BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deildin 2019: Breiðablik – FH á Kópavogsvelli á sunnudaginn kl.17:00!

31.05.2019

Sjöunda umferð Pepsi MAX deildar karla fer fram um helgina. Við Blikar fáum FH-inga í heimsókn á sunnudag kl.17:00 á nýjan Kópavogsvöll í stórleik umferðarinnar.

Það er mikið undir í þessum leik. Breiðablik er í 2. sæti í Pepsi MAX deildinni með 13 stig af 18 mögulegum. Góðir sigrar gegn Grindavík og Víkingi. Lafði lukka var með okkur í jafnteflisleiknum gegn HK í Kórnum og gegn KA á Akureyri, en lukkan snéri við okkur baki í leiknum gegn ÍA á Kópavogsvelli. Í síðasta deildarleik vinnum við svo sanngjarnan 0:1 sigur á Íslandsmeisturum Vals á þeirra heimavelli.  

Fimleikafélagið er 4. sæti í Pepsi MAX deildinni með 11 stig af 18 mögulegum. Þrír sigrar á heimavelli gegn HK, KA, Val. Jafntefli gegn Reykjavíkur Víkingum og Fylkismönnum og tap gegn ÍA gefa þessi 11 stig.

Ljóst er að framundan er leikur þar sem mikið er undir og bæði liðin munu láta sverfa til stáls.

Það er rík ástæða fyrir okkur Blika að fjölmenna á Kópavogsvöll og hvetja okkar menn til sigurs gegn vinum okkar frá Hafnarfirði. Við unnum báða deildarleikina við þá í fyrra og Blikaliðið er á fínu róli eftir tvo sigurleiki í röð.

Sagan

Breiðablik og FH eiga að baki 108 mótsleiki frá upphafi. Í öllum 108 skráðum leikjum liðanna frá 1964 til 2018 sigra Blikar 37 leiki, jafnteflin eru 21 og FH sigrar 50 viðureignir.

Fyrsti mótsleikurleikur liðanna var í A-riðli í 2. deildar laugardaginn 13. júní 1964. Leikurinn var jafnframt vígsluleikur Vallargerðisvallar og bæjarstjórinn Hjálmar Ólafsson tók upphafsspyrnu leiksins í tilefni dagsins. Dómari leiksins var Magnús Pétursson. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Jón Ingi Ragnarsson skoraði mark Blika eftir flotta stoðsendingu Daða E. Jónssonar. Jón Ingi var svo aftur á ferðinni í fyrsta sigri Breiðabliks á FH í síðari deildarleik liðanna sem fram fór á Hvaleyrarholtsvelli 23. júlí 1964. Blikar vinna leikinn 2-3 með tveimur mörkum Jóns Inga Ragnarssonar og einu marki Grétars Kristjánssonar. Þriðji mótsleikur liðanna var einnig árið 1964. Sá leikur var í 2. umf Bikarkeppni KSÍ og fór fram fram á Hvaleyrarholtsvelli í Hafnarfirði. Leiknum lauk með 2-3 sigri Blika. Mörk Blika í þeim leik skoruðu Jón Ingi Ragnarsson, Júlíus Júlíusson og Sigmundur Eiríksson. Nánar um leiki liðanna árið 1964.

Það var mikið skorað í leikjum liðanna fyrstu 2 árin eða 27 mörk í 5 leikjum sem gaf tóninn fyrir framhaldið. Liðin hafa skorað að jafnaði 3+ mörk í yfir helming innbyrgðis mótsleikjum liðanna frá upphafi.

Frá 1964 til ársins 2000 höfðu Blikar gott tak á FH. Í 60 mótsleikjum 1964-2000 sigra Blikar í 28 leikjum, jafnteflin eru 12 og FH hefur vinninginn í 20 viðureignum.

10-11 í efstu deild & markasúpur

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 48. Jafnt er á öllum tölum. Bæði liða hafa unnið í 19 skipi  og 10 sinnum skilja liðin jöfn. Blikar hafa skorað 71 mark gegn 70 mörkum Fimleikafélagsins.

Í 24 innbyrðis efstu deildar leikjum liðanna á Kópavogsvelli hafa blikar unnið 10 sinnum, FH-ingar 11 sinnum og þrisvar sinnum hefur orðið jafntefli. Meira>

Leikir liðanna á Kópavogsvelli eru gjarnan miklir markaleikir og hin besta skemmtun í orðsins fyllstu merkingu. Úrslit eins og 4:1, 4:3, 2:3, voru algeng úrslit í innbyrðis viðureignum liðanna á Kópavogsvelli á árunum 2007 til 2010, en frá 2010 hefur verið minna skorað nema 2014 þegar FH-ingar vinna í 6 marka leik og 2018 þegar Blikar skella FH 4:1.

2018: Blikar vinna sætan 4:1 sigur í fjörugum leik. Thomas Mikkelsen skoraði fyrsta markið á 32’. FH jafnar á 53’. Davíð Kristján skorar á 76’ og Gísli Eyjólfs tveimur mínútum seinna. Staðan orðin 3:1. Arnór Gauti innsiglar sigurinn með marki á 86’. Nánar um leikinn.

Sjón er sögu ríkari….

2015: Blikar vinna 2:1 sigur eftir að FH komst í 0:1. Sigur FH í leiknum hefði tryggt þeim Íslandsmeistaratitilinn í 20. umferð með tilheyrandi fagnaðarlátum á Kópavogsvelli. Slíkt var ekki í boði á okkar heimavelli enda skoruðu Jonathan Glenn og Damir Muminovic sitt hvort markið eftir stoðsendingu frá Atla Sigurjónssyni. Nánar um leikinn.

2010: Blikar vinna  FH 2:0. Kristinn Steindórsson skoraði bæði mörk Blika. Einhverjir sjónvarpslýsendur töluðu um „stoðsendingu ársins“ þegar Alfreð Finnbogason sendi boltann á Kristinn Steindórsson í fyrra markinu. Nánar um leikinn og myndband.

2008: Blikar vinna FH með 4 mörkum gegn 1 í gríðarlega skemmtilegum leik þar sem Prince Rajcomar skoraði tvö mörk áður en Tryggvi Guðmundsson skorar úr víti. Nenad Petrovic skoraði svo gott mark. Arnar Grétarsson innsiglaði svo 4:1 sigur með marki úr vítaspyrnu á 82’. Það er ekki hægt annað en að minnast á atriði sem átti sér stað milli Casper Jacobsen og Tryggva Guðmundssonar eftir að sá síðarnefndi skoraði úr vítaspyrnunni á 50’ mínútu. Nánar um atvikið og leikinn.

2007: Blikar vinna 4:3 í rosalegum leik þar sem Blikar komast í 4:1 stöðu með mörkum frá Nenad Zivanovic, Prince Rajcomar og 2 mörkum frá Magnúsi Páli Gunnarssyni. En FH-ingar settu mikla spennu í leikinn með mörkum á 71’ og 77’ mín og voru næstum búnir að jafna leikinn. Nánar um leikinn.

Leikmenn & þjálfari

Nokkrir núverandi leikmenn FH eiga rætur sínar að rekja á Kópavogsvöll. Vignir Jóhannesson, Guðmann Þórisson, Guðmundur Kristjánsson og Kristinn Steindórsson eru með samtals 372 mótsleiki og 75 mörk í grænu treyjunni.

Fyrirliðinn okkar Gunnleifur Gunnleifsson lék 75 leiki með Fimleikafélaginu 2010-2012 og Jonathan Hendrickx lék 79 leiki með FH  2014-2017.

Ólafur Íshólm lánaður til Fram í desember 2018. Gísli Eyjólfsson var lánaður til Mjallby til loka árs 2019. Í janúar gerðu Breiðablik og HK samkomulag um vistaskipti Arnþórs Ara Atlasonar til nágranna okkar í HK. Aron Kári Aðalsteinsson mun einnig spila með HK í sumar sem lánsmaður en Aron ætlar í nám til Bandaríkjanna seinnipartinn í sumar. Í janúar var Andri Fannar Baldursson lánaður til Bologna. Í febrúar var Arnór Gauti Ragnarsson seldur til Fylkismana. Um miðjan febrúar skrifuðu svo tveir leikmenn undir samninga við erlend lið: Willum Þór Willumsson gerði samning hjá BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi og Davíð Kristján Ólafsson skrifaði undir samning við norska liðið Álasund.

Við Blikar fáum til okkar Viktor Karl Einarsson sem kemur heim frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur frá Fjölnismönnum. Kwame Quee lék síðast með Ólafsvíkur Víkingum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur til okkar frá KA en hann lék áður með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með frá fyrsta mótsleik í ár en hann kom til liðs við okkur í júlí-glugganum 2018. Svo rétt fyrir mót ganga þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson, sem kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals, gerir tveggja ára samning við Breiðablik.

Leikmannahópur Breiðabliks 2019

Þjálfari FH

Ólafur Kristjánsson þjálfari FH er okkur Blikum að góðu kunnur. Hann tók við þjálfun Blikaliðsins um mitt sumar árið 2006 og stýrði því fram í mitt ár 2014 – alls 286 mótsleikir. Undir stjórn Ólafs náðum við að festa okkur í sessi sem gott efstudeildarfélag. Hápunkti náðum við með bikarmeistaratitli árið 2009 og Íslandsmeistaratitli árið 2010.  Einnig náði Blikaliðið fínum árangri í Evrópukeppni meðal annars með frægum sigri á Sturm Graz frá Austurríki árið 2013. Árið 2014 ákvað Ólafur að freista gæfunnar erlendis og tók við þjálfun Norsjælland í Danmörku. Í fyrra vor koma hann síðan heim aftur og tók við uppeldisfélagi sínu FH.

Við hlökkum til að bjóða Ólaf H. Kristjánsson í heimsókn á gamla heimavöllinn og lofum því að sýna honum enga gestrisni!

Dagskrá

Búast má við fjölmenni á völlinn þannig að við hvetjum fólk til að mæta tímanlega.

Slepptu röðinni – sæktu Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi Max og Inkasso deildunum, ásamt því að fylgja sínu liði. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Það verður kaldur í nýju tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Sjáumst öll á Kópavogvelli á sunnudaginn og hvetjum okkar menn til sigurs.

Leikurinn verður flautaður á kl.17:00! Veðurspáin fyrir Kópavogsvöll er góð.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka