BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Spennufall gegn FH

04.09.2023 image

Blikaliðið náði sér engan vegin á strik gegn FH á Kópavogsvelli í síðasta  leik í hefðbundinni keppni Bestu deildarinnar 2023. Niðurstaðan var 0:2 tap sem var í raun sanngjörn niðurstaða þrátt fyrir að Blikaliðið hafi saumað nokkuð að Fimleikadrengjunum undir lok leiksins.

Nokkur beigur var í mörgum stuðningsmönnum Blika fyrir leikinn enda oft erfitt að rífa sig upp eftir að hafa náð langþráðu markmiði. Í þessu tilfelli að komast í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu. Og þessi ótti var ekki ástæðulaus. Margir lykilmenn Blika náðu sér engan veginn á strik í leiknum. Þrátt fyrir að spila með sterkum vindi í fyrri hálfleik áttum við varla skot á mark andstæðinganna. Ekki tók betra við í síðari hálfleik. Vörnin var eins og gatasigti og vorum við í raun stálheppnir að lenda ekki 1-2 mörkum undir strax á upphafsmínútum hálfleiksins. En svo kom áfallið. Nokkuð saklaus sending inn í teig rataði á kollinn á hættulegasta sóknarmanni Hafnfirðinga. Þar stór hann gapandi frír og átti ekki í erfiðleikum með að skora fram hjá Antoni Ara sem átti ekki möguleika að verja knöttinn.

Það er ekki þess virði að eyða of miklu púðri í lýsa þessum leik. Eitt af því fáa sem jákvætt var í leiknum var snörp sókn okkar pilta í uppbótartíma. Þá átti Alexander Helgi góða fyrirgjöf sem Jason Daði var í raun óheppinn að jafna ekki leikinn. En markvörður FH varði skotið frábærlega. Upp úr því sóttu gestirnir hratt og bættu við öðru marki. Dómarinn flautaði leikinn af nokkrum andartökum síðar og við urðum að játa okkur sigraða. Það þýðir hins vegar ekkert að hengja haus. Nú kemur landsleikjahlé og strákarnir okkar fá tækifæri að hlaða rafhlöðurnar á nýjan leik. Þrátt fyrir að þrjú lið, FH, Stjarnan og KR, séu farin að anda niður hálsmálið á okkur þá höfum við samt fjögurra stiga forskot á næstu lið. Þar að auki eigum við FH í fyrsta leik í úrslitakeppninni á Kópavogsvelli. Þar gefst gullið tækifæri til að hefna fyrir þetta tap!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar

-AP

Til baka