BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vonbrigði fyrir vestan!

07.07.2024 image

Blikar urðu að sætta sig við eitt stig i 2:2 jafntefli gegn botnliði Vestra á Ísafirði í gær.  Í raun geta Blikar verið þokkalega sáttir við stigið því liðið náði sér enganveginn á strik í leiknum.  Fyrir þremur leikjum síðan átti Blikaliðið möguleika að komast á toppinn í Bestu deildinni en síðan hefur liðið ekki unnið leik. Pistlahöfundur hefur klórað sér í hausnum í meira en sólarhring og skilur í raun lítið í því hve lítið sést af þeirra leiftrandi knattspyrnu sem þeir grænklæddu sýndu í mörgum leikjum fyrr á tímabilinu.

Aðstæður voru samt frábærar til knattspyrnuiðkunar á Ísafirði í gær. Örlítið gola, splunkunýr gervigrasvöllur, sól skein í heiði og nokkuð margir Blikar mættu til að hvetja sína menn til dáða. Þar má til dæmis  nefna jarlinn af Bolungarvík sjálfan, Kristján Jónatansson, ásamt fylgdarliði sínu. En það dugði ekki til. Vestramenn voru miklu ákveðnari í fyrri hálfleik og það kom því frekar gegn gangi leiksins þegar dæmt var vafasamt víti á Vestra. En við þiggjum alltaf góðar gjafir og Höskuldur Gunnlaugsson skoraði örugglega úr vítinu.

Í stað þess að tvíeflast við markið hægðum við á spilinu og fundum í raun engar glufur á kraftmiklum varnarleik heimapilta. Fljótlega jöfnuðu þeir leikinn eftir að besti maður Blika, Anton Ari Einarsson, hafði varið knöttinn í stöng en náði ekki að halda boltanum og Vestradrengur lúðraði knettinum í markið. Í raun gátum við þakkað Antoni Ara að jafnt var þegar gengið var til búningsklefa því hann varði tvívegis frábærlega i fyrri hálfleik. Greinilegt var að Halldór þjálfari hafði lesið yfir drengjunum okkar í leikhléi því þeir voru frískari í síðari hálfleik. Eftir góða aukaspyrnu Höskuldar reis danski risinn Daniel Obbekjær mann hæst í teignum og skallaði knöttinn listilega niður í hægra hornið.

Vel gert hjá Dananum sem hefur ekki fengið mörg tækifæri í vetur en stóð sig vel í þessum leik.Héldu nú Blikar í stúkunni að landið væri að rísa en við náðum ekki að fylgja markinu eftir. Heimapiltar jöfnuðu eftir snarpa sókn og þar við sat þrátt fyrir þunga sókn þeirra grænklæddu undir lokin.

Ekki ætlar pistlahöfundur að þykjast hafa svör við hvernig hægt sé að snúa gengi Blikaliðsins við. En ljóst er að þjálfararnir og þeir sem standa næst liðinu verða að finna lausnir. Við eigum Evrópuleik gegn GFK Tikves í N-Makedóníu á fimmtudaginn og KR í deildinni á Kópavogsvelli á sunnudaginn.

Ekki dugir að spila eins og við gerðum í gær því þá verður okkur sparkað úr Evrópukeppninni og við munum síga niður töfluna. Lykilmenn liðsins verða nú að stíga upp og fyrsti leikur í þeim áfanga er útileikurinn í N-Makedóníu á fimmtudaginn og svo heimaleikur gegn röndóttum Vesturbæingum á Kópavogsvelli á sunnudaginn kl.19.15.

-AP

Til baka