BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lengjubikarinn 2024. Þór - Breiðablik

11.03.2024 image

Næsti leikur okkar manna í Lengjubikarnum 2024 er undanúrslitaleikur gegn Þór.

Flautað verður til leiks í Boganum á Akureyri kl.16:30 á fimmtudaginn. 

Stöð 2 Sport sýnir leikinn.

Sigurlið leiksins í Boganum á fimmtudaginn spilar til úrslita í Lengjubikarnum 2024 gegn annaðhvort ÍA eða Val 27. mars. 

Lokastaða fjögurra efstu liða í riðli 1: 

image

Innbyrðis vorleikir liðanna

Í gagnagrunni blikar.is kemur fram að innbyrðis vorleikir Breiðabliks og Þórs eru 8, allir í Lengjubikarnum. Fyrsti leikur liðanna var 17. mars 1996, árið sem Deiladabikarinn (nú Lengjubikarinn) hóf göngu sína. Leikið var á gamla Sandgrasvellinum í Kópavogi þar sem nú er Fífan. Síðast mættust liðin í keppninni í mars 2022. Leikið var í Boganum á Akureyri. 

Viðtalið

Tíðindamaður blikar.is hafði samband við Harald Björnsson markmannsþjálfara meistaraflokks karla og lagði fyrir hann nokkrar spurningar:

Hvernig leggst undan úrslitaleikurinn við Þór í þig?

Leikurinn leggst mjög vel í mig, það eru alltaf hörkuleikir fyrir Norðan hvort sem það er KA eða Þór sem spilað er við. Siggi Höskulds þjálfari Þórs er fær þjálfari og þeir eru með öfluga leikmenn og því á ég von á hörkuleik.

Hvað er það sem stendur uppúr hjá þér þessa fyrstu mánuði sem markmannsþjálfari meistaraflokks karla? 

Þetta eru mínir fyrstu mánuðir sem þjálfari yfir höfuð en þetta hefur farið fram úr mínum björtustu vonum. Anton og Brynjar eru frábærir markmenn og svo eru líka mjög efnilegir strákar í 2. og 3. flokk.   Mér hefur verið vel tekið af öllum sem ég er þakklátur fyrir.

Hverjar eru þínar aðal áherslur í þjálfun? 

Mínar aðal áherslur er fyrir utan að vera með fjölbreyttar og góðar æfingar að þá vil ég reyna að bæta menn frá degi til dags með því að skoða vidjó og greina leiki og æfingar. Búa til nýjar æfingar útfrá atvikum í ný liðnum leikjum/æfingum  til þess að kenna.

Segðu okkur aðeins frá íþróttaferlinum þínum.

Ég er uppalinn í Val en fer í atvinnumennsku 16 ára til Hearts í Skotlandi. Kem svo aftur heim í Val tæplega tvítugur. 23 ára fer ég aftur út og spila með nokkrum liðum í Noregi og Sviþjóð. 2017 kem ég heim og sem við Stjörnuna og spila þar í 7 ár þangað til í fyrra en síðasta ár var ég utan vallar vegna meiðsla.

Hver er Haraldur Björnsson?

Ég er 35 ára, tveggja barna faðir. Er í sambúð með Sigríði Erlu og samhliða fótbolta er ég annar eiganda Garðatorgs eignamiðlunar sem er fasteignasala í Garðabæ.

Dagskrá

Flautað verður til leiks í Boganum á Akureyri kl.16:30 fimmtudaginn 14. mars.

Stöð 2 Sport sýnir leikinn.

Áfram Blikar!  Alltaf - alls staðar!

-PÓÁ

Til baka