BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tveir Blikar í Fjölni

27.03.2012

Blikarnir tveir, Árni Kristinn Gunnarsson og Ágúst Örn Arnarson, hafa ákveðið að söðla um og spila í Grafarvoginum í 1. deildinni sumar. Árni Kristinn er leikjahæsti spilari okkar Blika í meistaraflokki. Hann lék 253 leiki á árunum 1998-2010  í efstu og næstefstu deild og skoraði í þeim 17 mörk.  Hann varð bikarmeistari með Blikaliðinu árið 2009 og Íslandsmeistari árið 2010. Árni Kristinn hélt síðan í framhaldsnám í verkfræði til Bandaríkjanna haustið 2010 og lagði þá skóna á hilluna. En lengi lifir í gömlum glæðum og greinilegt að hækkandi sól hefur góð áhrif á menn. Það þarf ekki að fjölyrða að Árni Kristinn á eftir að hafa góð áhrif á Fjölnisliðið enda bæði góður knattspyrnumaður og drengur góður.

Ágúst Örn er  ungur og efnilegur framherji,fæddur árið 1991. Hann hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin ár og fótbrotnaði meðal annars í fyrra skömmu áður en hann ætlaði að ganga til liðs við KA á Akureyri. En hann hefur æft vel í vetur og er kominn í gott form. Það verður því gaman að sjá hvernig Ágústi gengur í gula búningnum í sumar. 

Þess má geta að þeir félagar hitta fyrir góðan Blika í Grafarvoginum, Ágúst Þór Ágústsson. Ágúst hefur undanfarin ár spilaði með Fjölnisliðinu og var meðal annars fyrirliði liðsins í fyrra. Ágúst þjálfar einnig 4. flokk karla hjá Blikum um þessar mundir. Auk þess er hann einn aðalmaðurinn bakvið nýju knattspyrnusíðuna 433.is  

Blikar.is senda þessum Blikum baráttukveðjur og vona að þeim gangi öllum vel í Fjölnisbúningnum.

Áfram Breiðablik!

Til baka