BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Keppinautar eða andstæðingar

29.09.2023 image

Ég ætla svo sem ekki að staglast (mikið) á því hvað þetta fyrirkomulag með aukakeppnina fer í taugarnar á mér,  það er einfaldlega of mikið af tilgangslausum leikjum og uppsetning keppninnar nokkuð ósanngjörn.

Þá er leikjaálagið eitthvað sem þarf að skoða fyrir næsta sumar, sjá annars ágætar tillögur / vangaveltur mínar hér!

Annað sem ég vil gjarnan sjá í íslenska boltanum, myndbands aðstoð við dómgæslu, VAR. Þrátt fyrir að Englendingum gangi illa að tileinka sér tæknina þá gengur þetta vel annars staðar. Það sem skiptir mestu er kannski ekki alltaf sýnilegt, dýfur heyra nánast sögunni til og sama gildir fanta brot þegar dómarar sjá ekki til.

Blikar hafa haft öðrum hnöppum að hneppa síðustu vikurnar, Íslandsmeistaratitillinn löngu farinn og annað sætið í raun líka, góður sigur á nýstaðfestum Íslandsmeisturum síðasta mánudag bætti stöðuna í keppninni um Evrópusæti verulega.

Það hefur lengi verið mikil keppni milli Breiðabliks og Vals, en sú keppni hefur aldrei farið yfir strikið í leiðindum. Margir leikmenn og þjálfarar hafa verið hjá báðum félögum.. Hörður Hilmarsson, Ingi Björn Albertsson og bræðurnir Sigurður og Arnar Grétarsynir hafa þjálfað bæði liðin - allt einstaklingar sem ég hef verið svo heppinn að kynnast aðeins. Og, í gamla daga hélt ég til dæmis með Val í efstu deild, áður en Blikar náðu þangað.

Mér varð hugsað til þess fyrir leik að hversu ólíkir leikir vikunnar eru, gott dæmi um muninn á "andstæðingum" og "keppinautum". Á mánudag mættu Blikar "andstæðingum", í kvöld "keppinautum". Ég væri reyndar alveg til í að sjá smá "þíðu" í samskiptum milli andstæðinganna, ég skil pirringinn og ég skil hvernig svona vindur upp á sig (allt augljóslega hinum að kenna) - en til lengri tíma litið höfum við betra mót, betri lið og náum betri árangri í Evrópu ef við beinum orkunni annað.

Fjós Valsmanna er einstaklega vel heppnað, ég náði ekki fyrir leik í kvöld, enda kannski eins gott – ég kunni enga mannasiði þegar ég mætti í vor og settist í annað heiðurssætið, sem Hörður Hilmars á frátekið. Hann tók því auðvitað vel og við áttu fínasta spjall (eftir að ég færði mig). En ég mætti auðvitað í Fjósið hálfleik. Og eftir leik. Fyrsta sem ég sá eftir leikinn var bók um "keppinauta", sbr. meðfylgjandi mynd.

Ég vissi ekki alveg hverju ég mátti eiga von á varðandi liðsuppstillingu Blika, halda dampi, stefna á sigur og tryggja Evrópusæti.. eða hvíla leikmenn og leyfa yngri leikmönnum að safna reynslu.. eða einhver blanda af þessu. Þegar til kom var ekki verið að hvíla marga.

En, já, að leiknum.. sem er víst hugmyndin með þessum skrifum.

Ég ákvað að fara huldu höfði innan um stuðningsmenn Vals og hlera hvernig þeir væru að upplifa leikinn. Mér var reyndar fljótlega bent á að Blikatrefillinn gæfi ákveðnar vísbendingar um að það þyrfti að tala varlega þegar ég heyrði til.

Stutta sagan er að þetta var skemmtilegur leikur tveggja góðra, en ólíkra, liða - fyrir mig eins skemmtilegur og tapleikur getur orðið.  Og eins og ég hef nefnt áður vil ég frekar sjá skemmtilegan fótbolta en að safna stigum með einhverjum stórkarlabolta og tuddaskap, nokkuð sem hefur kannski verið meira áberandi í sumar en síðustu ár – og því miður skilað árangri.

Sóknarleikur Blikar var á köflum fyrsta flokks, en eitthvað gekk illa að skapa opin færi og ekki gekk vel að klára færin þegar þau komu. Ekki hjálpuðu mistök í vörninni til enda sóknarmenn Vals nokkuð öflugir í vítateig andstæðinganna.

Framan af voru liðin kannski full varfærin, einhver næstum-því-færi en eftir að Blikar færðu gestgjöfunum mark að gjöf upp úr þurru eftir tuttugu mínútur lifnaði yfir leiknum. Blikar fengu talsvert af færum, sláarskot, aukaspyrnur og nokkur fín færi.. og svo kom þetta fína mark, Anton Logi afgreiddi boltann í netið eftir frábæra sókn.

En Valmenn náðu fljótlega skyndisókn og Patrick Pedersen kláraði færið vel eftir að hafa betur í kapphlaupi við varnarmann Blika.

Blikar hófu seinni hálfleik vel og höfðu mikla yfirburði en lítið gekk að skora, ég missti talningu á hvers oft ég var búinn að bóka jöfnunarmarkið, skalli í slá og nokkur fín færi. Auðvitað kom markið svo eftir enn eina vel útfærða sóknina - Viktor Karl að lokum með frábæra sendingu sem Kristófer kláraði með skalla.

Sessunautar mínir, með rauðu treflana, voru heldur betur ósáttir við dómara leiksins að dæma ekki víti á Blika vegna þess að boltinn hefði farið í hendi leikmanns Blika innan vítateigs, aldrei víti í mínum huga og ég hefði ekki kallað eftir víti ef svona atvik hefði átt sér stað í hinum vítateignum - og við nánari skoðun fór boltinn ekki einu sinni í hönd leikmanns Blika.

Blikar gerðu líka amk. tvisvar kröfu um víti, amk. í öðru tilfellinu mun réttmætari en krafa Valsmanna, en sá ekki nægilega vel og geri ráð fyrir að dómarinn hafi metið þetta rétt.

Það hefði ekki verið verra að klára leikinn í framhaldinu en gestgjafarnir eru með eitraða sóknarmenn með nef fyrir staðsetningu í teig, gæði til að klára færin og eftir eina kláraði Patrick Pedersen og kom Val enn eina ferðina yfir. Ég hafði svo sem ekki miklar áhyggjur, sannfærður um að jöfnunarmark kæmi fljótlega og alls ekki búinn að gefa sigur upp á bátinn.

Valsmenn fengu sennilega ódýrustu vítaspyrnu sumarsins, það var ekkert að gerast og boltinn á leiðinni út af þegar Anton Logi steig óvart á reimarnar á skóm sóknarmanns Vals sem missti fótanna. Ágætur dómari leiksins tók sinn tíma, eins og hann kynni ekki almennilega við að vera að dæma víti á svona ómerkilegt atvik. Vítaspyrna var, sennilega réttilega, dæmd - en Anton Ari gerði sér lítið fyrir og varði frá Patrick, sem kunni sennilega heldur ekki við að vera að skora úr svona víti! Talandi um ódýr atvik á meðan ég man, gula spjaldið sem Gísli fékk er sennilega minnst verðskuldaða gula spjald sumarsins.

Blikar sóttu, en sama saga og áður, ekki mikið um góð færi og ekki tókst að nýta þau sem tókst að skapa. Meira að segja nokkuð margar aukaspyrnur í kjörstöðu gengu ekki upp að þessu sinni. Kannski var dæmigert fyrir leikinn að ég held að Höskuldur hafi amk. tvisvar verið nær því að skora beint úr horni en aukaspyrnu.

Valsmenn kláruðu svo enn eina sóknina og PP kláraði þrennuna með sínu 99 marki fyrir Val þegar lítið var eftir af venjulegum leiktíma. Enn fannst mér ekkert fráleitt að ná að jafna leikinn, sem segir kannski meira um hversu opinn leikurinn hafði verið en óraunhæfa bjartsýni mína. Jæja, kannski bæði. En ég var farinn að hætta að hugsa um sigur.

Ég sleppi því að velja mann leiksins hjá Blikum, hef aldrei almennilega skilið tilganginn með þessu. Flestir leikmenn áttu mjög fínan leik, margir gerðu sig seka um minni háttar mistök / andvaraleysi / ekki-alveg-á-tánum. Og svo er ég ekkert endilega að horfa á einstaka leikmenn þegar ég horfi á fótbolta. En gott og vel, Viktor Karl, Jason Daði, Höskuldur, Kristófer myndu kannski vera ofarlega á lista ef það væri snúið upp á hendina á mér, Kristinn, Anton Logi - og ég er nánast að klára að telja upp allt liðið 😊

En það verður gaman að sjá hvernig Arnari tekst að þróa þetta Valslið á næstu árum, vonandi ná þeir að fylgja fordæmi Blika á næsta ári og ná í riðlakeppni Evrópu. Vonandi samt ekki nógu góðir til að taka titilinn af Blikum, sem ég er auðvitað búinn að bóka í hús á komandi árum.

En KR næst og svo fyrsti heimaleikur í riðlakeppni Evrópu.

-Valgarður Guðjónsson

Til baka