BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ungmennafélögin deildu stigunum!

24.08.2014

Það var ekkert slegið af frekar en fyrri daginn í leik Stjörnunnar og Blika í Pepsí-deildinni á sunnudagskvöldið í Garðabænum. Eftir mikla baráttu, dramatík, falleg mörk og gul og rauð spjöld skildu þessi tvo ungmennafélög jöfn með eitt stig hvor í 2-2 jafntefli. Líklegast voru þetta sanngjörn úrslit en við getum samt nagað okkur örlitið i handarbökin fyrir það að halda ekki út allan leikinn og fara með þrjú stig yfir lækinn.

Töluvert af Kópavogsbúum mætti í Garðabæinn til að styðja við okkar menn og stóðu sig vel gegn harðsnúnu stuðningsliðiði þeirra bláklæddu. Okkar piltar mættu röskir til leiks á teppinu og átti Elfar Árni meðal annars skalla í ofanverða slána strax á fjórðu mínútu leiksins. Smám saman náðu heimenn yfirhöndinni á miðjunni, sérstaklega eftir að við misstum Elfar Árna af velli vegna meiðsla eftir aðeins um hálftíma leik. Það var skarð fyrir skildi þótt að Olgeir sem kom inn á hefði alveg skilað  ágætu dagsverki inn á vellinum.

En rétt fyrir hálfleik klikkaði varnarvinna okkar eins og stundum í sumar og dæmd var nokkuð hörð vítaspyrna eftir að Höskuldur hafði nartað í sóknarmann Stjörnunnar innan teigs. En Blikaliðið lét ekki deigan síga og koma tvíeflt til leiks í síðari hálfleiks. Fljótlega setti Guðjón Pétur boltann glæsilega í netið hjá Ingvari markmanni beint úr aukaspyrnu. Ekki liðu margar mínútur þar til Damir hafði náð forystunni fyrir okkur eftir þunga sókn og góða spilamennsku.

Eftir þetta færðist aðeins meiri harka í leikinn og var oft hart tekist á inn á vellinum. Garðar Örn dómari sleppti augljósu broti á Árna Vill um tíu mínútum fyrir leikslok. Stjörnumenn geystust fram í sókn og lágvaxinn sóknarmaður Garðbæinga hrinti Damir og náði að skalla boltann í netið. Kolólöglegt mark að Blikamati en rauða baróninum var ekki haggað.

Aðstoðardómari stúkumegin fór greinilega á taugum um miðjan síðari hálfleikinn vegna falsk söngs Silfurskeiðarinnar og dæmdi Árna Vill rangstæðan. Fáranlegur dómur og vonandi hefur þessi dómari ekki sofið vel síðustu nótt vegna þessa dóms. Skömmu fyrir leiklok slapp Árni í gegn og varnarmaður heimamanna sá sitt óvænna og felldi drenginn. Domarinn rak þann bláklædda út af en því miður tókst okkur ekki að nýta liðsmuninn til að innbyrða stigin þrjú.

Á margan hátt var þetta einn besti leikur Blikaliðsins í sumar. Boltinn flaut ágætlega út frá vörninni, í gegnum miðjuna og fram á sóknarmennina. Því miður erum við samt að fá of mikið af mörkum á okkur en gleymum því ekki að við vorum að spila á móti efsta liði deildarinnar. Það er því margt gott sem við getum tekið með okkur í næsta leik. Það er gegn Fylkismönnum á sunnudaginn á Kópavogsvelli kl.18.00. Árbæingar hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu og því mikilvægt að stoppa þá þeysireið. Það gerum við öll, bæði leikmenn, þjálfarar, aðstandendur og áhorfendur! 

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka