BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Karaktersigur í lokin

17.08.2021 image

Þrátt fyrir óteljandi færi tókst okkar drengjum einungis að skora tvisvar sinnum gegn botnliði Skagamanna. Það dugði hins vegar til að innbyrða þrjú stig þrátt fyrir að sigurmarkið hefði komið full seint að mati flestra áhorfenda. Þessi 2:1 sigur sýnir aftur á móti gríðarlega mikinn karakter í Blikaliðinu enda ekki sjálfgefið að skora mikið gegn 11 manna handboltavörn sem þeir gulklæddu beittu gegn okkur. Þessi mótstaða er líka gott vegarnesti fyrir hinn mikilvæga leik gegn KA á laugardaginn og vonandi flykkjast áhorfendur á þann leik til að styðja strákana okkar í toppbaráttunni.

Byrjunarliðið var svona skipað:

image

Þess má geta að tveir toppleikmenn, Finnur Orri Margeirsson og Damir Muminovic, hafa nú náð að leika 250 leiki með meistaraflokki Breiðabliks. Orri Hlöðversson formaður knattspyrnudeildar færði þeim blóm fyrir leikinn enda er þetta frábær árangur hjá drengjunum. Finnur Orri spilaði sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk árið 2008 aðeins 17 ára gamall en Damir kom til okkar Blika árið 2014 og hefur varla misst úr leik síðan. Til hamingju með árangurinn piltar!

Leikurinn byrjaði hins vegar ekki nægjanlega vel fyrir Blikaliðið. Skagaliðið náði forystunni með frekar klaufalegu marki strax á sjöttu mínútu leiksins. Það er smá áhyggjuefni að Blikaliðið hefur verið að fá nokkur mörk á sig í sumar á uphafsmínútum fyrri eða síðari hálfleiks.  En þetta er hlutur sem ætti að vera auðvelt að laga og við treystum þjálfarateyminu til að stoppa fyrir þann leka.

Blikaliðið lét slæma byrjun hins vegar ekki slá sig út af laginu og sótti stíft að marki gestanna. Það skilaði árangri þegar Viktor Karl jafnaði metin með góðu skoti eftir frábæran undirbúning Árna Vilhjálmssonar á 24 mínútu. Kiddi Steindórs átti þá skemmtilega utanfótarsendingu á Árna sem plataði varnarmann Skagamanna með eldsnöggri utanfótargabbhreyfingu og var slopinn inn í teiginn. Flott sending á Viktor Karl sem gerði engin mistök og skoraði sitt fjórða mark í deildinni í sumar. Þrátt fyrir nokkur góð færi okkar pilta náðum við ekki að bæta við og staðan því jöfn þegar liðinu gengu til búningsherbergja.

image

Það var margt spjallað þegar hinir svokölluðu sérfræðingarnir sem húktu undir girðingunni í leikhléi matar- og kaffilausir krufðu fyrri hálfleikinn í tætlur. Einn hafði á orði að það væri óþarfi fyrir Blikaliðið að sjá um allan fótboltann fyrir bæði liðin en flestir voru á því að hinir miklu yfirburðir þeirra grænklæddu hlytu að leiða til markaskorunar í leiknum. En þrátt fyrir hugleiðingar þessara sérfræðinga þá reyndist þrautin þyngri að finna leið fram hjá þéttum varnarmúr Skagamanna. Enda beittu gestirnir oft fólskubrögðum til að stöðva léttleikandi Blikapiltana. Þegar yfir lauk höfðu fimm þeirra fengið áminningu, einn fengið reisupassann auk starfandi þjálfara.  Hver sóknaraldan á eftir aðra skall á Skagamarkinu en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fundum við ekki leið framhjá þessari Caro-Kann vörn gestanna. En þegar öll von virtist úti greip einn varnarmaður Skagapilta til handayfirlagningar í anda bókstafstrúarmanna í Bandaríkjunum og keyrði handlegginn í andlitið á Árna Vill. Að sjálfsögðu dæmdi dómarinn víti enda allir góðir menn sammála að refsa þyrfti fyrir svona framkomu.  

Árni tók vítaspyrnuna sjálfur og  það var falleg sjón þegar Árni Vilhjálmsson hljóp að hliðarlínunni og faðmaði Gunnleif Gunnleifsson fóstra sinn eftir að hafa skorað sigurmarkið.  Þrátt fyrir að Gunnleifur sé hættur í meistaraflokknum eru jákvæð áhrif hans á strákana mikil. Hann leysti Ólaf Pétursson af í þjálfarateyminu í þessum leik því Ólafur er núna staddur með meistaraflokki kvenna í Litháen þar sem Blikastelpurnar taka þátt í undanriðli fyrir Evrópukeppnina. Það er gríðarlegur styrkur að geta kallað jafn reynda menn og Gunnleif inn í hópinn þegar þörf krefur og er nærvera hans einn af mörgum styrkleikum þjálfarateymis Breiðabliks.

image

Leiknum lauk því með 2:1 sigri okkar manna og var vel fagnað af áhangendum Blika í stúkunni. Hrósa verður þeim tveimur Kópacabanameðlimum sem mættu og héldu uppi góðri stemmningu á leiknum allan tímann.

Vonandi mæta fleiri á leikinn gegn KA því norðanmenn munu fjölmenna og veita sínu liði góða hvatningu.

Einnig að hrósa öryggisgæslu Blika undir styrkri stjórn Benna Guðmunds, Stefáns Geirs og Valda fyrir snögg viðbrögð þegar leiknum lauk. Bandbrjálaðir Skagamenn ætluðu að þjarma að dómaratríóinu en vaskur hópur öryggisvarða hljóp strax út á völlinn og myndaði mannlegan vegg þannig að æstir Skagapiltar komust ekki upp með neitt múður við dómarana. Vel gert strákar!

image

-AP

Umfjallanir netmiðla

Myndaveisla í boði Blikar TV:

image

Til baka