BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Steinn yfir steini

07.08.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Grikkland á sér merkilega sögu sem ég hef haft mikinn áhuga á allt frá menntaskólaárunum. Það var þó ekki fyrr en nú í sumar að ég kom þangað í fyrsta skipti. Það var mjög áhugavert að rölta um á Akrópólishæð og sjá gamla leikvanginn í Ólympíu en Mýkena, sem heilt menningarskeið er nefnt eftir og er talsvert eldra en gullöldin svonefnda, er svosem áhugaverð en það er varla að standi þar steinn yfir steini.

Þannig var líka leikur Breiðabliks gegn Stjörnunni í kvöld; áhugaverður en löngum stundum stóð vart steinn yfir steini.

Góður stuðningur

Stuðningsmenn Breiðabliks létu sig ekki vanta á leikinn sunnan Arnarneshæðar og trúi ég að alla vega  helmingur tæplega 1.200 áhorfenda leiksins hafi fylgt okkar mönnum. Þeir spiluðu í hvítu sem víða um heim er litur sorgar.

Stjörnumönnum hefur gengið betur á útivöllum en heimavelli í sumar og þar ræður mestu aragrúi jafntefla sem þeir hafa gert á Samsung-vellinum. Fjögur í sjö leikjum fram að leiknum í kvöld. Þeir bláklæddu hafa þó átt  í fullu tré við okkur Breiðabliksmenn þetta árið. Unnu okkur í Deildarbikarnum og Fótbolta.net mótinu í vor og töpuðu naumt, 3-2, í fyrri umferð Bestu deildarinnar í maí.

Byrjunarliðið

Dagur Dan var utan hóps hjá okkur í kvöld. Held að hann sé ekki í banni en búinn að spila býsna mikið upp á síðkastið og hlaupa örugglega talsvert lengra en Feitippídes þegar hann skokkaði frá Maraþon til Aþenu hér um árið til að láta vita af sigri í Persastríðunum. Byrjunarliðið var annars svona:

image

Ég hef stundum fengið það á tilfinninguna upp á síðkastið að okkar frábæri mannskapur, sem trónir verðskuldað efst á stigatöflu Bestu deildarinnar, byrji leiki svolítið rólega eins og til að meta það hvað hann þurfi nú að leggja mikið á sig í þessum leik. Þessa tilfinningu fékk ég í kvöld og gríðarlega frískir Stjörnustrákar gerðu nákvæmlega það sama og í fyrri leikjum milli liðanna þetta árið; pressuðu stíft, gengu á lagið og skoruðu snemma. Þó Ísak fengi nánast strax á eftir hrikalega gott færi, sem fór forgörðum, tók við svona tíu mínútna basltími hjá okkur þar sem háspressa Stjörnustráka skilaði sér í slökum sendingum hjá okkur, æðibunugangi og áhættuatriðum í öftustu vörn.

Sýndu seiglu

Með seiglu tókst þó að brjótast út úr því og ná öllum tökum á leiknum án þess þó að við virtumst vera með það alveg á hreinu hvernig við ætluðum að skora. Það var umsátur um mark Stjörnumanna, eins og um Tróju forðum, en rétt eins og þá var erfitt að komast í gegnum múrinn og ég sá nú ekki alveg fyrir mér að við færum að fylla tréhross af Breiðabliksmönnum og smeygja þarna inn fyrir til að koma á þá marki.

Stígur fram Kristinn Steindórsson, besti maður Breiðabliks í leiknum að mínu mati, og smokrar tuðrunni í netið eftir látlausan þrýsting umsátursliðsins.

Markið kom eftir sókn herfylkingarinnar hægra megin og örskömmu síðar var sama uppskrift næstum búin að skila okkur öðru marki. Baslið við að glíma við pressu Stjörnunnar hafði nokkrum sinnum komið okkur í slæmar stöður og bara fimm mínútum eftir að okkar menn litu út fyrir að vera að kreista fram annað mark, klikkar sending á miðjunni, Stjarnan vinnur boltann, leggur upp fyrir langskot sem er þrykkt í okkar mark. Áts! Og rétt fyrir 15 mínútna vopnahléið, kom á daginn hvað Stjörnumenn þurftu miklu minna til að skora sín mörk. Sending fram, misskilningur einhver á milli Högga og Antons, þannig að góð móttaka Eggerts Stjörnumanns skilur hann eftir einan, okkar menn báða úr leik, og hann afgreiðir boltann snyrtilega í netið.

Hver leikur er 90 mínútur

Það var súrt að vera undir eftir að hafa átt svo mikið í fyrri hálfleiknum, tala nú ekki um 3-1 undir, en knattspyrnuleikur er 90 mínútur sagði spakur maður yfir kaffinu undir þungum skýjum en þó í sólargeislum aftan við stúkuna.

Um síðari hálfleikinn í kvöld legg ég ekki á mig að hafa mjög mörg orð. Það gekk einhvern veginn hvorki né rak. Dugnaðurinn í Stjörnustrákunum skilaði sér miklu betur en erfiðið sem okkar menn lögðu á sig og ef Stjarnan fékk horn eða innkast á okkar vallarhelmingi þá fannst manni það vera á hættulegum stað. Þeir uppskáru tvö mörk og tvær tvöfaldar innáskiptingar hjá okkur skiluðu ekki miklu, fannst manni. Sárabótamark Viktors með síðustu spyrnu leiksins gerði ekkert mikið fyrir mann þegar maður hafði séð slatta af vongóðum bæjarbúum tínast burt úr Blikahluta stúkunnar eftir því sem liðið hafði á hálfleikinn.

5-2 var niðurstaðan og þessi mörk eru fjórðungur allra marka sem við höfum fengið á okkur í sumar. Við höfum fengið á okkur 20 mörk en allt sumarið í fyrra voru þau 21. Skjót skoðun sögufróðra segir okkur að við þurfum næstum að fara aftur í aldir – næstum í grísku gullöldina – til að finna deildarleik með jafn lekri Breiðabliksvörn. Þetta var árið 2011 þegar við töpuðum 6-2 á móti hverjum, jú Víkingi, sem var svo tillitssamur að ná bara jafntefli við Frammara í kvöld.

Býsans í Þrakíu

Áður en við fórum í Grikklandsferðina var ég vitaskuld mikið að spá í hverju maður ætti að pakka. Þarf maður peysu? Notar maður einhvern tíma spariskó?

Í fyrramálið leggja okkar menn upp í leiðangur á gríska fornmenningarsvæðið, nánar tiltekið til Býsans í Þrakíu. Kannski var hausinn við pökkunina í leiknum í kvöld en á áfangastaðnum, sem nú er kölluð Istanbúl, standa merkar minjar eldfornar og sumar meira að segja vel nothæfar þó gamlar séu. Þá er eins og gott að það standi steinn yfir steini hjá okkur.

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka