BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Veislan sem ekki varð

14.09.2013

Í dag léku Blikar gegn Valsmönnum í 19.umferð PEPSI deildarinnar. Blikar máttu illa við því að misstíga sig í þessum leik eftir ófarirnar gegn Fylki á dögunum og horfðu löngunaraugum til stiganna sem í boði voru. Ólafur Helgi þurfti að breyta hressilega til í liðsvalinu að þessu sinni enda 4 byrjunarliðsmenn frá síðasta leik í leikbanni eins og áður hefur komið fram, þeir Finnur, Nichlas, Renée og Þórður.
Gísli Páll kom inn í byrjunarlið ásamt Viggó, Tómasi Óla og Ellert. Elfar Árni var að nýju í leikmannahópi Blika og er það sérstakt fagnaðarefni að hann skuli vera kominn á ról. Auk hans komu inn í hópinn að þessu sinni Guðmundur Friðriksson, harðduglegur leikmaður úr 2. flokki,  sem er óðum að ná fyrri styrk og getu eftir þrálát meiðsli, og Ernir Bjarnason, bráðefnilegur leikmaður 3ja flokks karla og U-17 ára liðs Íslands sem nú var í hópnum í fyrsta sinn.

Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;

Gunnleifur (M)(F)
Gísli Páll -Sverrir Ingi – Elfar Freyr - Kristinn J
Ellert – Andri Rafn – Guðjón Pétur- Tómas Óli -Viggó
Árni Vill

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Olgeir Sigurgeirsson
Jökull I. Elísabetarson
Arnar Már Björgvinsson
Ernir Bjarnason
Guðmundur Friðriksson
Elfar Árni Aðalsteinsson

Sjúkralisti;  Rafn Andri Haraldsson

Leikbann; Finnur Orri, Renée , Nichlas og Þórður Steinar

Leikskýrsla

Útsynnings haustrosi, 7- 14 m/sek , var það sem boðið var uppá af veðurguðunum í dag. Tilkomumiklir sólstafir sáust af og til og stundum varð alveg glennibjart, en þess á milli sá maður varla á hönd sér. Hélst að mestu þurrt á meðan á leik stóð og. Hiti nálægt 7,5°C og  raki 75%. Skyggni 25 km þegar best var. Völlurinn virtist í þokkalegu standi, en nokkuð háll eins og flestir vellir þessa dagana. Áhorfendur ekki margir en fjölgaði heldur er á leið, þó með daufasta móti. Leiktími náttúrulega ekki boðlegur. Það væri gaman ef KSÍ og Íslenskur Toppfótbolti sæktu nú í sjóði UEFA og FIFA og gerðu átak í því að flóðljósavæða leikvelli í efstu deild? Mér er sagt að Kópavogsbær sé í startholunum með Kópavogsvöll, en hinir vellirnir þurfa að fylgja með.

Blikar hófu þennan leik af krafti og náðu fljótlega ágætum tökum á leiknum. Gáfu Valsmönnum lítinn tíma og voru fljótir að setja pressu á þá. Valsmenn virkuðu óöruggir og það var talsvert fát á spilinu hjá þeim. Blikar fengu nægt pláss og það var eingögnu okkar klaufagangur og skortur á grimmd sem kom í veg fyrir að við tækjum forystuna í leiknum. Oft á tíðum var hreinlega eins og við vissum ekki hvar markið væri eða værum sona dálítið að spökulera í rólegheitum hvort við ættum að skora í þessari sókn eða þeirri næstu. Frekar í þeirri næstu. En í næstu sókn misstum við bara óvart boltann og Valsmenn brunuðu upp völlinn og inn í vítateig okkar þar sem brotið var á sóknarmanni þeirra. Vítaspyrna dæmd og staðan allt í einu orðin 1-0 fyrir Val sem fram að þessu hafði varla verið með í leiknum. Gulli var reyndar nálægt því að verja spyrnuna.
Þetta mark virkaði eins og vítamínsprauta á heimamenn sem náðu nú þokkalegum tökum sínum leik, en við virtumst missa móðinn. Það hendir reyndar oft þegar menn átta sig á því að vagninn er farinn og þeir hafa misst af honum. Valsmenn skoruðu svo annað mark sem dæmt var af vegna rangstöðu, en þar munaði litlu. Skömmu síðar komust Blikar í dauðafæri eftir ágætt spil og flotta sendingu frá Tomma en Ellert brást bogalistin. En heilladísirnar höfðu ekki alveg yfirgefið okkar menn og þeir jöfnuðu svo leikinn skömmu fyrir leikhlé þegar Árni skoraði gott mark eftir flottan undirbúning og fyrirgjöf Kristins. Gott mark. Blikar fengu svo kjörið tækifæri til að ná forystunni skömmu síðar þegar Ellert komst inn að markteigshorninu en hann náði ekki almennilegu skoti. Boltinn barst svo til Tomma en hann skaut í varnarmann úr þröngu færi, Blikar tóku hornspyrnuna og í sama mund flautaði dómarinn til leikhlés. Staðan 1-1.

Leikhléð var tíðindalítið og fátt rætt. Andsk.. rugl að fá á sig mark eftir að hafa nánast slegið upp tjaldi á vallarhelmingi Valsaranna fram að því að þeir skoruðu.

Blikar hófu svo seinni hálfleik af heldur meiri ákefð en þann fyrri og strax í fyrstu sókn prjónaði Viggó sig í gegnum vörn Vals inni í vítateig og skaut á mark frá vítapunkti en Fjalar varði mjög vel. Næstu tuttugu og fimm mínúturnar var algjör einstefna á mark heimamanna og það var með hreinum ólíkindum að Blikar skyldu ekki ná að skora eitt einast mark á þessum kafla. Smátt og þvarr máttur okkar manna. Sendingar urðu ónákvæmar og óþarfa óðagot á mönnum. Ólafur Helgi sendi Arnar Má á vettfang í stað Ellerts og litlu munaði að hann skoraði strax með kollspyrnu, eftir aukaspyrnu, en boltinn fór naumlega framhjá. Blikar héldu áfram að pressa en gekk illa að skapa góð færi.  Valsmenn fengu svo ágætt færi þegar Bjarni Ólafur skallaði framhjá úr þokkalegu færi eftir aukaspyrnu. Þar vorum við heppnir. Olgeir kom inn fyrir Viggó þegar tíu mínútur lifðu leiks en allt kom fyrir ekki. Blikar reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna en það verður að segjast að kappið bar skynsemina ofurliði á síðustu mínútunum þannig að þetta var mest feilsendingar og klafs í stað færa. Gallsúrt jafntefli því staðreynd og Blikar sannarlega ekki að gera sjálfum sér neina greiða þessa dagana.

Eftir leik voru stuðningsmenn Blika alveg rasandi á sínum mönnum að hafa ekki gengið á milli bols og höfuðs á andstæðingum á fyrstu 20 mínútum leiksins. Þar var sannarlega boðið til veislu. Seinni hálfleikur var mjög í sama stíl. Okkar menn mættir en gestgjafinn fjarverandi. Sennilega ókurteisi að gæða sér þá á krásunum. Eða hvað veit ég? Er það frekja að ætlast til þess að menn skori eins og eitt mark þegar vörn andstæðinganna er hriplek og miðvallarleikmenn fjarverandi langtímum saman? Ég held ekki. Okkar leikmenn verða einfaldlega að gera miklu betur ef þeir ætla að spila til verðlauna í efstu deild fyrir félagið. Það er nefnilega krafan þessi misserin. Svo einfalt er það.

Næsti leikur er á mánudag gegn Fram og hefst kl. 17:15 og ég skal hundur heita og roð éta ef menn mæta til leiks gegn Fram eina ferðina enn án þess að ná úrslitum. 3 stig og ekkert minna.

Við erum nefnilega ekki búin að gefa upp alla von og höfum enn trú á að okkar menn geti blandað sér í baráttu um sæti 2-3. En það er til lítils fyrir okkur vesæla að trúa ef leikmennirnir trúa ekki sjálfir. Þetta  byrjar og endar hjá þeim.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka