BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vetrarmarsering Breiðabliks Og Langþreyttir Stuðningsmenn

10.11.2023 image

Evrópuævintýri Breiðabliks hélt áfram þann 9. nóvember, dagsetning sem merkir upphafið að endalokum uppstokkunar álfunnar í austan og vestan járntjalds. Í heimsókn komu KAA Gent menn og með þeim heljarinnar gengi af stuðningsmönnum. Kvöld fréttaritarans hófst á drykk og snæðingi á Ölveri og þar var ekki þverfótað fyrir flæmskumælandi Belgum, stuðningsmönnum Breiðabliks, Liverpool og Toulouse voru smalað í hliðarherbergi barsins á meðan Belgarnir settu sitt mark á staðinn. Vegna einskerrar óheppni, eða aðallega lélegrar tímasetningar, vorum við Eysteinn Þorri mættir í miðja stuðningsmannamarseríngu Gentara á leið til Laugardalsvallar. Við náðum þó með okkar greiða íslenska spori að stinga marserínguna af og kvöddumst við Eysteinn fyrir utan Laugardalsvöll, hann fór upp í glerboxið með sínum bólstruðu sætum á sama tíma var ég kominn á vakt sem verti við að selja Flæmingjunum bjór. Já fréttaritari leiksins var einnig á barvakt og mun skýrslan einkennast af sögum af barnum, eða hitt þó heldur. Með mér þar voru þó til halds og trausts Sindri Ágústsson og Aron Páll Gylfason og við lokuðum barnum í tæka tíð til að sjá upphafsflaut leiksins. Þetta voru þeir ellefu leikmenn sem voru úti á vellinum og byrjuðu leikinn fyrir okkur Blika, við vörðumst í 5-4-1 en Davíð Ingvars varð kantmaður í sóknarstöðu og Andri Yeoman fór upp á miðju og við sóttum eiginlega í 2-3-2-3:

Stemningin á leiknum var nokkuð góð. 1211 áhorfendur eru tölurnar sem eru gefnar upp og er það nokkuð fín mæting fyrir leik í miðjum nóvember en er þó færri en gegn, já hvað skal segja, KR-ingum á Kópavogsvelli í júnímánuði. Ljóst er að þjóðin stendur  ekkert sérstaklega á bakvið okkur í þessari keppni, hvort sem það er reynsluleysi og vanþekking íslendinga á að fara á fótboltaleiki íslensks félagsliðs að vetri til eða hvort við séum hataðir, elskaðir en aldrei hunsaðir. Sennilega sitt af hvoru þar að verki. Fyrrum leikmenn Breiðabliks og Augnabliks, Hjörvar Hafliðason og Hrafnkell Freyr veltu þessu fyrir sér í nýlegum þætti þeirra Dr. Football manna. Hrafnkell vill meina að þetta gæti verið út af fólk hefur alist upp við að þola ekki að mæta Blikunum í yngri flokkunum og þróa þannig með sér óþol gagnvart Breiðablik. Ég er sammála þessari greiningu Hrafnkels. 

Það leið þó ekki á löngu fyrr en langbesti maður vallarins tók til sín en á 6. mínútu skoraði Gift Orban fyrsta mark leiksins, með snotrum skalla eftir að Gent-liðið hafði alltof auðveldlega splundrað vörn okkar manna. Ég fékk á tilfininguna að við yrðum sami bakarísmatur og í fyrri leik liðanna. Svo áttaði ég mig á því að Belgarnir hafa aldrei spilað fótbolta á hálffrostnu undirlagi, eitthvað sem við íslendingar höfum margoft gert og þá sérstaklega á malbikuðum skólavöllum þessa lands í frímínútum að vetri til. Því tíu mínútum eftir markið hans Orban komst Davíð Ingvarsson inn á milli hálfspólandi varnarmanna Gent og kom knettinum til Gísla sem skaut í varnarmann þannig að boltinn endaði hjá Jason Daða sem kom boltanum auðveldlega yfir marklínuna.

Strax tveimur mínútum síðar var mjög svipuð atburðarás, við komumst inn í sendingu Gent manna á þeirra vallarhelmingi og upp frá því komst Gísli í skotfæri og skaut og nú varði markvörðurinn beint út í teiginn og þar kom Jason og hirti frákastið og skilaði boltanum í netið. Í bæði skiptin var ég sannfærður um að VAR-dómur myndi kremja þessa draumalandsför okkar Blika en úr því varð ekki og svifum við inn í gegnum hlið draumalandsins óáreitt. 2-1 eftir 18. mínútna leik.

Eftir mörkin okkar var leikurinn í járnum, Gent meira með boltann en við gáfum fá færi á okkur og vörðumst vel. Á 35.mín þurfti ég svo að fara niður til að undirbúa sölu á öli í hálfleik. Leikurinn var illsjáanlegur af barnum en við dældum og vonuðum að við kæmumst inn í hálfleik með yfirhöndina, sem tókst!

Það var á 50.mín sem við vertar komumst aftur upp í stúku, þá búnir að loka fyrir alla bjórkúta. Aðeins 3.mín seinna voru Gent búnir að fá víti, sem Andri Yeoman var dæmdur brotlegur fyrir og mótmælti hann hástöfum sem okkur fannst skrítið því úr stúkunni leit þetta út eins og víti en ég hef ekki séð endursýningar og gárungarnir segja Gentarann hafi farið fullauðveldlega niður. Dómarinn var þó snöggur að benda á punktinn og VAR haggaði honum ekki. Gift Orban skoraði örugglega úr vítinu.  2-2 eftir 55.mín. Allt í lagi, en kannski fullsnemmt að fá jöfnunarmarkið á þessum tímapunkti. Við sýndum lipra takta og þetta var allt annað lið á vellinum en það sem mætti Gent í október. Á 70. mín komu svo gæði Gent manna enn og aftur í ljós ótrúlega falleg stungusending sem Viktor Örn var svo tæpur á að ná en komst ekki í gerði það að verkum að þeir voru komnir tveir á Anton Ara einn og jú auðvitað endaði Gift Orban á að klára færið með vinstri fæti – fullkomin þrenna. Þessi leikmaður mun fara í betra lið en Gent á sínum ferli það er klárt, Bundesliga eða Premier League er sennilega næst á dagskrá þar á bæ.

Við settum pressu á þá það sem eftir lifði leiks og komumst í fínar stöður en markvörður þeirra var vel á verði og hélt boltanum eftir varin skot mun betur en í fyrri hálfleik, átti hann til að mynda frábæra vörslu eftir hörkuskalla Kidda Steindórs og skot Gísla og Höskulds. Við náðum ekki að finna jöfnunarmarkið og endaði leikurinn 2-3 Gift Orban og Gent í vil. Þetta var seinasti leikur Klæmint Olsen fyrir Breiðablik sem heldur nú heim til Færeyja og vil ég þakka honum fyrir skemmtilegan tíma hjá okkur, flottur leikmaður sem mun áfram verða cult hero í Smáranum um ókomin ár.

Við getum verið stoltir Blikar eftir þennan leik og borið höfuðið hátt, þetta er langbesta liðið í riðlinum og þeir voru í alvöru vandræðum með okkur í leiknum og við spiluðum að ég tel okkar besta leik í þessari riðlakeppni hingað til. Við vorum miklu betri en gegn Úkraínumönnunum hérna heima og Halldór og Eyjólfur mega vera ánægðir með liðið. Þó er mikið rætt um hvort að leikmenn séu þreyttir og vilji ekki fá kærkomið frí en þeir vilja ekki meina það en annað gildir um okkur stuðningsmenn. Vetrarmarsering Blika í Sambandsdeildinni fyrir okkur stuðningsmenn, já ég ætla líkja henni við le grand army Napóleóns í endalokum Napóleónstyrjaldanna og við fall franska keisarans 1813 og 1814, allir orðnir dauðþreyttir á að mæta í enn einn bardagann og kjósa helst friðinn. Aftur á móti sagði Napóleón sjálfur „það krefst meira hugrekkis að þjást en deyja.“ Við höldum því áfram vetrarmarseringunni og sjáumst í næsta stríði gegn Maccabi Tel Aviv og þar sem við munum berjast undir okkar græna, hvíta og rauða fána gegn þeim ísraelsku.

-Freyr Snorrason

Til baka