Örlygsstaðastrategía og tölfræði
20.06.2021
Kópavogsdalur skartaði sínu fegursta sunnudagskvöldið 20. júní. Sól skein í heiði, það var vestan gola, völlurinn fagurgrænn að venju og vel vökvaður. FH-ingar voru mættir eftir dapurt gengi að undanförnu – Blikar særðir eftir að hafa tapað fyrir Val. Við feðgar komumst ekki á leikinn á Hlíðarenda en samkvæmt tölfræði okkar fremstu sparkspekinga og greiningardeildum þeirra áttu Blikar að bursta þann leik. Það var talað um X-G og fleira gott – en tölfræði vinnur enga leiki. Meira um þau vísindi síðar.
Í stúkunni sá tíðindamaður blikar.is fyrst sjálfan Thomas Mikkelsen og fast á hæla honum kom landi hans Nikolaj Hansen (sem notaði derhúfu sem dulargervi) og skömmu síðar birtist Alfreð Finnbogason. Það var því nóg af mörkum í stúkunni – en því miður duga þau lítið inni á vellinum, þar verða menn víst að sjá um þau sjálfir. Lið Blika var þannig skipað:
Þjálfarar tvennra tíma
Þjálfarar liðanna eru nokkuð ólíkir. Óskar Hrafn er á sínu öðru tímabili í efstu deild en Logi Ólafsson er hokinn af reynslu. Maður hlustar varla á hlaðvarpsþátt um sögu íslenskrar knattspyrnu án þess að hann komi þar við sögu með einum eða öðrum hætti. Heimildum ber raunar ekki saman um hvenær hann hóf að þjálfa. Sumir segja að hann hafi verið liðsstjóri þegar Egill Skallagrímsson lék knattleik snemma á tíundu öld en það hefur ekki fengist staðfest.
Leikurinn fór rólega af stað. Jason Daði átti ágætt skot á fjórðu mínútu, litlu síðar skoraði Matthías Vilhjálmsson mark sem réttilega var dæmt af og fleira í þeim dúr. Davíð Þór Viðarsson hóf vaktina á hliðarlínunni og kallaði óspart til sinna manna og á 13. mínútu var Logi mættur þar líka, honum stóð greinilega ekki á sama og skömmu síðar var aðstoðarmaðurinn farinn að segja dómurunum til.
Viktor Örn Margeirsson var valinn leikmaður leiksins:
Viktor togaður niður og víti dæmt. Mynd: Jóhannes Long
Undanhald samkvæmt áætlun
FH-ingar lágu á þessum tíma nokkuð þéttir til baka. Mér fannst þessi taktík minna á það þegar Logi Ólafsson var í þjálfaraliði þeirra feðga Sighvats og Sturlu í aðdraganda Örlygsstaðabardaga árið 1238 en andstæðingar þeirra voru Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi. Sturlungar höfðu ætlað að gera aðför að Kolbeini heima á Flugumýri í Skagafirði en gripu í tómt. Þeir héldu kyrru fyrir í Blönduhlíð aðeins innar í firðinum og biðu þar átekta. Svolítið eins og FH-ingar í kvöld.
Sturlungar sendu af og til menn inn á hálendið til að athuga hvort Sunnanmenn, eins og lið Gissurar og Kolbeins er gjarnan kallað í Sturlungu, væru einhvers staðar á ferðinni en enginn þeirra sneri aftur. Þeir FH-ingar sem hættu sér fram yfir miðju í pressu skiluðu sér þó ævinlega til baka. En allt í einu birtust Sunnanmenn ríðandi – líklega 1700 saman – austur yfir Héraðsvötn og komu Sturlungum algjörlega í opna skjöldu svo þeir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir hófu þegar undanhald samkvæmt áætlun og bjuggu um sig í gerðinu á Örlygsstöðum en það þýddi lítið og fljótlega brast flótti í liðið. Féllu þar þeir feðgar Sighvatur og Sturla. En ég var sem sagt að velta þessari taktík Loga frá Örlygsstöðum fyrir mér þegar Blikar geystust skyndilega yfir sín Héraðsvötn og hófu stórsókn, sundurspiluðu vörn FH sem lauk með því að Kristinn Steindórsson skoraði laglega framhjá Gunnari Nielsen í markinu. 1-0 og almenn gleði í stúkunni.
Kristinn Steindórsson skoraði laglega framhjá Gunnari Nielsen
Þögn slær á stúkuna
Rétt eins og Sunnanmenn forðum létu Blikar kné fylgja kviði. Fjórum mínútum eftir fyrsta markið átti Davíð Ingvarsson stórkostlega sendingu kanta á milli, þar var Jason Daði einn á móti varnarmanni FH, sem var líklega enn að velta fyrir sér Örlygsstaðabardaga og því sem þar fór úrskeiðis, því að okkar maður fíflaði hann með einni snertingu, hljóp með boltann inn í teig og skoraði af öryggi.
Á næstu mínútum gerðist fátt, nema hvað Gunnar Nielsen reyndi að öskra sína menn í gang, rétt í þann mund er Jasoni Daða tókst nánast að spóla sig í gegnum vörn FH.
Jason Daði skoraði af öryggi
Skömmu síðar sló þögn á stúkuna. Jason Daði, sem hafði verið afar öflugur, lagðist niður án þess að nokkuð virtist hafa gerst. Hann var síðan fluttur á brott í sjúkrabíl. Óhætt er að segja viðstöddum hafi verið brugðið en af látbragði leikmanna mátti ráða að ekki væri um alvarleg veikindi að ræða. Aftur hófst leikurinn en þá varð FH að skipta út leikmanni vegna meiðsla svo að uppbótartíminn varð nokkur.
Þegar klukkan sýndi sléttar 45 mínútur skoraði Árni Vil. en markið var dæmt af vegna rangstöðu. FH-ingar reyndu að bíta frá sér en Damir bjargaði í horn og Anton varði síðan glæsilega. En í lok uppbótartíma má segja að Hafnfirðingar hafi fengið náðarhöggið – Viktor Karl skoraði eftir glæsilega sókn.
Í hálfleik veltu menn vöngum yfir dapurri frammistöðu gestanna en jafnframt ríkti almenn ánægja með leik okkar manna.
Viktor Karl skoraði eftir glæsilega sókn.
Þrjátíu mínútna formsatriði
Síðari hálfleikur fór rólega af stað en á 51. mínútu var mikið fagnað í stúkunni þegar fréttir bárust af því að Jasoni Daða heilsaðist betur og hann bæði fyrir baráttukveðjur. Fimm mínútum síðar geystist Davíð upp vinstri kantinn, þrumaði boltanum fyrir en Árni rétt missti af honum. Blikar fengu samt horn og upp úr því var Viktor Örn rifinn niður í teignum. Dómarinn dæmdi víti sem Árni skoraði úr af miklu öryggi.
Eftir þetta má segja að það hafi verið formsatriði að ljúka leiknum. Blikar réðu lögum og lofum á vellinum og þótt FH-ingar fengju stundum horn, jafnvel aukaspyrnur, ættu skot og skalla af og til, þá ógnuðu þeir í raun ekki marki okkar manna. Og þá sjaldan að vottur af hættu skapaðist var Anton Ari vandanum vaxinn.
Það sem helst bar til tíðinda var að FH-ingum tókst að fá tvö gul spjöld í sömu sókn Blika (dómarinn lét leikinn halda áfram svo að þeir högnuðust ekki á fyrra brotinu) og hlýtur þessi tækni að vera eitthvað sem Logi lærði þegar hann var aðstoðarþjálfari í liði verkamanna í Gúttóslagnum 1932.
Jú, eitt enn – Árni Vil. sendi boltann yfir af markteig á 86. mínútu fyrir opnu marki. Blikar voru því mun nær því að bæta við fimmta markinu en Hafnfirðingar að minnka muninn.
Dómarinn dæmdi víti sem Árni skoraði úr af miklu öryggi.
Meiri tölfræði
Það má eiginlega segja að lærisveinar reynsluboltans Loga hafi fallið á Örlygsstaðastrategíu hans og að eftir 18 mínútna leik hafi aldrei verið spurning um hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi. Þeir virtust bíða þess að andstæðingurinn birtist í trausti þess að geta sótt fram á móti með hraði en það var afar lítið að gerast hjá þeim. Stjörnuframherjinn Steven Lennon sást til dæmis ekki í leiknum. Okkar menn fóru illa með gestina á löngum köflum, spiluðu listavel og höfðu í raun algjöra yfirburði á öllum sviðum.
Gengi okkar manna hefur verið brösótt í upphafi móts en ef liðið spilar eins og á móti FH er ekkert að óttast. Næsti leikur í deildinni er á móti HK í Kórnum en nágrannar okkar í efri byggðum eru sannarlega sýnd veiði en ekki gefin, eins og dæmin sanna. Fyrst eru það þó Keflvíkingar í bikarnum suður með sjó þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina.
En aftur að tölfræði. Við feðgar höfum mætt saman á þrjá leiki í sumar. Blikar hafa unnið þá alla 4-0.
Ég skil það eftir hér.
PMÓ