Svakalega svekkjandi á Akureyri!
05.07.2023
Greifavöllurinn | #
Blikar urðu að bíta í það súra epli að detta úr Mjólkurbikarnum í rosalegum knattspyrnuleik gegn KA á Akureyri. Lokatölur urðu 6:4 fyrir heimamenn eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni. Tapið var þeim mun meira svekkjandi því við vorum tvisvar með sigurinn innan seilingar en andartaks einbeitingarleysi í vörninni gerði þeim gulklæddu kleift að jafna leikinn á ögurstundu. Vítanýting okkar í vítaspyrnukeppninni var einnig slök og því fór sem fór.
Blikar byrjuðu leikinn með miklum krafti og sóttu stíft á heimapilta fyrstu 10-15 mínúturnar. Jason Daði sýndi gamla fótafimitakta, Kiddi Steindór lét boltann ganga vel og Gísli átti flott færi eftir frábæran undirbúning Andra Rafns. En það vantaði herslumuninn til að skora markið og smám saman náðu þeir gulklæddu að komast meira inn í leikinn. Við misstum aðeins tökin á miðjunni og KA-menn náðu nokkrum sinnum að komast í góðar stöður. En vörnin hjá Blikum hélt vel og undir lok hálfleiksins pressuðum við aftur vel á KA-markið. En það vantaði samt broddinn í sóknina og staðan því 0:0 í leikhléi.
Eitthvað komu okkar drengir hikandi inn í hálfleikinn. Dekkingin var ekki nógu sannfærandi og KA-menn fengu of mikinn tíma að pressa á okkur. Það var því ekki gegn gangi leiksins að heimapiltar náðu forystu eftir að Anton Ari hafði varið knöttinn út í teig. Þetta mark virtist vekja okkar drengi af værum draumi. Við tókum smám saman yfir leikinn og pressuðum stíft á þá gulklæddu.
En það var ekki fyrr en færeyski markaskorarinn Klæmint Olsen kom inn á að Blikar náðu að jafna. Klæmint skallaði knöttinn í netið á 87. mínútu og jafnaði þar með leikinn. En þá hófst mikil orrahríð.
MARK⚽️ Klæmint Olsen jafnar fyrir Blika á 87. mínútu. KA-Breiðablik 1-1. pic.twitter.com/cijQWytb9S
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) July 4, 2023
Við fengum aukaspyrnu í uppbótartíma rétt utan vítateigs og fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson sendi knöttinn í netið með frábærri spyrnu. Staðan orðin 1:2 og lítið eftir.
MARK⚽️Höskuldur Gunnlaugsson kemur Blikum yfir í uppbótartíma. KA-Breiðablik 1-2. pic.twitter.com/CFma3YQ4NK
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) July 4, 2023
Héldu nú flestir að þar með væri björninn væri unninn. En því miður klikkaði dekking hjá okkur í vörninni og KA menn náðu að jafna í lokaandartökum venjulegs leiktíma. Eftir smá pásu hófst framlenging. Í fyrri hluta framlengingar var aðeins eitt lið á vellinum-Breiðablik! Við yfirspiluðum heimadrengi og fengum síðan réttlátt víti þegar Davíð Ingvarsson var felldur innan teigs. Aftur steig Höskuldur fram og kom okkur yfir 2:3. Þannig var staðan eftir fyrri hluta framlengingar.
Því miður datt spilið nokkuð niður í seinni hlutanum. Í stað þess að halda knettinum og spila okkar leik eins og við höfðum gert frábærlega í fyrri hálfleik fórum við að þruma fram og verja forystuna. Það kom í bakið á okkur rétt fyrir leikslok þegar vörnin feilreiknaði sig þegar þversending utan af kanti rataði á kollinn á einum gulklæddum inn í teig. Staðan orðin 3:3 og skömmu síðan flautaði dómarinn leikinn af.
Ekki ætlum við að eyða miklum tíma í lýsa vítaspyrnukeppninni. Hún fór ekki vel og við dottnir út úr Mjólkurbikarkeppninni á lokasprettinum. Tapið er svakalega svekkjandi því við vorum að spila mjög góðan bolta lungan úr leiknum. En á meðan við fáum svona mörg mörk á okkur þá er ekki von á góðu.
Við höfum hins vegar ekki mikinn tíma til að gráta þetta tap. Næsti leikur er gegn Fylki á föstudaginn og svo förum við til Írlands og spilum við Shamrock Rovers á þriðjudaginn í næstu viku. Menn verða að hrista þetta tap af sér og einbeita sér að næstu leikjum. Það er mikið í boði og við ætlum okkur langt!
-AP
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!