BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sannfærandi sigur í kaflaskiptum leik

14.04.2024 image

Það er alltaf fiðringur sem fer um okkur stuðningsmenn Breiðabliks þegar Íslandsmótið  í knattspyrnu – Besta deildin - fer af stað.  Það er kannski óvenju mikil eftirvænting þetta árið fyrir deildinni hér heima og aðsókn að leikjum hefur verið talsvert meiri en undanfarin ár.  Heimkoma Gylfa Þórs Sigurðssonar hefur sín áhrif (við fengum líka Ísak heim í vikunni) – en það er ekki bara það.   Svo virðist sem að umgjörð kringum leiki og fjölmiðlaumfjöllun ýmis konar sé að færast á annað og betra stig.   Það er gleðilegt – og á leik okkar gegn Vestra á laugardaginn voru áhorfendur um 1.300 og í gegn FH í fyrstu umferð voru áhorfendur meira en 1.800.  Þar áttum við Blikar óskabyrjun og unnum góðan sigur á FH 2-0 – sem reyndar við þurftum að hafa mikið fyrir.   Í þetta sinn féll allt okkar megin – og er það reyndar góðs viti.

Talandi um Íslandsmót þá er það skoðun tíðindamanns að það er alltaf mun skemmtilegri áferð á keppni í efstu deild þegar fulltrúar sem flestra landshluta eru meðal keppnisliða. Einn ágætur vinur minn af landsbyggðinni sagði á þá leið að „ Íslandsmótið í knattspyrnu á ekki að vera eingöngu fyrir lið í Reykjavíkurkjördæmum og Kraganum“.   Í fyrra féllu  ÍBV og Keflavík úr deildinni sem eru lið með mikla hefð og mörgum þykir miður og er því ekkert lið úr Suðurkjördæmi í keppni í efstu deild.  Í stað þeirra komu ÍA með alla sína sögu og síðan andstæðingar okkar í dag – Vestri frá Ísafirði og eru þau bæði úr Norðurlandskjördæmi vestra.

Sagan ekki með okkur í efstu deild gegn Ísfirðingum

Eins og er ágætlega rakið hér þá hafa Vestfirðingar hafa verið nokkuð duglegir að skipta um nöfn á prókúruhöfum knattspyrnunnar í landsfjórðungnum.  Knattspyrnuguggan hefur ekki alltaf verið gul fyrir vestan og nöfnin á liðunum frá Ísafirði verið fjölbreytt.   Lengst af léku Vestfirðingarnir undir hatti Íþróttabandalags Ísafjarðar (ÍBÍ) og það var einmitt fyrir rúmum 40 árum sem Breiðablik lék síðast gegn liði að vestan í keppni þeirra bestu.  1982 og 1983 lékum við Blikar 4 leiki og riðum ekki feitum hesti frá.  Töpuðum báðum leikjunum fyrra árið – en gerðum jafntefli í báðum leikjum það síðara.    Undirritaður spilaði alla þessa leiki og man eins og gerst hafi í gær.  Við enduðum fyrir ofan ÍBÍ bæði árin  í töflunni – og sigur í þessum leikjum hefði hugsanlega tryggt okkur sæti í Evrópukeppni bæði árin. Svo fór ekki – og við þurftum að bíða í 27 ár eftir þátttöku í Evrópukeppni, nokkuð sem þykir sjálfsagt að Breiðablik sé þátttakandi ár hvert.     En Ísfirðingarnir börðust eins og ljón og uppskáru eins og þeir sáðu í þessum leikjum – meðan við teknísku strákarnir af mölinni  (að eigin áliti) ætluðum að sigla þessu heim án nokkurrar fyrirhafnar.  Við gátum engum öðrum kennt um en okkur sjálfum  Þær systur vanmat og baráttuleysi eru ekki góður fylgifiskur þegar leikmenn hlaupa inn á völlinn til að leika knattspyrnu.     

Sagan gegn Vestfirðingum í keppn í efstu deild var því ekki með okkur og það fylgdu undirliggjandi áhyggjur tíðindamanns þegar Sigurður Hjörtur Þrastarson dómari flautaði til leiks klukkan 14 á laugardag að sagan myndi endurtaka sig.  Aðstæður til knattspyrnuiðkunar mjög fínar, hiti um 4 gráður, sól og smá andvari að norðvestan. 3 breytingar voru frá byrjunarliðinu í sigurleiknum gegn FH.  Andri Rafn Yeoman og Arnór Gauti Jónsson komu í stað þeirra  Alexanders Helga og Kristins Jónssonar sem voru meiddir.  Þá fékk Norðmaðurinn Benjamin Stokke tækifæri í bryjunarliðinu í stað Kristófers sem fór á bekkinn.

Eins og við var að búast héldu Blikarnir boltanum mest innan sinna raða – en hann gekk alls ekki mjög hratt á milli manna og Vestramenn náðu að loka fyrir uppbyggingu Blika þannig að færin voru ekki mörg sem sköpuðust.  Jason Daði (14 mínúta), Viktor Karl (20 mínúta) og Andri Rafn (23 mínúta) áttu allir tilraunir sem ekki rötuðu rétta leið.  Vestri sótti lítið en áttu samt eina marktilraun á 39 mínútu – sem reyndist þeirra eina alvöru tilraun í öllum leiknum.   Það voru helst Andri Yeoman og Kristinn Steindórsson sem reyndu að brjóta upp hraðann – margir aðrir af okkar frábæru leikmönnum voru alls ekki líkir sjálfum sér í fyrri hálfleik.   Staðan var því 0-0 í hálfleik.  

„Er þetta ekki að gerast alltof hægt?“

Í hálfleik voru menn talsvert hugsi þó kaffið hafi runnið ljúflega niður.  Sessunautur minn, Jóhannes Hilmarsson, yfirhúsvörður hjá Kópavogsbæ til áratuga sagði; „Er spilið ekki að gerast allt of hægt?“  Jói hitti þarna naglann á höfuðið – þetta var einmitt málið. Það er mikill munur á knattspyrnugetu hjá þessum 2 liðum – en það er ekki nóg eins og dæmin sanna.   Það er algert lykilatriði að láta boltann ganga hratt á milli í góðu spili til að nýta stöðuyfirburðina.  Það eru ekki mörg lið á Íslandi sem geta það betur en Breiðablik hér á landi á góðum degi.  Því var hinsvegar ekki alveg að heilsa á löngum köflum í fyrri hálfleik og því náðu Vestramenn að stilla sér upp í varnarstöðu og spara sér orkuna.   Albert Guðmundsson, fyrsti atvinnumaður Íslendinga, ráðherra  og goðsögn í íslenskri knattspyrnu orðaði þetta ágætlega;  „Góð knattspyrnulið hafa áttað sig á því að ef boltinn gengur hratt þá þreytist knötturinn miklu minna en leikmennirnir sem þurfa að elta hann“.   

 „Þjálfarinn lætur heyra vel í sér í klefanum í hálfleik ef ég þekki hann rétt“.  Sá sem þetta mælti í hálfleik var gamli KR ingurinn Árni Guðmundsson en hann er einmitt faðir Halldórs Árnasonar þjálfara.   Faðirinn reyndist sem betur fer sannspár.  Það var allt annað Breiðablikslið sem mætti inn á völlinn í seinni hálfleikinn þó mannabreytingar hafi engar verið strax í hléinu.  Boltinn fór að ganga mjög hratt á milli manna og Vestramenn tóku fljótt að þreytast.  Jason fékk gott færi strax á 50 mínútu og markið lá í loftinu.  Aron Bjarnason fékk boltann út á vinstri kanti, lék inn á miðsvæðið og átti frábæra sendingu á Jason. Hann dró að sér varnarmann, renndi honum út á Viktor Karl Einarsson sem afgreiddi hann í stöngina og inn.  Ísinn brotinn og gríðarlegur léttir fór um alla stúkuna.  Þarna fór maður að kannast við sína menn, áfram hélt sóknin og aftur var það Aron sem var stóri arkitektinn.  Hann lék inn í vítateig og Sergine Fall, leikmaður Vestra felldi hann og víti augljóst á 51 mínútu.    Höskuldur fyrirliði fór á punktinn og þá er ekki að sökum að spyrja. Staðan orðin 2-0 á 62 mínútu.  Það var í raun aðeins 1 lið á vellinum í síðari hálfleik – og Vestramenn fóru að brjóta illa á okkar mönnum – þannig mörgum þótti nóg um.  Alls fékk Vestri 6 gul spjöld og eitt beint rautt eftir ljótt brot á Jason Daða á 75 mínútu.  Þetta er tölfræði sem á ekki að sjást í knattspyrnu. 

Halldór þjálfari gerði 5 skiptingar í síðari hálfleik sem allar gerðu sig vel.  Viktor Örn fékk að hvíla sig á 65 mínútu og inn á kom Daninn Daniel Obbekjær. Kristófer Ingi kom inn á fyrir Benjamin Stokke á sama tíma og kom mjög vel inn í leikinn. Á 77 mínútu kom síðan skipting sem fékk alla stúkuna til að stíga á fætur og Ísak Snær Þorvaldsson, sá frábæri spilari sem kom óvænt að láni frá Rosenborg í Þrándheimi til okkar og var honum vel fagnað þegar hann leysti Aron Bjarnason af hólmi. Aron hafði átt  stóran þátt í báðum mörkunum sem þá voru komin.  Þá var tvöföld skipting gerð á 82 mínútu þegar bæði Dagur Örn Fjeldsted og Færeyingurinn Patrik Johannessen komu inn fyrir þá Jason Daða og Kristin Steindórsson.  Sömuleiðis ákaflega klókar skiptingar sem sýndi sig strax á  85 mínútu þegar við fengum aukaspyrnu vinstra megin.  Boltanum var rennt til hliðar á Patrik  sem átti bylmingsskot í stöng.  Þaðan barst boltinn út fyrir vítateig þar sem Dagur Örn tekur hann viðstöðulaust neðst í vinstra hornið. Stórglæsilega gert – við sjáum vonandi meira af slíku frá Degi – sem er mikið efni.  Hann er fæddur 2005 og var því enn á leikskóla þegar leikmenn eins og Andri Yeoman, Kristinn Steindórsson, Kristinn Jónsson og Arnór Aðalsteinsson urðu Íslands- og bikarmeistarar með Breiðabliki 2009 og 2010!   

2 mínútum fyrir leikslok fær Viktor Karl boltann út á vinstri væng frá Höskuldi.  Viktor á frábæra sendingu fyrir markið sem Kristófer skallar í markið með viðkomu í varnarmanni Vestra og innsiglar stórsigur Breiðabliks 4-0.   Frábær úrslit og það voru glaðir Blikar sem hylltu sína menn í lokin.    

Frábær sigur í leik sem var reyndar mjög kaflaskiptur;  alls ekki sannfærandi fyrri hálfleikur – en strákarnir sýndu sparihliðarnar í þeim síðar á eftirminnilegan hátt.  Það er gaman að sjá breiddina í hópnum – og það sést langar leiðir að andinn í hópnum er frábær.  Maður leiksins var valinn Andri Rafn Yeoman – og get ég tekið undir það val.  Umhverfisverkfræðingurinn var frábær bæði í vörn og í að byggja upp sóknir. Það eru mikil forréttindi að hafa notið hans allan þennan tíma.  

 

Næstu skref – Risaslagur í Víkinni!  

Með þessum glæsilega sigri tyllti Breiðablik sér á toppinn í Bestu deildinni. Allavega tímabundið því bæði Víkingur og Valur eiga leik inni.  Næsta verkefni er sennilega eins gerólíkt sem hugsast getur miðað við leikinn við Vestra. Sunnudaginn 21 apríl sækjum við Íslands- og bikarmeistara Víkings heim í Fossvoginn.  Hvernig leggst sá leikur í mann?  Það er erfitt að segja til um það.  Ef við mætum í leikinn með sama hugarfarið og var í fyrri hálfleik gegn Vestra þá er engin sérstök ástæða til mikillar bjartsýni.  Ef hins vegar strákarnir mæta álíka stemmdir og þeir léku síðari hálfleikinn þá getum við unnið hvaða lið sem er á Íslandi.  Líka Víking á þeirra heimavelli.  En það þýðir líka að við stuðningsmenn þurfum að fjölmenna – og láta líka strákana finna fyrir meiri stuðningi en verið hefur í vor og hvetja þá áfram til sigurs.  6 stig í húsi eftir 2 umferðir, 6 mörk skoruð og enn hefur Anton Ari ekki þurft að hirða boltann úr markinu – sem er frábært.  Framundan er frábært fótboltasumar ef svo heldur áfram sem horfir.  Sjáumst í Víkinni á sunnudaginn.  

Áfram Breiðablik – alltaf alls staðar

Hákon Gunnarsson. 

Til baka