BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vín, borg drauma minna

29.07.2021 image

Tíðindamaður hins virta miðils blikar.is hafði áhyggjur af því að máttarvöldin hefðu óþarflega mikla samúð með gestunum í aðdraganda Evrópuleiks Breiðabliks og Austria Wien á Kópavogsvelli þann 28. júlí. Hvar var rokið og hvar var rigningin sem hafa gælt við vangann í hinu svokallaða sumri sunnan heiða? Nei, nú var allt í einu komin mið-evrópsk blíða, logn og bjart og tuttugu stiga hiti. Gestir í þéttskipaðri stúkunni voru almennt á stuttermabol sem elstu menn telja nánast einsdæmi. 

Blikar unnu undir kjörorðinu hollur er heimafenginn baggi og tóku níu uppaldir liðsmenn þátt í leiknum. Byrjunarliðið var þannig skipað: Anton Ari í marki, Davíð Ingvarsson, Viktor Örn, Damir og eiginlega Höskuldur líka stóðu vaktina í vörninni, Oliver, Alexander, Gísli og Viktor Örn sáu um miðsvæðið og Kristinn og Árni voru fremstir. Síðar í leiknum kom Davíð Örn inn fyrir Oliver, Andri Rafn fyrir Alexander og Mikkelsen fyrir Árna í blálokin.
 

image

Að kunna sinn Vínarvals

Leikurinn fór rólega af stað. Austurrísku gestirnir lágu til baka og ætluðu greinilega að bíða átekta. Kannski eins og í hægum valsi eftir Jóhann Strauss yngri, konung Vínartónlistarinnar, með það að markmiðið að sprengja allt í hröðum kafla þegar síst skyldi. 

En Blikar mættu vel undirbúnir til leiks. Líklega hefur tónlistarmaðurinn geðþekki Páll Pampichler Pálsson gefið góð ráð um það hvernig leika skuli Vínarvalsa að hætti heimamanna en hann er sem kunnugt er fæddur í Graz í Austurríki. Og þaðan eigum við stormandi góðar minningar. Okkar menn kunnu sinn Vínarvals upp á tíu í hinum þrískipta takti, þar sem öðru slagi er flýtt og því þriðja seinkað til að fá hið heillandi svif sem einkennir þessa tegund tónlistar. Það var líklega á þessu umrædda öðru slagi sem Höskuldur Gunnlaugsson sendi frábæra sendingu fyrir mark gestanna þar sem Kristinn Steindórsson skoraði af miklu öryggi með vinstri fæti á þriðja slagi sem hann seinkaði örlítið eins og lög gera ráð fyrir.
 

image

Davíð með dólg

Blikar komnir yfir, 5.27 á klukkunni, og staðan orðin 2-1 í einvíginu. Austurríkismennirnir virtust í hálfgerðu áfalli, enda slökuðu okkar menn hvergi á. Á níundu mínútu lét Davíð Ingvarsson sinn mann finna fyrir því og var svo með almennan dólg við hann á eftir við takmarkaðan fögnuð andstæðinganna en þeim mun meiri gleði á pöllunum. Mínútu síðar átti Viktor Karl hættulega sendingu fyrir sem var bjargað í horn, Damir skallaði framhjá eftir hornspyrnuna. Og þar fram eftir götum. 

image

image

Baráttan var mikil á miðjunni. Brotið var á Alexander og dómarinn gaf réttilega gult. Mínútu síðar braut Alexander af sér á móti og fékk líka gult. Áfram biðu leikmenn Austria Wien átekta á sínum vallarhelmingi. Einn maður reyndi að pressa Viktor Örn og Damir: „Láttu hann hlaupa,“ kallaði Óskar Hrafn til Viktors. Og fyrst minnst er á Óskar er rétt að geta þess að báðir þjálfarar voru afar snyrtilega klæddur, í dökkum jakkafötum, hvítri skyrtu og skóm í stíl. Óskar var afar líflegur á hliðarlínunni allan leikinn og hefði verið gaman að sjá hlaupatölurnar hjá honum. Eina hættan sem skapaðist á þessu mínútum við mark okkar manna var þegar Anton Ari skaut í leikmann Austria Wien en það bjargaðist. 
 

Gestir í vondum málum

Það var með öðrum orðum lítið að gerast í leik gestanna. Þetta var nú ekki merkilegur vals sem þeir sýndu okkur. Þó reyndu þeir að færa sig framar, enda urðu þeir að skora til að eiga möguleika. Örvæntingarfull bakfallsspyrna utan úr teig var ekki líkleg til árangurs hjá þeim en aftur á móti gerðist það á sömu mínútu, þeirri 24., að Kristinn Steindórsson tók snilldarlega á móti boltanum inni í teig gestanna og sendi glæsilega fyrir þar sem Árni Vilhjálmsson var mættur og smellti boltanum í netið. 23.57 á klukkunni og Austria Wien í vondum málum, 3-1 undir í einvíginu.
 

image

Markmaður sólar tvo

Litlu síðar skaut Höskuldur yfir úr aukaspyrnu og í sömu svifum birtist auglýsing á skilti: schnitzelwelt.at og skömmu síðar „Der feiner Salamisnack“ sem varð til þess að æsa upp hungrið í áhorfendum. Og kannski hleypa nýju blóði í gestina sem öskruðu „jawohl!“ þegar einhver stuggaði við Davíð úti á kanti og skömmu síðar: „Weiter, weiter!“ Á móti var hrópað í stúkunni: „Þeir eru að missa hausinn!“ Og voru það orð að sönnu, ráðleysi hinna austurrísku virtist algert. Það var helst að við sköpuðum hættu við eigið mark, það fór til dæmis kliður um stúkuna þegar Anton Ari sólaði tvo inni í eigin teig ... Á móti kom að gestirnir fengu spjald fyrir að mótmæla hárréttum dómi úti á miðjum velli. Þeir voru með öðrum orðum ekki í neinum takti við leikinn, hvað þá þrískiptum. Og þegar flautað var til leikhlés dúndraði einn af þeim boltanum langleiðina yfir í Kópavogslæk til að tappa af sér vonbrigðunum.

Fyrri hálfleikur var með öðrum orðum eign okkar manna. Í stað þess að fá sér kaffi í lokaðri sjoppunni sungu ánægðir Blikar „Vín, borg drauma minna“ í þrískiptum takti („Wien, Wien, nur du allein / Sollst stets die Stadt meiner Träume sein!“ – hér getur að heyra það í flutningi Fritz Wunderlich Var draumurinn innan seilingar? Voru Blikar á ný að vinna sögulegan sigur á austurrísku liði? Var ævintýrið frá fæðingarborg Páls P. Pálssonar að endurtaka sig?

image

Úr smiðju Guðgeirs Leifssonar

Austria Wien höfðu greinilega ákveðið að herða hinn þrískipta takt í hálfleik og pressuðu Blika frá fyrstu mínútu. Þeir beittu löngum innköstum, kannski til að sigra hina íslensku gestgjafa með þeirra eigin vopnum sem hafa dugað okkur vel, allt frá dögum Guðgeirs Leifssonar á fyrri hluta áttunda áratugarins. En þó að okkar menn hafi tekið þá í valsinum þá voru þessi innköst ekki merkileg og sköpuðu litla hættu.

Eins og gefur að skilja þá fækkar í vörninni þegar pressað er framarlega. Það nýttu Blikar sér á 53. mínútu þegar Kristinn sendi hörkusendingu fyrir, þar sem tveir heimamenn voru á auðum sjó – en bjargað var naumlega í horn.

Klippur úr leiknum í boði Blikar TV:
 

Mörkin úr leiknum frá Stöð 2 Sport:

Tilraunakenndur expressjónismi

Gestirnir sköpuðu enga hættu við mark okkar manna á þessum mínútum. Þá ákváðu Blikar allt í einu að fara úr hinum ljúfa og svífandi valstakti að hætti Jóhanns Strauss yngri yfir í tónlist sveitunga hans, Schönbergs, sem var expressjónísk og tilraunakennd. Í stuttu máli – tilraunakennd og expressjónísk sending þvert á völlinn í miðri vörninni fór beint á framherja gestanna og hann þakkaði kærlega fyrir sig. Staðan skyndilega orðin 2-1 og allt galopið.

Það var þó enga uppgjöf að finna í okkar mönnum. Þeir hrukku aftur í sinn ljúfa Vínarvals. Viktor Karl átti hörkuskot sem var varið, Gísli skaut naumlega framhjá en gestirnir höfðu fengið trú á því að þeir gætu sigrað léttleikandi Blika á heimavelli. Anton Ari greip hættulega fyrirgjöf, það var bjargað í horn og tíðindamaðurinn sagði fyrir sitt leyti „úff!“ 
 

image

Glittir í stórlið

Sex mínútur í uppbótartíma. Risinn í hjarta varnar gestanna var kominn í sóknina. Þunginn var mikill og það örlaði á því að hægt væri að sjá að þetta væri lið sem hefur unnið austurrísku deildina 24 sinnum og 27 sinnum orðið bikarmeistari en það var kannski við hæfi að síðasta skot gestanna færi hátt yfir og langt framhjá en þegar þetta er skrifað er enn verið að leita að boltanum í kringum Kópavogslækinn.

Lið Blika var eins og sinfóníuhljómsveit að leika vínarvalsa sér til skemmtunar í mikilvægum leik í mið-evrópskri sumarblíðu. Baráttan var til fyrirmyndar, menn hlupu úr sér lungun en gleymdu aldrei að spila fótbolta í svífandi, þrískiptum takti. Kópavogspiltar gátu sungið „Vín, borg drauma minna“ að leik loknum. En hafi gestirnir raulað þetta sama lag í rútunni á leið til leiks hafa þeir væntanlega farið til búningsherbegja með lokaorðin úr frægu ljóði Ingibjargar Haraldsdóttur á vörum: 

en draumanna 
minnist ég með trega
nú þegar kólnar og dimmir
og bilið vex
milli þess sem er
og þess sem átti að verða 

En það er önnur saga og kemur okkur ekki við. Næstu verkefni Blika er mikilvægur heimaleikur á móti Víkingi á Kópavogsvelli á mánudaginn og síðan er það skoska stórliðið Aberdeen. Það verður eitthvað!

PMO

Umfjallanir netmiðla

Myndaveisla í boðið HVH hjá BlikarTV: 

image

Til baka