BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2019: Breiðablik – ÍA á Kópavogsvelli á sunnudagskvöld kl.19:15

17.05.2019

Fimmta umferð Pepsi MAX-deildar karla fer fram á sunnudag og mánudag. Toppslagur umferðarinnar verður á sunnudagskvöld þegar Blikar fá lið Skagamanna í heimsókn í Kópavoginn. Leikurinn er jafnframt vígsluleikur nýs gervigrass á Kópavogsvelli.

Blikar eru með 10 stig í 2. sæti deildarinnar eftir 4 leiki. Skagamenn eru í 1. sæti, einnig með 10. stig, en hafa skorað einu marki meira en Blikar. Bæði lið hafa verið að spila góðan fótbolta og þessi staða er því fyllilega verðskulduð. Kópavogsvöllur skartar sínu fegursta enda nýbúið að leggja gervigras af fullkomnustu tegund á völlinn. Það er því mikil spenna fyrir þennan fyrsta ,,alvöru" heimaleik Blikanna á þessu keppnistímabili.

Leikurinn á sunnudaginn er fyrsti keppnisleikur á nýju yfirborði Kópavogsvallar. 

Leikir til þessa

Liðin mættust í síðasta æfinagleiknum fyrir móti en þá lutu Blikar í gras gegn ÍA 3:1 á Akranesi. Sigur Skagamann var sanngjarn en hugsanlega of stór miðað við gang leiksins. Skagamenn byrjuðu leikinn með miklum látum og pressuðu okkur hátt uppi á vellinum. Okkur gekk illa að spila boltanum úr vörninni enda voru aðstæður frekar erfiðar á Skipaskaganum, mikið rok og völlurinn þungur. Meira>

Blikar: Í fyrstu umferð vinna Blikar mjög sterkan 0:2 útisigur á Grindvíkingum með mörkum frá Aroni Bjarnasyni og Kolbeini Þórðarsyi. Í annarri umferð náðu Blikar að knýja fram 2:2 jafntefli gegn HK-ingum í Kórnum með mörkum frá Thomas Mikkelsen og Viktori Erni Margeirssyni. Í þriðju umferð spiluðu Blikar sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu – reyndar á Fylkisvelli í Árbænum - því nýtt yfirlag á Kópavogsvöll var ekki tilbúið. Andstæðingurinn, funheitir Víkingar sem voru þó ekki búnir að vinna leik á tímabilinu en spilamennska þeirra hafði verið með ágætum. Blikar voru staðráðnir í að sýna betri leik en gegn HK og gerðu það líka með glæsibrag. Voru tilbúnir frá fyrstu mínútu og unnu sanngjarnan 3:1 sigur með mörkum frá Kolbeini Þórðarsyni (2) og Höskuldi Gunnlaugssyni. Blikar fara norður á Akureyri í fjórðu umferð og vinna KA-menn 0:1 í gríðarlega erfiðum leik. Markið skoraði Thomas Mikelsen úr vítaspyrnu strax á 3. mínútu. Leikir 2019>

ÍA: Í fyrstu umferð vinna Skagamenn öruggan 3:1 sigur á KA-mönnum. Í annarri umferð ná Skagamenn að knýja fram 2:2 jafntefli gegn Fylkismönnum í Árbænum með marki jöfnunarmarki á 93. mínútu. Stórleikur þriðju umferðar var leikur Íslandsmeistara Vals og ÍA. Skagamenn komu, sáu og sigruðu meistarana 1:2 eftir að hafa komist í 0:2. Í fjórðu umferð vinnur ÍA sannfærandi 2:0 sigur á FH-ingum á Akranesi.

Sagan

ÍA er það lið sem Breiðablik hefur mætt næst oftast í opinberri keppni frá upphafi. Mótsleikirnir eru orðnir 111 frá fyrsta leik liðanna í maí 1965. Skagamenn hafa sigrað 62 mótsleiki, Blikar 27 mótsleiki og 22 mótslekkir hafa endað með jafntefli. Meira> 

Á 30 ára tímabili, frá 1965 til 1995, vann ÍA nánast alla leiki liðanna. Meira>

Í 32 mótsleikjum liðanna frá árinu 2000 hafa Blikar unnið 14 leiki, jafnteflin eru 8, og töpin er 10. Meira>

Efsta deild

Leikir í efstu deild frá upphafi (1971) eru 54. Skagamenn leiða með 32 sigra gegn 14 sigrum Blika og 8 jafnteflum. Meira>

Vinningshlutfalið er jafnara eftir að Blikar tryggðu sér sæti í efstu deild árið 2006 - eftir mögur ár í næst efstu deild. Þá byrjar tölfræðin að falla með Blikum með 7 sigra, 4 jafntefli og 5 töp í 16 viðureignum árin 2006-2018. Skagamenn léku 1. deild 2009 og 2011, og aftur árin 2014 og 2018. Því eru efstu deildar leikirnir liðanna aðeins 16 á 13 ára tímabili frá 2006 til 2018. Meira>

111 Mótsleikir>:

Efsta deild – 54 leikir (14-8-32)
Næst-efsta deild – 2 leikir (0-0-2)
Bikarkeppni KSÍ – 9 leikir (2-7)
Deildarblikar KSÍ – 7 leikir (3-3-1)
Fótbolti.net – 4 leikir (3-1-0)
Litla bikarkeppnin – 35 leikir (5-10-20)

Kópavogsvöllur – síðustu 5 í efstu deild

Blikum hefur gengið ágætlega gegn ÍA á Kópavogsvelli frá 2006; 5 sigrar, 1 jafntefli og 2 töp í 8 leikjum. Meira>

2017: 2-0. Sígandi lukka>

2016: 0-1. Vesen!>

2015: 3-1. Stolt siglir fleygið mitt!>

2013: 4-1. Hundur dillar rófunni!>

2012: 0-1. Blikar betri en broddinn vantaði>

Leikmenn

Leikmannahópur Blika hefur breyst töluvert milli ára. Í desember var Ólafur Íshólm lánaður til Fram. Gísli Eyjólfsson var lánaður til Mjallby til loka árs 2019. Í janúar gerðu Breiðablik og HK samkomulagi um vistaskipti Arnþórs Ara Atlasonar til nágranna okkar. Aron Kári Aðalsteinsson mun einnig spila með HK í sumar sem lánsmaður en Aron ætlar í nám til Bandaríkjanna seinnipartinn í sumar. Í janúar var Andri Fannar Baldursson lánaður til Bologna. Í febrúar var Arnór Gauti Ragnarsson seldur til Fylkismana. Um miðjan febrúar skrifuðu svo tveir leikmenn undir samninga við erlend lið: Willum Þór Willumsson gerði samning hjá BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi og Davíð Kristján Ólafsson skrifaði undir samning við norska liðið Álasund.

Blikar fá til sín Viktor Karl Einarsson sem kemur heim frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur frá Fjölnismönnum. Kwame Quee lék síðast með Ólafsvíkur Víkingum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur til okkar frá KA en hann lék með Íslandsmeisturum Vals í fyrra. Einnig er Thomas Mikkelsen með frá fyrsta leik núna en hann kom til liðs við okkur í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson gerir tveggja ára samning við Breiðablik.

Tveir núverandi leikmenn Blika hafa spilað með báðum liðum. Þegar Viktor Örn Margeirsson lék sem lánsmaður hjá ÍA 2017 var núverandi leikmaður Blika, Guðmundur Böðvar Guðjónsson, hjá Skagamönnum.

Leikmenn Breiðabliks 2019>

Dagskráin

Sjáumst öll á stórleiknum á Kópavogsvelli á sunnudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs í toppbaráttunni.

Búast má við fjölmenni á völlinn kvöld þannig að við hvetjum fólk til að mæta tímanlega.

Slepptu röðinni – sæktu Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi Max og Inkasso deildunum, ásamt því að fylgja sínu liði. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Það verður kaldur í nýju tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa.

Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Flautað verður til leiks kl.19:15!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Mörk og atvík úr 3:1 sigurleik á Kópavogsvelli 2015 þegar Jonathan Glenn skorðai þrennu

Til baka