Viktor Örn framlengir
21.10.2015Viktor Örn Margeirsson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Breiðabliks til ársins 2018. Viktor Örn sem er 21 árs gamall varnarmaður átti fína leiki þegar hann spilaði fyrir Blikaliðið í sumar. Hann byrjaði inn á á móti KR og Fjölni og var í bæði skiptin einn af bestu mönnum liðsins. Í leiknum gegn KR var hann til dæmis valinn maður leiksins af flestum fjölmiðlum.
Það er gríðarlegur styrkur fyrir knattspyrnudeildina að hafa leikmann eins og Viktor Örn innan sinna vébanda sem getur komið inn á og leyst sína stöðu af kostgæfni. Það er örugglega ekki langt í að Viktor Örn verði fastamaður í meistaraflokknum. Hann var í láni hjá HK í fyrra og spilaði þá alla leiki liðsins í 1. deildinni.
Við eigum eftir að heyra meira af þessum efnilega varnarmanni á næstu árum. Þess má geta að Viktor Örn hóf meistaraflokksferil sinn sem lánsmaður hjá Augnablik.
-AP