BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Oliver kominn heim!

14.01.2020
Þau ánægjulega tíðindi voru að berast að miðjumaðurinn snjalli, Oliver Sigurjónsson, er kominn heim aftur eftir 2 ára dvöl í Noregi.
 
Hann var að skrifa undir 3 ára samning við Breiðablik. Þetta eru frábærar fréttir enda Oliver gríðarlega öflug viðbót við Blikahópinn.

"Það er fagnaðarefni fyrir Blika að fá Óliver aftur til baka enda frábær fótboltamaður og mikill karakter. Það er ljóst að hann styrkir lið okkar mikið." segir Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari.

Oliver, sem er 24 ára gamall, á að baki 93 leiki með meistaraflokki Breiðabliks og hefur skorað 8 mörk. Hann á að baki tvo A landsleiki og hvorki fleiri né færri en 50 leiki með yngri landsliðum Íslands. Það er eru sjálfsagt fáir eða engir leikmenn í Pepsí-deildinni sem hafa leikið jafn marga yngri landsleiki.
 
Oliver lék um tíma með AGF í Danmörku og svo Bodö/Glimt í Noregi.

Þess má geta að Oliver og unnusta hans, Hall Björg Ólafsdóttir, voru að eignast sitt fyrsta barn þannig að það er mikið um að vera hjá þessum flotta knattspyrnumanni.

Velkominn heim Oliver.

 

Til baka