BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deildin 2019: Breiðablik – HK á Kópavogsvelli sunnudag kl.19:15!

07.07.2019

Þriðji í Kópavogsslagnum mikla 2019 er á sunnudaginn þegar við tökum á móti frændum okkar úr efri byggðum Kópavogs í 12. umferð Pepsi MAX deildar karla. Þetta verður ,,derby“ slagur af bestu gerð eins og alltaf þegar þessi lið mætast. Það má búast við hörkuleik.

Fyrir rúmum mánuði, nánar tiltekið 30. maí, mættust liðin á Kópavogsvelli í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Leikar fóru þannig að Blikar unnu nokkuð sannfærandi 3:1 sigur.

Í byrjun maí mættust liðin í Kórnum í 2:2 jafnteflisleik í Pepsi MAX deild karla. Þetta var kaflaskiptur leikur sem framkallaði verki hjá PMO, pistlahöfundi blikar.is, sem lesa má um hér: Kórverkir frá Melaheiði

Staða liðanna í Pepsi MAX deildinni fyrir leikinn er sú að Blikar eru í næst efsta sæti töflunnar en HK í því næst neðsta. Blikar þurfa að taka öll 3 stigin á sunnudaginn annars er hætta á því að KR auki forskot sitt á toppnum úr 4 stigum í allt að 7 stig. HK á möguleka á að lyfta sér úr fallsæti með sigri á okkar mönnum.

Sagan

Breiðablik og HK eiga að baki 24 mótsleikii auk góðgerðaleikja enda gott samstarf milli Kópavogsfélaganna. Yfirlit allra mótsleikja hér

Mótsleikrnir liðanna raðað eftir keppnum:

Efsta deild - 5 leikir (2-2-1)

Næstefsta deild - 8 leikir (4-2-2)

Bikarkeppni KSÍ - 5 leikir (5-0-0)

Deildarbikar KSÍ - 5 leikir (4-1-0)

Fótbolti.net - 3 leikir (1-1-1)

Leikurinn á sunnudaginn verður 27. mótsleikur liðanna frá upphafi og 4. mótsleikur liðanna á þessu ári. Nánar>

Efsta deild

Fyrri viðureignir liðanna í efstu deild eru 5 - allir á Kópavogsvelli nema leikurinn í sumar sem var á heimavelli HK í Kórnum. Þegar HK lék í efstu deild 2007 og 2008 var Kópavogsvöllur þeirra heimavöllur.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild frá upphafi:

04.05.2019: 2:2 Kórinn. Heimaleikur HK í 2. umferð. Mörk HK skora Ásgeir Marteinsson 46´og Björn Berg Bryde á 50´. Thomas Mikkelsen kom boltanum í netið hjá HK á 89´ og Viktor Örn Margeirsson tryggði Blikum jafntefli með marki á 94´.

27.9.2008: 2:1 Kópavogsvöllur. Heimaleikur HK í lokaumferðinni. Mörk HK skora Hörður Már Magnússon á 5´og Aaron Palomares á 15´. Marel Jóhann Baldvinsson klóraði í bakkan fyrir Blika með marki á 85´.

14.7.2008: 2:1 Kópavogsvöllur. Heimaleikur Blika í 11. umferð. Mörk Blika skoruðu Marel Jóhann Baldvinsson á 11´og Nenad Zivanovic á 32´. Hörður Már Magnússon skoraði mark HK á 75’.

23.9.2007: 1:1 Kópavogsvöllur. Heimaleikur HK í 17. umferð. HKingar skorðuðu bæði mörkin því HK maðurinn Ásgrímur Albertsson varð fyrir því “óláni” að skora sjálfsmark á 42´mín. Það var svo Þórður Birgisson sem jafnaði leikinn með marki á 83´.

26.6.2007: 3:0 Kópavogsvöllur. Heimaleikur Blika í 8. umferð. Mörk Blika: Kristján Óli Sigurðasson 3´, Prince Linval Reuben Mathilda 60’ og Olgeir Sigurgeirsson á 89´. Leikurinn var fyrsti leikur liðanna í efstu deild.

Mörkin og stemmningin á Kópavogsvelli gegn HK í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

Leikmenn

Nokkir núverandi leikmanna Blika hafa leikið með báðum liðum. Fyrrum HK-ingar Gunnleifur Gunnleifsson og Damir Muminovic spila nú með Breiðabliki eins og alkunna er. Einnig lék Viktor Örn Margeirsson með HK sem lánsmaður árið 2014.

Með HK leikur nú fyrrum leikmaður Breiðabliks Arnþór Ari Atlason og Aron Kári Aðalsteinsson er þar lánsmaður frá Breiðabliki.

Leikmannahópur Blika er nokkuð breyttur frá síðasta tímabili. Viktor Karl Einarsson kemur frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur til okkar frá Fjölni. Kwame Quee kemur frá Víkingum í Ólafsvík en er svo lánaður til Reykjavíkur Víkinga í júlíglugganum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur frá KA. GPL10 lék í fyrra með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með Blikum frá fyrsta mótsleik í ár. Thomas kom til okkar í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals og gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Að lokum er svo Gísli Eyjólfsson kominn til baka eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska 1.deildarliðinu Mjallby og er nú kominn með leikheimild.

Leikmannahópur Breiðabliks.

 

Dagskrá

Frá kl. 17:30 mun Vörður tryggingar, aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildar, bjóða til veislu fyrir leikinn. Boðið verður upp á grillaðar pylsur, gos og blöðrur. Einnig verður á svæðinu bæði hoppukastali og ,,Bubble Ball“ leikvöllur og Varðar markið verður á sínum stað

Evrópubúningur Breiðabliks 2019 verður frumsýndur á leiknum. Hægt er að tryggja sér eintak í forsölu. Meira> Takmarkað magn búninga í boði.

Það verður kaldur í nýju tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Slepptu röðinni – sæktu Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi Max. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Mætum snemma, fáum okkur pylsur og gos í boði Varðar og styðjum Blikaliðið til sigurs!

Leikur Breiðabliks og HK verður flautaður á kl.19:15!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka