BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lágmynd af Valdimar Kristni Valdimarssyni afhjúpuð á Kópavogsvelli

10.05.2016

Valdimar Kristinn Valdimarsson, eða Valdi vallarvörður, var einstakur æskulýðsleiðtogi.

Á meðan eldhuginn Heiðar Bergmann Heiðarsson, oft nefndur Heisi, var að taka viðtöl við fólk vegna heimildarmyndarinnar um Vallargerðisvöll, Með sand í augum, kom nafn eins mannns fram hjá flestum viðmælendum hans, en það var Valdimar Kristinn Valdimarsson eða Valdi vallarvörður. Það er sérstaklega eftirtektarvert hvað menn töluðu af mikilli virðingu og hlýhug um Valda enda var þar á ferð einstakur æskulýðsleiðtogi sem lagði sig fram um að hvetja bæði stráka og stelpur, unga sem eldri til að æfa sig í fótbolta. Margir halda því fram að hann hafi með elju sinni og áhuga lagt grunninn að því að ungar stúlkur fóru að iðka knattspyrnu ekki bara hér í Kópavogi þó starfið hafi byrjað hér helfur breiddist knattspyrnuiðkun stúlkna út um allt land. Heisi hóaði saman nokkrum valinkunnum sómablikum til að undirbúa gerð lágmyndar af Valda sem komið yrði fyrir á fallegum steini við inngang að Kópavogsvelli. Ef einhver  á þennan heiður skilið er það Valdimar Kr. Valdimarsson. Listamaðurinn Ívar Valgarðsson var fengin til að gera gifsmót eftir gömlum ljósmyndum og Málmsteypan Hella steypti svo myndina í brons.

Undirbúningshópurinn vill þakka þeim fyrir frábæra vinnu og ánægjulegt samstraf. Hópurinn vill líka færa Lista- og menningarráði Kópavogs bestu þakkir fyrir myndarlegan stuðning og einnig Umhverfissviði Kópavogsbæjar sem sá um uppsetningu verksins.

Lágmyndin verður afhjúpuð miðvikudaginn 11. maí á Kópavogsvelli klukkan 18:30. Íslandsmeistarar Breiðabliks taka svo á móti KR í Pepsi-deild kvenna klukkan 19:15. Boðið verður upp á pylsur og skornar appelsínur að hætti Valda. Gefnir verða boltar og drykkjarbrúsar á meðan birgðir endast. Og það er frítt inn á leikinn í boði Tengi og ÁF hús ehf.

Var Valdi galdramaður?

Valdi gamli vallarvörður var í hugum margra okkar krakkanna sem stunduðum það að hanga á Vallargerðisvelli galdramaður. Hann kunni allt og gat allt, og hann var strangur – en samt bara mátulega. Við reyndum auðvitað, eins og krakka er von, að ganga aðeins lengra en hann leyfði, en mörkin voru skýr í hans huga og yfir þau fór maður bara einu sinni.

Valdi var handlaginn, gerði við net og galdraði blöðrur úr boltum og átti alltaf til bót þannig að hægt var að sparka í boltann aftur. Hann hélt úti nokkrum kynslóðum knattspyrnufólks í Kópavogi sem dáðu hann og dýrkuðu og báru fyrir honum óttablandna virðingu. Auðvitað án hans vitundar.

Á mínu heimili var alltaf talað um Valda fisksala, en hann rak fiskbúð í húsi KRON á Álfhólsvegi 32, en á þeirri góðu götu var ég alin upp og Valdi bjó þar líka. En ég kynnist þó ekki Valda fyrr en hann var orðinn vallarvörður og í mínum huga og langsamlega flestra jafningja minna var hann þekktur sem Valdi vallarvörður.

Ég sagði í upphafi að Valdi hafi í hugum okkar krakkanna verið galdramaður. Ég er nokkuð viss um að hann væri stoltur af þeirri nafngift. Hann var alinn upp meðal galdramanna á Ströndum, nánar tiltekið á Látrum í Aðalvík en þaðan flutti hann til Reykjavíkur árið 1946 en ári seinna flutti hann ásamt Rósu konu sinni í sumarbústað í Kópavogi og byggði sér og sístækkandi fjölskyldu sinni reisulegt hús við Álfhólsveg. Í bænum okkar bjó hann alla tíð síðan.

Hann var Kópavogsbúi með stóru K-i og barðist einarðlega fyrir öllum þeim sem minna máttu sín. Sigurjón sonur Valda orðar þetta vel þegar hann segir í minningargrein um föður sinn: "Að mörgu leyti var karl faðir minn einstakur maður sem alltaf vildi gefa af sér og gleðja þá sem í kringum hann voru. Hann var þó einnig nokkur bardagamaður og þoldi illa óréttlæti sem aðrir urðu fyrir."

Knattspyrnustúlkur úr Kópavogi nutu baráttumannsins svo sannarlega og hann, að öðrum ólöstuðum er sá sem lagði grunninn að því veldi sem Breiðablik varð og er í knattspyrnu kvenna á Íslandi. Hann stóð til að mynda fyrir fyrsta opinbera knattspyrnuleik stúlkna í Kópavogi þegar Austur- og Vesturbær öttu kappi árið 1967. Hann kom á fót skólamóti grunnskólabarna í knattspyrnu árið 1969 og lagði á það þunga áherslu að keppt yrði bæði í stúlkna og piltaflokki. Þessum mótum hélt hann, ásamt nokkrum fleirum góðum mönnum, úti í um 20 ár og til marks um umfangið má nefna að árið 1985 voru þátttakendur 406 og í blaðagrein um mótið er sérstaklega til þess tekið að helmingur iðkenda hafi verið stúlkur og helmingur drengir.

Valdi var eitilharður Bliki og hann varð virkur í félagsstarfinu fljótlega eftir stofnfund félagsins árið 1950. Þrjátíu og þremur árum síðar, árið 1983, hringir hann í DV og er greinilega mikið niðri fyrir. Þá hafði knattspyrnuþjálfari, sem ráðinn hafði verið til Breiðabliks, að hans sögn: "eyðilagt mikið uppbyggingarstarf í knattspyrnu sem hefur átt sér stað hér undanfarin ár" og hér æfðu aðkomumenn með liðinu á sama tíma og leikmenn sem fæddir eru í Breiðabliki eru á förum eða eru að hætta.  Valdi lauk reiðilestri sínum með því að spyrja: "Hvað er orðið af öllum þeim strákum sem hafa haldið merki Breiðabliks á lofti? Fá þeir ekki tækifæri að spreyta sig vegna þess að aðkomumenn eru byrjaðir að ráða hér ríkjum?"

Þarna talaði baráttumaðurinn, sá sem vildi að menn uppskeri eins og þeir sá.

Já Valdi var ekkert að skafa utan af hlutunum. Hann var baráttumaður af gamla skólanum og mátti ekki sjá óréttlæti nokkurs staðar. Á árunum frá 1980 og langt fram á tíunda áratug síðustu aldar átti knattspyrna kvenna verulega undir högg að sækja. Stöðugt fleiri stúlkur sóttu knattspyrnuæfingar á sama tíma og "kerfið" var ekki alltaf tilbúið til að taka á móti stelpunum. En Valdi gamli vallarvörður var sannarlega haukur í þeirra horni. Hann barðist mjög hart fyrir framþróun mótahalds fyrir stelpurnar á ársþingum KSÍ og lét til sín taka á opinberum vettvangi vegna þess.

Árið 1989 skrifar hann í blöðin og leggur fram tillögu á ársþing KSÍ þar sem hann leggur til breytingar á keppnisfyrirkomulagi í yngri flokkum kvenna þannig að leiktími 2. og 3. flokks verði lengri og að 3. flokkur spili á stórum velli. Hann segir m.a.: "Það nær ekki nokkurri átt að 12-14 ára stúlkur séu að spila á litlum völlum eins og 5. og 6. flokkur pilta gerir. Þær eru einfaldlega of stórar fyrir slíkt … Auk þess gengur ekki að Íslandsmótið hjá þeim standi yfir eina helgi og sé síðan úrslitakeppni"

Nokkrum vikum síðar dregur hann aftur fram blað og penna og ítrekar kröfur um breytingar á fyrirkomulagi yngri flokka kvenna. Framsýni hans var viðbrugðið því hann lagði til í tillögum sínum að komið yrði á fót 4. og 5. flokkur kvenna. Honum varð að ósk sinni fyrir 4. flokk en Íslandsmót í 5. flokki stúlkna var fyrst haldið árið 2005, en það hét Hnátumót áður.

Valdi lagði línurnar fyrir mig og margar fleiri sem um árabil börðust fyrir framgangi kvenna í knattspyrnu. Hann kenndi okkur að þola ekki órétt, hann leiddi baráttuna og gafst ekki upp. Það gerðum við ekki heldur og orðin hans um stelpur í fótbolta þyrftu að eiga það takmark að komast í landsliðið varð leiðarljós svo ótal margra stúlkna í Breiðabliki.  Valdi sagði árið 1989 þegar ekkert var kvennalandsliðið en lofað hafði verið að endurvekja stúlknalandslið: „Knattspyrna kvenna er staðreynd og komin til að vera. Stúlknalandslið er gott og gilt en landslið er efsta þrepið. Landslið er takmark sem stúlkur eiga að geta stefnt að til jafns við pilta.“

Í huga ungrar stúlku af Álfhólsveginum var Valdi galdramaður. Hann gat allt og hjá honum áttum við krakkarnir alltaf skjól. Seinna í huga ungrar konu af Álfhólsveginum var Valdi galdramaður. Hann sneiddi niður appelsínur í kílóavís, hellti uppá te og kaffi og bakaði dásamlegar jólakökur og hann gat lagað allt sem afvega fór, hvort sem það var í stórum vélum eða nosturslegur saumur sem þurfti að laga á bolta eða klæði.

Valdi var galdramaður og ég er ekki frá því að hann var einn þeirra sem lagði til sprek í bálið sem brann í mér fyrir knattspyrnu kvenna í Kópavogi og á Íslandi. Hann lagði línurnar, markaði sporin og sjálf var ég bara sporgöngukona, þakklát fyrir að hafa kynnst Valda vini mínum vallarverði.

Þau voru nokkur, eldra fólkið, sem við sem þá vorum yngri fylgdumst með og horfðum upp til á leikjum, Hulda P fór þar fremst í flokki ásamt, Þórhalli manni sínum, Diddi hennar Helgu Kristjáns og svo Konni gamli sem var lengur en elstu menn muna liðsstjóri meistaraflokks karla. Þau mættu öll á kvennaleikina líka og létu vel í sér heyra. Helga er sú eina þessara sem hér eru upptalin sem enn mætir á völlinn holdi klædd, en ég er sannfærð um að þau hin eru hér með okkur því þetta var staðurinn þeirra. Helga orðaði það líka svo vel hvernig manni leið þegar fregnin um andlát Valda barst okkur. Hún segir að hún hafi verið „stödd á Kópavogsvelli að horfa á leik. Leikurinn varð á andartaki að aukaatriði. Völlurinn varð að stærðar minnismerki um Valda um leið og hann vakti ljúfsárar minningar um löngu liðin töp og sæta sigra sem við upplifðum saman. Augu mín hvörfluðu að staðnum þar sem skódinn hans stóð jafnan á leikjum Breiðabliks þannig að kona hans Rósa, sem er fötluð, gæti horft á.“ Sá staður er hér við norðaustur hluta stúkunnar.

Kópavogur og Breiðablik eru ríkari fyrir það lán að Valdi flutti í sumarbústað í Kópavogi árið 1947.

Ingibjörg Hinriksdóttir

Fyrst birt í Kópavogsblaðinu 6. maí 2016 bls. 8 &9.

Til baka