Olgeir mættur aftur í Kópavoginn!
02.03.2017Leikjahæsti leikmaður Blika frá upphafi Olgeir Sigurgeirsson er mættur aftur í Kópavoginn! Ekki þó sem leikmaður í þetta sinn heldur sem þjálfari. Búið er að ráða Olgeir sem þjálfara hjá 2. flokki karla við hlið núverandi þjálfara flokksins þeirra Páls Einarssonar og Jorge Polanco Blanco. Einnig mun Olgeir ásamt öðrum ágætum Blika, Guðjóni Gunnarssyni, þjálfa Augnablik í 4. deildinni.
Olgeir kom til okkar frá Vestmannaeyjum árið 2003. Hann varð strax lykilmaður í Blikaliðinu og spilaði síðan 321 leik með meistaraflokki og skoraði í þeim leikjum 39 mörk. Hann varð Bikarmeistari með okkur árið 2009 og Íslandsmeistari 2010. Olgeir hætti að leika með okkur árið 2015 og tók eitt tímabil með Völsungum í 2. deildinni.
En nú er hann sem sagt kominn í Kópavoginn aftur og fögnum við Blikar því.
-AP