BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pressa!

19.07.2020 image

Það mætti segja að pressan hafi verið áþreifanleg í kvöld í Kópavoginum, Valur að koma í heimsókn og mikið undir hjá báðum liðum. Breiðablik komið niður í 4 sætið og Valur í 5 sæti fyrir leikinn, allt til alls á Kópavogsvelli, veðrið, áhorfendur í stuði en spurningin var samt hvernig myndi Blikaliðið mæta til leiks?

Óskar Hrafn þjálfari gerði 2 breytingar á liði Breiðabliks eftir tapið á móti KR, Viktor Karl var í banni og Davíð Ingvars fór á bekkinn. Inn í byrjunarliðið komu Kristinn Steindórsson og Kwame Quee.

image

Á fyrstu mínútum leiksins pressuðu Valsarar hátt á vellinum og komu sér nokkru sinnum í góða stöðu sem þeir hefðu getað nýtt betur. Skák Heimis og Óskars var hafin. Blikar voru ískaldir á boltanum og héldu því plani að spila boltanum upp frá aftasta varnarmanni sem í tilfelli Breiðabliks er oftar en ekki markmaðurinn Anton Ari, undirritaður náði púlsinum vel upp nokkru sinnum þegar Blikar voru rólegur á boltanum en Valsarar pressuðu stíft.

Kaj Leo hefði átt að koma Val yfir eftir rúmar 5 mínútur þegar hann endaði einn með boltann í vítateig Blika, Anton Ari stóð sem fastast og náði að komast fyrir skotið. Staðan 0-0 og Valsarar byrja leikinn betur.

image

Blikar náðu að koma sér betur inn í leikinn eftir því sem leið á, nokkur föst leikatriði náðu ekki að skapa hættu. Eftir hálftíma þurftu Blikar að gera breytingu þegar að Elfar Freyr fór af velli og inn kom Róbert Orri í sínum 4 leik í sumar fyrir Breiðblik.

Blikar vildu nokkru sinnum fá víti eftir eina hornspyrnuna en fengu ekki og allt varð vitlaust í teignum. Valsarar voru þegar þetta gerðist farnir að safna gulum spjöldum og báðir miðverðir komnir með gult hjá þeim ásamt Pedersen, hjá Blikum voru Brynjólfur Andersen og Oliver komnir með gult. Markalaust í hálfleik en ágætis skemmtun fyrir þá fjölmörgu sem gerðu sér ferð í Kópvoginn í sólinni.

Seinni hálfleikur fór ekkert sérstaklega af stað hjá Blikum, Valsarar áttu skot en Anton varði. Kaj Leo hitti svo ekki boltann en hann barst á Kristinn Frey sem skallaði hann inn og staðan 0-1 fyrir Val. Blikar þurftu líka að gera beytingu í hálfleik, Andri Rafn Yeoman fór út af en inn kom Alexander Helgi sem kom sér strax vel inn í leikinn.

image

Blikar fóru strax fram, fengu hornspyrnu og Thomas var tekinn niður og víti var dæmt. Thomas fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 1-1. Eftir rúmlega klukkutíma leik fékk Pedersen frían skalla eftir hornspyrnu en Anton Ari náði að verja, Sigurður Egill kom svo inn hjá Völsurum fyrir Kaj Leo.

image

Blikar voru mikið með boltann og náðu næstum því að koma sér í hættulegar stöður en það vantaði upp á síðustu sendingarnar oft á tíðum.  Viktor Örn Margeirsson þurtfti að fara af velli þegar að um 20 mínútur voru eftir og inn kom Benedikt V. Warén í sínum fyrsta leik í efstu deild. Til hamingju með það Benedikt.

Á 80 mínútu fengu Valsmenn aukaspyrnu og vildu um leið fá annað gult spjald á Brynjólf og þar með rautt en ágætur dómari leiksins hlustaði ekki á það. Hinsvegar náði Einar Karl sem var nýkominn inn á að skora beint úr aukaspyrnunni og Valsarar komnir með forystu 1-2.

image

Kristinn Steindórsson og Brynjólfur Andersen voru bestu menn Blika í kvöld. Það má færa rök fyrir því að þau meiðsli sem komu upp hafi riðlað plani Blikaliðsins og að jafntefli hefði verið sanngjarnt þegar allt er talið til. Það breytir hinsvegar ekki þeirri stöðu sem nú er komin upp. Breiðablik situr í 5 sæti og er  búið að tapa síðustu 2 leikjum á móti KR og Val. Niðurstaðan 2 stig úr síðustu 4 leikjum og það er ekki ásættanlegt. Pressan er farin að aukast, næsti leikur er úti á móti HK og ljóst að hann má ekki tapast!

KIG

Myndaveisla Helga Viðars og viðtal við Alfreð Finnbogason í boði BlikarTV

image

Til baka