 13. umferð PEPSI deildarinnar á heimavelli þeirra síðarnefndu.
Mér hefur alltaf þótt Kaplakriki (stundum nefndur Krikinn) gæsilegt nafn á heimavelli þeirra Hafnfirðinga og ekki einasta er nafnið glæsilegt, heldur er heimavöllurinn og öll umgjörð þar að verða hin glæsilegasta og fer sífellt batnandi. Þar ætla FH ingar líka að leika heimaleik sinn gegn Genk í umspili um sæti í Evrópudeild UEFA síðar í þessum mánuði.
Þjálfari Blika stillti upp lítt breyttu liði frá síðasta leik en þó var sú breyting orðin á að Nichlas kom inn í byrjunarlið í stað Tómasar Óla sem vermdi nú tréverkið.

Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;

Gunnleifur
Þórður Steinar - Sverrir Ingi – Renée - Kristinn J
Ellert - Andri Rafn - Finnur Orri (F) -Guðjón Pétur
Nichlas - Elfar Árni

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Gísli Páll Helgason
Elfar Freyr Helgason
Árni Vilhjálmsson
Tómas Óli Garðarsson
Olgeir Sigurgeirsson
Viggó Kristjánsson

Sjúkralisti;  Rafn Andri Haraldsson

Leikbann; Enginn

Leikskýrsla

Það voru fjölmargir stuðningsmenn Blika mættir í Kaplakrika í kvöld í hæglætisveðri. Vindur hægur vestlægur og síðar norðlægari þegar líða tók á leikinn. Sólarlaust í upphafi en svo glaðnaði til og sólin náði að ylja áhorfendum lengst af síðari hálfleik. Hiti rétt um 11°C og raki nálægt 75%. Flott fótboltaveður og völlurinn í góðu standi.

Heimamenn byrjuðu heldur betur í leiknum og náðu að valda smá usla við vítateig okkar fyrsta stundarfjórðunginn til að byrja með án þess að skapa sér afgerandi færi. Það var hinsvegar Finnur Orri sem komst næst því að skora strax á 10. mínútu, en gott skot hans hafði viðkomu í varnarmanni FH og breytti stefnu á síðustu metrunum. Þar munaði litlu. Gestirnar áttu eina eða tvær tilraunir að marki okkar manna en Gunnleifur átti að öðru leyti náðuga stundi í markinu. Sama má segja um kollega hans hinumegin á vellinum. Lítið að gera hjá honum en þó þurfti hann að bregðast snarlga við þegar Ellert elti sendingu inn í teig og náði að pota í boltann, en þar var markvörður FH vel á verði og lokaði á okkar mann.
En nú er sennilega tímabært að eyða nokkrum orðum á leikmann nr. 22. í FH liðinu og velta fyrir sér hugsanlegum ástæðum þess að hann hékk inni á vellinum í heilar 64 mínútur, eða þar til þjálfari FH ákvað að kippa honum snarlega af velli. Það var reyndar óþarfa bráðlæti hjá Heimi Guðjónssyni, því dómarinn virtist einmitt alveg staðráðinn í að lofa leikmanninum að hanga inni á vellinum. Ella hefði hann verið löngu búinn að reka manninn út af. Því ekki vantaði tilefnin. Tvisvar sparkaði hann Þórð Steinar niður og einu sinni kom hann með glæfralega sólatæklingu. Þetta var allt á innan við 15 mínútum. Fyrst var dæmt aukaspyrna og veitt tiltal. Svo kom gult spjald í annað sinn. Í þriðja sinn kom önnur aukaspynra og annað tiltal! En svo keyrði náttúrulega um þvert bak og endilangt,  þegar hann hékk á Elfari Árna og stöðvaði skyndisókn okkar manna. Aukaspyrna dæmd en leikmaður hékk enn inná. En þá notaði Heimir reyndar tækifærið og kippti nr. 22 samstundis útaf. Hafði þar vit fyrir dómaranum.
Svo var hið alkunna ,,samræmi“ fullkomnað  með því að skella spjaldi á Þórð Steinar við fyrsta brot. Ég velti því fyrir mér, að gefnu tilefni, hvort eftirlitsdómarinn hafi haft eitthvað við þetta að athuga en myndi alls ekki ekki veðja aleigunni á það.

Hálfleikskaffið var torsótt, enda langar biðraðir í sjoppunni, en smakkaðist vel. Þar mega heimamenn herða sig og gera bragarbót. Misstu sennilega af nokkrum sölum fyrir vikið. Stuðningsmenn Blika voru bjartsýnir. Vörnin sterk og FH lítið að skapa sér. Vonuðu að við myndum fá nokkra sénsa í seinni hálfleik. Eitt mark myndi sennilega duga. Okkar gamli fyrirliði, Einar Huldu og Þórhallsson kom brunandi frá Selfossi og var alveg sannfærður um sigur okkar manna,; ,,enda ekki tapast leikur síðan ég kom til landsins“. Einar er nú ekki beinlínis þekktur fyrir að fara með fleipur, þannig að það var nú kannski ekki nema vonlegt að það væri hugur í manni þegar blásið var til síðari hálfleiks.

Aftur voru það heimamenn sem komu heldur ákveðnari til leiks en þeir náðu ekkert að opna vörn okkar manna sem var föst fyrir og gaf engin færi á sér. Smátt og smátt komust Blikar betur inn í leikinn á ný og náðu af og til góðum samleiksköflum en einatt vantaði herslumuninn til að komast í álitleg færi. Ellert hlóð í þrumuskot úr frekar þröngu færi eftir gott samspil en oft voru ,,síðustu sendingar“ að klikka (sennilega ástæðan fyrir því að þær eru einmitt síðustu sendingarnar) og því gekk okkur afskaplega illa að skapa okkur góð færi. Hinumegin á vellinum þurfti svo Gunleifur að taka upp sparihanskana þegar Blikar voru næstum teknir í bólinu. Okkar menn misstu boltann rétt utan eigin vítateigs og hann barst til títtnefnds leikmanns nr. 22 (sem á góðum degi er prýðilegur fótboltamaður) sem sendi eitraða sendingur fyrir mark Blika og þar var mættur á markteigshornið fjær annar FH ingur. Sá var í mjög góðu færi og skallaði knöttinn að marki. Gunnleifur varði meistaralega en hélt ekki boltanum og Þórður Steinar bægði hættunni frá. Skömmu síðar skipti Ólafur Helgi Árna Vill inná í stað Nichlasar. Sóknarmaður fyrir sóknarmann og Blikar settu nú aukinn þunga fram á við.
Guðjón Pétur komst í álitlegt færi færi sem kom eftir klafs í kjölfar hornspyrnu, en FH ingar náðu að verja og björguðu í horn. Olgeir kom inn í stað Andra Rafns og enn bættu Blikar í. Síðustu 10 mínútur leiksins höfðu okkar menn yfirhöndina og reyndu allt hvað þeir gátu að opna vörn heimamanna en sem fyrr vantaði nákvæmni í sendingar og smá yfirvegun - og stundum reyndar skynsemi - þegar nær dró marki. Hælspyrnur eru t.d. ekki alltaf skynsamlegasta leiðin til að kom knettinum á næsta mann. Skemmtilegt þegar það tekst en stundum er betra að gefa bara innanfótar.( Þessi ábending er ókeypis).  En Blikar höfðu ekki erindi sem erfiði upp við mark andstæðinganna og leiknum lauk með markalausu jafntefli.

FH ingar eru því eina liðið sem okkur hefur ekki tekist að skora hjá í sumar. Samt var þetta fín frammistaða hjá okkar mönnum og áhorfendur voru ánægðir með sína menn. Studdu þá vel frá fyrstu mínútu og fram yfir þá síðustu.  
Eftir leik eru menn svo að vega og meta hvort þetta séu tvö stig töpuð eða eitt stig unnið. Það er skemmtileg pæling. Við höfum svo sem ekkert verið að raka saman stigunum í þessu vígi FH inga á undanförnum árum og síðasta stig sem við hirtum þar, í 1-1 jafntefli , var, þegar upp var staðið ,einmitt stigið sem skilaði okkur Íslandsmeistaratitlinum 2010. Það var ljúft stig og mér segir svo hugur að þetta stig sem við tókum í kvöld gæti orðið jafnljúft.
Til að svo megi verða þurfum við hinsvegar að vinna KR í næsta heimaleik okkar , sem verður á Kópavogsvelli n.k. sunnudag. Þá verða Blikar að fjölmenna og fylkja sér á bak við okkar menn og taka ,,vel“ á móti leikmönnum KR og þeim stuðningsmönnum þeirra sem treysta sér suður yfir lækinn. Þeir hafa hinsvegar ekki verið margir í gegnum tíðina.

Okkar menn verða hressir og stútfullir af orku og sjálfstrausti og við hin verðum í feiknlegu stuði í stúkunni.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka