BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Skyggnst undir yfirborðið

18.05.2023 image

Hvenær ertu á heimavelli og hvenær úti? Hvenær ertu á nýjum heimavelli og hvenær á þeim gamla?

Þessar hyldjúpu (en um leið yfirborðskenndu) spurningar sóttu að mér ekki bara eftir sigurinn í níu-marka-heima-leiknum á móti Fram uppi í Árbæ heldur líka vegna þess að nú 21. dag maímánaðar taka strákarnir í meistaraflokknum á móti KA á nýju yfirborði Kópavogsvallar. Mikið vatn og fleira flott hefur runnið til sjávar um Kópavogslækinn frá því sneitt var að Stjörnumönnum seint og snemma fyrir að spila mótsleiki á „teppi“ eða „plasti.“ Nú, með lengra keppnistímabili sem dekkar nánast allt sumarfrí fólksins sem situr á Alþingi, virðist sífellt nauðsynlegra að efstudeildarfélög búi að gervigrasi og Evrópukeppnisfélög að framúrskarandi slíkum velli (jafnvel með nægri lýsingu 😊 Ef við lítum á nýtt yfirborð Kópavogsvallar sem „nýjan“ heimavöll, er ekki úr vegi að skyggnast undir gamla yfirborðið og rifja upp hvað fór eiginlega fram á því.

Fall er fararheill

Gamli dúkurinn, sem nú er búið að safna saman sunnan Fífu, var ekki nema 4ra ára gamall þegar búið var að ofgera honum svo að hann naut ekki lengur viðurkenningar fyrir betrikvennakeppnir. Fyrsti leikur meistaraflokks karla á honum var 19. maí 2019 gegn gaurunum handan Flóans og Skagamenn unnu hann 0-1. Síðasti leikur strákanna á þessu yfirborðskennda gerfigrasi tapaðist líka. Það var opnunarleikur Íslandsmótsins á móti HK, 10. apríl í vor. Á milli þessara falla gerðust þó ævintýri af dýrari gerðinni. Hafi tapið gegn ÍA ráðið þeim heillum, má líka vona að HK-leikurinn sé heillamerki fyrir nýja yfirborðið.

Ísinn brotinn

Fyrst ber þess að geta að á gamla yfirborðinu voru spilaðir einu leikir í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu sem leiknir hafa verið hér á landi. Breiðablikskonur léku fyrst á gervigrasinu gamla 28. maí 2019 og unnu KR 4-2. Alls spiluðu stelpurnar 55 mótsleiki á þessu yfirborði vallarins og unnu 40 þeirra. Tveimur lauk með jafntefli og 13 töpuðust. Í leikjunum skoraði Breiðablik 173 mörk en fékk 53 á sig.

image

Stelpurnar hömpuðu Íslandsmeistaratitli á Kóvideinangruðum vellinum haustið 2020 og spiluðu sig svo inn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu haustið 2021. Það voru eftirminnilegir leikir þegar Paris Saint Germain, Real Madrid og Kharkiv sóttu okkur heim en það voru fyrstu leikir íslensks félagsliðs í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Þótt ekki næðist stig í riðlinum, þá var þarna brotinn tiltekinn ís, og það á náttúrulega ekki síst við um desemberheimaleikinn á móti Real Madrid þegar þurfti að kalla til snjóruðningstæki í hálfleik.

Fyrr um haustið hömpuðu Breiðablikskonur Bikarmeistaratitli. Það var vitaskuld á Laugardalsvelli en þá höfðu þær rakið sig að úrslitaleiknum með sigrum á Tindastóli, Aftureldingu og svo á erkikeppinautunum í Val í undanúrslitum á Kópavogsvelli.

image

2021 Breiðablik - Real Madrid Meistaradeild UEFA. Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ævintýrin

Mótsleikir meistaraflokksstrákanna á grasinu sem nú er í geymslu voru 83 talsins. Byrjum á að sjá þessa samantekt áður en við drögum fram metin og tíðindin sem í henni búa:

image

Mörg met

Fjöldi meta var sleginn á þessari fordæmafáu sigurgöngu Breiðabliksstrákanna. Hér eru nokkur.

23 ára met slegið

Í heimaleiknum gegn KR 23.júní 2022 skráði Breiðabliksliðið sig á spjöld sögunnar með sigri á Vesturbæjarliðinu. Leikurinn var sextándi sigur okkar manna í röð í efstu deild á heimavelli. Með sigrinum sló Blikaliðið met sem ÍBV hafði átt í heil 23 ár, en Eyjamenn unnu 15 heimaleiki í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997 til 1999 og áttu metið einir síðan, eða þar til okkar menn jöfnuðu það í með sigri gegn KA 20. júní.

22 heimaleikir án taps

Á gamla grasinu náðu Blikar þeim merka áfanga að spila 22 leiki í röð á heimavelli án taps  (21 sigur og eitt jafntefli) með markatöluna 69:10. Liðið vann alla heimaleiki árið 2021, nema fyrsta leikinn sem var gegn KR á Kópavogsvelli 2. maí, með markatöluna 32:1 og liðið var taplaust árið 2022 tólf leiki í röð með markatöluna 37:9. Sá sem skrifaði handritið að þessari velgengni sá auðvitað til þess að sigurlotunni, sem hófst eftir tap gegn KR í fyrsta leik 2021, var lokið af KR, sem vann okkar menn í 3ju umferð úrslitakeppninnar á Kópavogsvelli 15. október 2022. Þarna á milli voru 532 taplausir dagar á gamla grasinu. Það fylgir ekki þessari sögu hvort búið sé að teppaleggja gólfið eða endurnýja málninguna í Grænu stofunni þar sem meistaraflokkurinn hélt til á því augnabliki að Bestudeildartitillinn varð þeirra 10. október 2022, en vitaskuld var tekið á móti splunkunýjum meistaraskildi á gamla yfirborði Kópavogsvallar tíu dögum síðar.

Er völlur grær

Það er mikið fagnaðarefni að búið er að endurnýja yfirborð Kópavogsvallar. Það sýnir að metnaðurinn er ekki bara í strákum og stelpum og allskonar sem sparka bolta íklædd grænum treyjum, heldur nær hann líka til þess fólks sem ábyrgð ber á umbúnaði öllum. Íþróttafélagið og sveitarfélagið sem voru gestgjafar fyrstu leikja í riðlakeppni Meistaradeildar hér á landi hafa þann stórhug sem nýtt yfirborð vallarins ber með sér. Það er vonandi að það eldra, sem ekki stenst lengur alþjóðlegar kröfur, geti þó nýst lengur enda hefur það gefið prýðilega 😊

Það voru auðvitað ekki bara meistaraflokkar Breiðabliks sem spiluðu heimaleiki á vellinum. Fjöldi annarra flokka Breiðabliks og Augnabliks áttu þar sínar gæðastundir í blíðu og stríðu.

Eiríkur Hjálmarsson

image

image

Til baka