BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fagrar grænar slaufur

01.12.2021 image

Þá er síðasti mánuður ársins hafinn – komin aðventa – og það er verið að hnýta síðustu fagurgrænu slaufurnar á árið 2021. Síðasti heimaleikur okkar kvenna í Meistaradeildinni er eftir viku,  miðvikudaginn 8. desember, þegar stelpur úr smáklúbbi í þorpi á miðju hálendi Spánar (kalla sig hina raunverulegu Madrid) koma á Kópavogsvöll.

Síðasti leikur landsliðsins á árinu var hinsvegar í gær úti í miðju Miðjarðarhafinu (hlýtur það ekki að vera nafli alheimsins?) og þar voru nú líka grænar slaufur hnýttar.

Kýpur 0 – 4 Ísland

Íslenska kvennalandsliðið hefur oft spilað betur en í gær en leikurinn var alveg bærilegur, sigurinn stórfínn og ekkert lið hefur náð fleiri stigum út úr einum leik en þeim þremur sem landað var. Þá er komið að montkafla þessa pistils en hér verður rakið nokkuð ítarlega hvernig íslenska kvennalandsliðið tengist okkar íðilgræna Breiðabliki.

image

Strákarnir í hópnum, þjálfarar liðsins, eru þokkalega grænir. Steini var náttúrulega búinn að stýra Breiðabliki um langa hríð áður en hann tók við landsliðinu og aðstoðarmaður hans, hann Óli P, er í þjálfarateyminu hjá okkur.

image

Slóð í myndir

Agla María Albertsdóttir, sem ætlar að láta Real Madrid finna fyrir því í næstu viku, var í byrjunarliðinu gegn Kýpur og Blikakonan Natasha Moraa Anasi kom inn á sínum fyrsta keppnisleik með A-landsliði kvenna. Breiðablikskonurnar Telma ÍvarsdóttirKaritas Tómasdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir fengur ekki að spreyta sig í gær og telja sum að þess vegna hafi sigurinn ekki orðið enn stærri ????

Af hverju segi ég það? -Jú, vegna þess að þær sem skoruðu mörkin fjögur í gær voru þær Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Breiðablik 2018-2020), hin uppalda Berglind Björg ÞorvaldsdóttirGuðrún Árnadóttir (Breiðablik 2012-2018) skoraði sitt fyrsta landsliðsmark og Sveindís Jane Jónsdóttir (Breiðablik 2020).

Tvær 2001 stelpur marka­drottningar ís­lenska lands­liðsins á árinu 2021 - Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir. Nánar hér. 

Í byrjunarliðinu var líka Skagakonan Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik 2015-2016), inn á komu Alexandra Jóhannsdóttir (Breiðablik 2018-2020) og Svava Rós Guðmundsdóttir (Breiðablik 2015-2017) en Ingibjörg Sigurðardóttir (í Breiðabliki frá því í 3. flokki 2012) fékk ekki að spreyta sig að þessu sinni með ofangreindum „bara“ 0-4 afleiðingum.

Koma grænu jólin

Keppnistímabil Breiðabliks nær alveg framundir jól. Heimaleikurinn við Real Madrid er næstsíðasti leikur riðlakeppninnar en viku fyrir Þorláksmessu spila Breiðabliksstelpurnar í París. Það er komið stig í sarpinn í riðlinum hjá þessu fyrsta íslenska fótboltaliði sem kemst í riðlakeppni Meistaradeildar og við getum nú alveg lagt okkar af mörkum til að þeim fjölgi í næstu viku og jólaslaufurnar verði jafn grænar og jólatréð sjálft.

image

Miðasala á tix.is 

Áfram Breiðablik!

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka