Kristinn Jóns og Finnur Orri framlengja til 3 ára
02.05.2012Þau ánægjulegu tíðindi voru að berast að Kristinn Jónsson og Finnur Orri Margeirsson fyrirliði hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Breiðabliks til þriggja ára. Samningur þeirra átti að renna út um næstu áramót en nú eru þeir sem sagt samningsbundnir okkur til ársins 2015. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi sem knattspyrnudeild Breiðabliks hélt í hádeginu í dag.
Þrátt fyrir ungan aldur eru Kristinn og Finnur Orri hoknir af meistaraflokksreynslu. Kristinn sem er á 23 aldursári, lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2007 og á nú að baki rúmlega 100 meistaraflokksleiki. Hann hefur leikið 12 landsleiki með U-17 ára, 12 með U-19 ára og 6 með U-21 árs landsliðinu. Þar að auki lék Kristinn einn landsleik með A-landsliði Íslands árið 2009. Hann átti við erfið meiðsli að stríða í fyrra en er nú alveg að ná sér af þeim meiðslum.
Finnur Orri er fæddur árið 1991 og verður því 22 á þessu ári. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik 17 ára gamall árið 2008 og hefur nú leikið í kringum 130 meistaraflokksleiki. Finnur Orri hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og yfirleitt verið fyrirliði. Hann er núverandi fyrirliðið meistaraflokks Breiðabliks og fyrirliði U-21 árs liðs Íslands.
Einnig er mjög líklegt að hollenski miðvörðurinn, Renee Troost, gangi til liðs við Blika. Hann hefur æft með liðinu undanfarna viku og staðið sig vel. Einungis nokkur tæknileg atriði standa út af varðandi samninginn. Þessi 23 ára Hollendingur er stór og stæðilegur, 190 cm og 85 kg, og hefur spilað með 1. deildarliðum í heimalandi sínu.
Áfram Breiðablik !