Kveðja frá Ungmennafélaginu Breiðabliki
26.11.2012Kveðja frá Ungmennafélaginu Breiðabliki
Fallinn er frá á 81. aldursári sá mikli garpur Ármann J. Lárusson, sem skipaði sér í flokk sem einn mesti afreksmaður íþróttasögunnar á Íslandi. Það afrek hans að vinna Íslandsglímuna alls 15 sinnum, þar af 14 sinnum í röð verður seint jafnað. Hann skilaði Grettisbeltinu ósigraður árið 1967 þegar hann hætti keppni.
Ármann hóf keppni undir merkjum Breiðabliks frá stofnun félagsins á sjötta áratug síðustu aldar. Þar sýndi hann fjölhæfni sína glögglega því undir merkjum Breiðabliks keppti hann í frjálsum íþróttum, handknattleik, knattspyrnu, bridge og síðast en ekki síst glímunni frá árinu 1961.
Fáir hafa tekið þátt í jafn mörgum landsmótum Ungmennafélags Íslands og Ármann. Hann keppti á sínu fyrsta móti árið 1949 og síðan á öllum landsmótum eftir það fram á allra síðustu ár og þá sem bridgespilari. Eftirminnilegasta landsmótið á ferli Ármanns fannst honum landsmótið á Sauðárkróki árið 1971. Þá skellti hann sér óvænt í glímugallann eftir að hafa ekki glímt í þrjú ár þar á undan. Varla þarf að taka það fram sérstaklega hver stóð uppi sem sigurvegari í þeirri keppni.
Ármann hefur alla tíð viljað veg félagsins sem mestann og hefur aldrei legið á liði sínu þegar til hans hefur verið leitað með hvað sem er. Þá var ekki setið við orðin tóm heldur verkin látin tala. Fyrir störf sín í þágu Breiðabliks hlaut Ármann æðstu heiðursveitingu félagsins á áttræðisafmæli sínu í mars síðastliðinn.
Fyrir nokkrum árum ákváðu þau hjónin, Ármann J Lárusson og Björg Árnadóttir að ánafna Breiðabliki verðlaunagripi og ýmsa muni sem Ármann hafði unnið til á löngum ferli. Félagið er stolt af því að varðveita þetta mikla safnog halda um leið á lofti minningu þessa mikla íþróttakappa og félagsmanns.
Ég votta eftirlifandi eiginkonu og afkomendum Ármanns samúð nú þegar hann hefur kvatt þennan heim.
Fyrir hönd Ungmennafélagsins Breiðabliks
Orri Hlöðversson, formaður.