- Fanndís Friðriksdóttir, fyrirliði meistaraflokks kvenna í knattspyrnu hjá Breiðabliki, Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar trygginga, Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, og Finnur Orri Margeirsson, fyrirliði meistaraflokks karla, við undirritun samstarfssamningsins í Smáranum, félagsheimili Breiðabliks í Smáranum, félagsheimili Breiðabliks í Kópavogi.
Vörður áfram aðalstyrktaraðili Knattspyrnudeildar Breiðabliks
04.05.2012Vörður tryggingar og Knattspyrnudeild Breiðabliks hafa framlengt til næstu tveggja ára samstarfssamning sinn um að Vörður verði aðalstyrktaraðili deildarinnar og mun merki Varðar prýða búninga knattspyrnumanna og -kvenna Breiðabliks. Vörður hefur verið aðalstyrktaraðili deildarinnar undanfarin þrjú ár.
Styrktarsamningurinn er mikilvægur fyrir báða aðila. Hann léttir undir við rekstur Knattspyrnudeildar Breiðabliks, sem rekur öflugt yngri flokka starf auk þess að eiga lið í eldlínunni í efstu deild bæði karla og kvenna. Með samningnum tekur Vörður þátt í þessu mikilvæga og uppbyggilega unglingastarfi og setur um leið mark sitt á keppni þeirra bestu í knattspyrnu næstu árin.
„Við hjá Verði höfum verið afar ánægð með samstarfið við Knattspyrnudeild Breiðabliks síðustu árin, en hún er með þeim öflugustu á landinu. Því viljum við halda áfram að styðja Blikana til góðra verka á vellinum og hlökkum til að fylgjast með þeim halda merki Varðar á lofti,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar trygginga.
„Það gleður okkur hjá Knattspyrnudeild Breiðabliks að Vörður vilji halda áfram samstarfinu við okkur. Það er mjög mikilvægt fyrir félag eins og Breiðablik að hafa öfluga samstarfsaðila, enda er starfið umfangsmikið, hvort heldur litið er til barna- og unglingastarfsins eða baráttunnar um Íslandsmeistaratitlana í meistaraflokkum karla og kvenna. Við höldum áfram baráttunni og leggjum kapp á að sýna að við séum traustsins verð,“ segir Einar Kristján Jónsson, formaður Knattspyrnudeildar Breiðabliks.