Mikilvægt skref í átt að Evrópu!
19.08.2023
Blikar unnu flottan 1:0 sigur gegn Zrinjski Mostar frá Bosníu í síðari leik liðanna í undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Því miður dugði þessi sigur ekki til að komast áfram í keppninni því Bosníumennirnir unnu öruggan sigur í leik liðanna á heimavelli sínum í síðustu viku. En sigurinn var hins vegar mjög mikilvægur því hann sýndi það og sannaði að Blikaliðið getur lagt svona lið að velli þegar það spilar af eðlilegri getu. Nú tekur við hörkuleikur gegn N-Makedóníska liðinu Struga í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu. Fyrri leikurinn fer fram í Albaníu eftir viku því heimavöllur Struga er ekki löglegur fyrir þá keppni. Svo fer síðari leikurinn fram á Kópavogsvelli fimmtudaginn 31. ágúst.
Þeir ellefu leikmenn sem hefja leikinn gegn Mostar á eftir. Seljum okkur dýrt strákar leggjum allt í þetta???? pic.twitter.com/0Onbl0dOwM
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) August 17, 2023
Allt annað var að sjá til Blikaliðsins en í fyrri leiknum úti. Miklu betra jafnvægi var milli varnar, miðju og sóknar. Þrátt fyrir að hafa spilað gegn sterkum vindi í fyrri hálfleik var Blikaliðið hættulegra í sóknaraðgerðum sínum. Gísli skoraði meðal annars stórglæsilegt mark eftir flotta sendingu frá Jasoni Daða en það var því miður dæmt af vegna rangstöðu.
Blikarnir sóttu nokkuð stíft á Bosníumennina í síðari hálfleik og það skilaði sér í einu marki. Einn af gestunum tæklaði þá fasta fyrirgjöf Davíðs Ingvarssonar í markið og smá spenna hljóp í leikinn. Ekki minnkaði hún þegar Klæmint Olsen skallaði í stöngina aðeins tveimur mínútum síðar. En Bosníuliðið er skipað reyndum leikmönnum og þeir náðu að þétta vörnina. Leikurinn rann því smám saman út í sandinn því munurinn frá fyrri leiknum var of mikill fyrir Blikana til að vinna upp.
Það verður hins vegar að hrósa Blikaliðinu fyrir góðan leik. Boltinn fékk að fljóta vel upp báða kantana og einkum var Jason Daði líflegur á hægri vængnum. Anton Logi vex með hverjum leiknum og er oft unun að sjá hve áreynslulaust hann dreifir spilinu um allan völl. Brynjar Atli stóð sig með sóma á milli stanganna og varði mjög vel í nokkur skipti. Vörnin var líka traust og stigu þeir Viktor Örn og Damir vart feilspor í leiknum. Þessi frammistaða lofar því góðu fyrir komandi leiki. Vonandi ná þjálfararnir að dreifa álaginu skynsamlega á milli deildar og Evrópuleikja þannig að hámarksárangur náist á báðum vígstöðvum.
Sigur Blikaliðsins var ekki eingöngu mikilvægur fyrir Breiðablik heldur einnig fyrir íslenska knattspyrnu í heild sinni. Ástæðan er sú að Ísland safnar stigum fyrir hvert jafntefli og hvern sigur sem íslensk lið ná í Evrópukeppninni. Þessi stig ákveða síðan hve mörg sæti Ísland fær í Evrópukeppni á næstu árum. Nú er svo komið að árangur íslenskra liða í ár, sérstaklega Breiðabliks og KA, hafa tryggt Íslandi fjögur sæti í Evrópukeppnum á næstu árum. Vel gert strákar!
Mæting á völlinn hefur oft verið betri. En þeir áhorfendur sem mættu létu ágætlega í sér heyra. Vonandi fer fólk að koma heim úr fríum þannig að það geti stutt vel við bakið á Blikaliðinu í komandi leikjum. Það er nefnilega alltaf góð stemmning á Kópavogsvelli!
-AP
30. mín á klukkunni og staðan 0:0. Boltinn gengur hratta á milli manna. Okkar menn frískir án þessa að koma sér í hættulegar stöður. Helst Gísli sem ógnar en þetta er 250. mótsleikur hans í Breiðablikatreyjunni. Til hamigju með það Gísli! pic.twitter.com/MOnrItenaw
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) August 17, 2023
52. mín. Góð sókn hjá Blikum sem endar með skoti frá Kristni Steindórs en hann, einsog Gísli, er einnig að spila 250. mótsleikinn í Breiðablikstreyjunni. Til hamingju Kristinn. pic.twitter.com/cqZC52LGMJ
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) August 17, 2023