- Byrjunarlið Breiðabliks; Aftari röð f.v.: Aron Snær Friðriksson, Guðmundur Atli Steinþórsson, Ellert Hreinsson, Viktor Örn Margeirsson, Kári Ársælasson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Fremri röð f.v.: Ágúst Eðvald Hlynsson, Atli Sigurjónsson, Óskar Jónsson, Alexander H. Sigurðarson, Guðmundur Friðriksson.
- Ágúst Eðvald er yngsti leikmaður í sögu meistaraflokks Breiðabliks til að skora mark í opinberri keppni á Íslandi. Mynd: Eyjólfur Garðarsson
- Alexander Helgi spilaði sinn fyrsta leik fyrir Blika frá árinu 2013 og sýndi lipra takta. Mynd: Eyjólfur Garðarsson
- Óskar Jónsson, spilaði allan leikinn og sýndi og sannaði hve klókur knattspyrnumaður hann er. Mynd: Eyjólfur Garðarsson
- Á 62. Mínútu skoraði Guðmundur Atli gullfallegt mark með þéttri innanfótarspyrnu beint upp í markvinkilinn. Mynd: Eyjólfur Garðarsson
- Allir samtaka nú .... Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Krían skotin niður
27.05.2016
Blikar lögðu Kríuna 0:3 örugglega í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins. Þrátt fyrir að Blikar tefldu fram algjörlega nýju byrjunarliði þá höfðu þeir grænklæddu tögl og haldir í leiknum frá upphafi til enda.
Mörkin frá Guðmundi Atla, Ágústi Hlyns og Arnþóri Atla komu reyndar ekki fyrr en í síðari hálfleik en við héldum knettinum svona 80% af leiknum.
Veðurguðirnir voru reyndar í frekar fúlu skapi á Nesinu. Rigning og rok á Valhúsahæðinni á Seltjarnarnesi gerði leikmönnum erfitt fyrir svo ekki sé minnst á þokkalegan stóran hóp áhorfenda sem lagði á sig að fylgjast með leiknum. Það var samt mesta furða hve leikmennirnir náðu að halda knettinum niðri.
Okkar drengir létu boltann ganga vel en sóknaraðgerðir okkar voru stundum full hægar og náðum við ekki að opna Kríudyrnar nægjanlega vel.
Heimapiltarnir voru hins vegar þéttir og skipulagðir í vörninni og eiga hrós skilið fyrir mikla baráttu . Sóknir þeirra voru hins vegar fáar og runnu yfirleitt strax út í sandinn á traustri varnarlínu Blika með þá félaga Kára og Viktor Örn í lykilhlutverki.
Í síðari hálfleik fóru yfirburðir Úrvalsdeildarliðsins að koma í ljós. Á 62. Mínútu skoraði Guðmundur Atli gullfallegt mark með þéttri innanfótarspyrnu beint upp í markvinkilinn eftir ágæta fyrirgjöf Arnórs utan af kanti.
Skömmu síðar vann hinn ungi og efnilegi Ágúst Eðvald Hlynsson knöttinn á miðjum vallarhelmingi Kríunnar, geystist í gegnum varnarlínuna og setti knöttinn í netið á snyrtilegan hátt. Þar með varð Ágúst Eðvald yngsti leikmaður í sögu meistaraflokks Breiðabliks til að skora mark í opinberri keppni á Íslandi. Ágúst er ekki nema 16 ára og tveggja mánaða gamall en þjálfarinn okkar Arnar Grétarsson setti sitt fyrsta meistaraflokksmark þegar hann var 16 ára og 3 mánaða í leik gegn ÍR árið 1988 . Viktor Unnar Illugason var 16 ára og 4 mánaða þegar hann skoraði gegn ÍBV í Eyjum árið 2006.
Arnþór Ari Atlason negldi svo síðasta naglann í kistu Kríumanna þegar hann skoraði með nettum skalla rétt fyrir leikslok.
Blikar geta verið nokkuð sáttir við leikinn. Nýir leikmenn í bland við gamla jaxla fengu að spreyta sig og stóðu sig allir vel.
Alexander Helgi spilaði sinn fyrsta leik fyrir Blika frá árinu 2013 og sýndi lipra takta.
Annar ungur leikmaður, Óskar Jónsson, spilaði allan leikinn og sýndi og sannaði hve klókur knattspyrnumaður hann er.
Atli Sigurjónsson var potturinn og pannan í sóknarleiknum. Sérlegur álitsgjafi blikar.is , Andri Rafn Yeoman, var hins vegar sannfærður að Guðmundur Atli hefði verið langbestur í leiknum. Það hafði ef til vill áhrif á skoðun Andra Rafns að Guðmundur Atli stóð við hliðina á honum þegar þessi orð féllu J
Varamannabekkurinn með þá Damir, Arnþór Ara, Höskuld, Gulla, Sólon, Ólaf Hrafn og Davíð Kristján er örugglega einn sá sterkasti sem Blikar hafa verið með í langan tíma!
En sem sagt, við erum komnir áfram í 16-liða úrslit og liðið ferskt fyrir leikinn gegn Stjörnunni á mánudaginn.
Þar verður ekkert gefið eftir og þar verða allir að mæta!