BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - HK

22.09.2021 image

Þá er komið að lokaleik Blika í Pepsi Max deild karla 2021. Andstæðingarnir eru nágrannar okkar úr efri byggðum HK-ingar. Mikið er í húfi fyrir bæði lið og gæti leikurinn ráðið úrslitum á toppi og botni deildarinnar.

Leikur okkar manna gegn HK verður flautaður á kl.14:00 á laugardaginn. Stöð 2 Sport sýnir beint frá leiknum fyrir þá sem ekki geta mætt á Kópavogsvöll.

Eftir súran sunnudag í Kaplakrika um síðustu helgi er lítil von til þess okkar menn hampi þeim stóra í lok leiks á laugardaginn. En handritshöfundur Pepsi Max 2021 er algjörlega ótútreiknanlegur. Það getur sem sagt allt gerst í lokaumferðinni.

Árangur okkar manna til þessa

Annað sætið í Pepsi Max er tryggt, sama hver úrslit verða í lokaumferðinni. Breiðablik mun því taka þá í Sambandsdeild UEFA á næsta ári - sem verður fjórða árið í röð sem okkar menn taka þátt í Evrópukeppni og í áttunda sinn á síðustu 12 árum. Vel gert!

Markaskorun liðsins er mest allra liða í Pepsi Max 2021 eða 52 mörk. Fyrra markamet liðsins var 47 mörk (2010). Þessi 52 mörk sem komin eru setja liðið í 4.sæti yfir flest skoruð mörk í efstu frá 2008 (12 liða deild). Keflvíkingar eru í 3.sæti með 54 mörk (2008). FH-ingar eru í 2.sæti með 57 mörk (2009) og KR-ingar eiga metið með 58 mörk (2009).

Liðið hefur skorað 98 mörk í 37 mótsleikjum  á árinu 2021. Fyrra met var 92 mörk í í 46 leikjum árið 2013. Mörkin 2021 skiptast svona milli móta: Fótbolti.net: 17 mörk. Lengjubikarinn: 18 mörk. Evrópukeppni: 11 mörk. Pepsi Max: 52 mörk. Samtals 98 mörk og einn leikur eftir. 

Blikaliðið er einum sigri frá því að slá stigamet liðsins frá 2015 - 46 stig. Liðið nær 47 stigum með sigri á HK í lokaumferðinni. 

Heimavöllurinn er okkar vígi

Kópavogsvöllur hefur aldrei áður gefið eins mörg stig og sigra og í sumar. Sigurleikirnir eru orðnir 17 af 18 mögulegum mótsleikjum keppnistímabilið 2021. Aðeins einn heimaleikur á Kópavogsvelli hefur tapast þegar einn leikur er eftir.

Stöðutaflan

Svona er stöðutaflan fyrir lokaumferðina. Blikaliðið í 2. sæti með 44 sitg og tryggt Evrópusæti 2022. HK-ingar eru í 10 sæti með 20 stig og þurfa að treysta á sigur Keflvíkinga á ÍA og/eða ná jafntefli eða betra gegn Blikaum, til að halda sæti sínu í deildinni. 

image

Sagan

Breiðablik og HK eiga að baki 30 mótsleiki auk góðgerðarleikja enda hefur samstarf Kópavogsfélaganna verið mjög gott. Yfirlit mótsleikja hér>

Leikurinn á laugardaginn verður því 31. mótsleikur liðanna frá upphafi og 9. leikur liðanna í efstu deild. (heimaleikur okkar í fyrra var feldur niður vegna Covid-19).

Staðan í þessum 9 leikjum gæti ekki verið jafnari. Bæði lið með 3 sigra og jafnteflin eru 3. Blikar hafa skorað 13 mörk gegn 11 mörkum HK meira>

Leikir í efstu gegn HK

Heimaleikurinn á Kópavogsvelli 2020 var felldur niður vegna Covid.

14.07 00:32
2008
Breiðablik
HK
2:1
1
A-deild | 11
Kópavogsvöllur | #

26.06 20:00
2007
Breiðablik
HK
3:0
1
3
A-deild | 8. umferð
Kópavogsvöllur | #

Leikmenn

Nokkir núverandi leikmanna Blika hafa leikið með báðum liðum. Fyrrum HK-ingur Damir Muminovic spilar nú með Breiðabliki eins og alkunna er. Viktor Örn Margeirsson lék sem lánsmaður hjá HK árið 2014. Fyrrum leikmaður Breiðabliks, Arnþór Ari Atlason, leikur nú með HK.

Leikmannahópur Breiðabliks

image

Kópacabana sveitin

Hrósa verður Kópacabanasveitinni sérstaklega fyrir frábæran stuðning - sérstaklega á undanförnum leikjum. Þeir hafa verið að mæta klukkutíma fyrir leik og syngja og tralla allan leikinn. 

Sjáumst á Kópavogsvelli í rosalegum Kópavogsslag næsta laugardag kl.14.00!

Blikar TV

Heisi Heison í síðasta Pepsi Max upphitunar myndband Blikar TV á árinu 2021:

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 22. umferðar er leikjahæsti leikmaður í sögu íslenskrar deildakeppni í fótbolta á Íslandi. Hann er 46 ára gamall. Blikinn hefur misst af aðeins einum deildarleik sem leikmaður Breiðabliks, á sjö keppnistímabilum. Hann hefur orðið Íslandsmeistari og bikarmeistari með KR og FH. SpáBlikinn lék 26 A-landsleiki fyrir Ísland. Blikinn er uppalinn hjá hinu Kópavogsliðinu, HK, en hefur einnig leikið með KVA, KR, Keflavík og FH á sínum ferli, auk þess að vera um skamman tíma hjá liði Vaduz í Liechtenstein, sem lék í svissnesku úrvalsdeildinni. Hann er hamimgjuamlega giftur 4 barna faðir og starfar nú sem þjálfari og markmannsþjálfari hjá Breiðabliki.

Gunnleifur V. Gunnleifsson – Hvernig fer leikuinn?

Það er merkilegt að það þurfi sigur okkar á vinum okkar úr efri byggðum til þess að tryggja okkur þann stóra í ár. Þetta segi ég vegna þess að það er í spá spilunum á þessu heimili að leikur Víkinga og Leiknis endar 1-1 í Fossvoginum.

Tilfinningarússíbaninn heldur því áfram frá síðasta sunnudegi og þetta fallega ævintýrasumar endar með því að titillinn er grænn í ár. Þess má til gamans geta að mörkin okkar skora, Damir, Viktor (eftirnafnið er valkvætt) og Árni minn. 3-0 verða því lokatölur á Kópavogsvelli seinni part laugardags, en tvistið verður þannig að bæði Kópavogsliðin fagna einmitt þennan eftirmiðdag vegna þess að úrslitin í kringum HK verða þeim hagstæð og því eigum við von á að HK ingar heimsækji okkur íslandsmeistarana á Kópavogsvöll í Pepsimax deildinni 2022.

Góða skemmtun og áfram Breiðablik!

image

SpáBlikinn ásamt fjölskyldu í Fífunni ekki alls fyrir löngu: Gunnleifur, Hildur, Signý María, Ester Ósk, Gunnleifur Orri, og Arnar Bjarki.

Dagskrá

Breiðablik og HK mætast í síðustu umferð Pepsi deildarinnar.

Miðaverð er sem hér segir: Fullorðnir 2.000kr, Börn fædd 2006-2015 200kr, börn fædd 2016 og yngri frítt

Miðasala á Tix.is

Blikaklúbbsmeðlimir hafa forgang á miðum í A hólf fram á föstudag kl.10.00. Skráning fer fram HÉR. Blikaklúbbskírteini gilda á leikinn! Þið fáið því engan miða sendan á ykkur. 

Kaldur á karna og Blikaborgararnir verða á sínum stað í sjoppunni.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki komast á völlinn. 

Hvetjum strákana okkar í þessum síðasta leik Pepsi Max deildarinnar og þökkum þeim fyrir frábært tímabil

ATH. Að þennan sama dag fara fram kosningar í Smáranum. Við viljum því biðja áhorfendur að koma gangandi eða á hjóli á völlinn. Ef það gengur ekki, að leggja þá bílunum sínum á stæðum fyrir aftan Fífuna, sjá mynd.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

image

image

Til baka